Veirurannsóknir á Keldum
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum er eina stofnunin á Íslandi sem sinnir rannsóknum á dýrasjúkdómum, þar á meðal veirusýkingum í láðs- og lagardýrum. (Myndband um Tilraunastöðina og starfsemi hennar).
Einn aðalhvatinn að stofnun Tilraunastöðvarinnar á Keldum, árið 1948, var barátta við veirufaraldur, mæði-visnu í sauðfé. Rannsóknir fyrsta forstöðumanns stofnunarinnar, Björns Sigurðssonar (ritstjórnargrein um Björn í IAS), lögðu grunninn að skilningi okkar á veirunni sem veldur mæðiveiki auk skyldra veira, t.d. HIV. (Myndband um rannsóknir á mæði-visnu veirunni á Keldum).
Rannsóknir á mæði-visnu veirunni eru gott dæmi um hvernig rannsóknir á veirusýkingum í dýrum geta gagnast við rannsóknir og skilning á veirusýkingum í mönnum, sér í lagi m.t.t. svokallaðra súna (zoonosis) þ.e.a.s. smitefna sem geta borist milli manna og dýra. Kórónuveiran sem veldur Covid-19 er dæmi um slíka veiru.
Kanínudauði í Elliðaárdal
Sem dæmi um þau verkefni sem berast á borð sérfræðinga Tilraunastöðvarinnar er nýlegur fjöldadauði kanína í Elliðaárdal í lok mars. Þkelduá bárust Keldum dauðar kanínur til athugunar. Þar fór fram krufning, sýnataka og vefjaskoðun. Það vaknaði strax grunur um smitandi lifrardrep af völdum caliciveira, þar sem fjöldi dauðra kanína var mikill og þær virtust drepast snögglega. Einnig varð að hafa í huga aðra mögulega sjúkdómsvalda, svo sem veirusýkingu, þ.e. myxomatosis, sem aldrei hefur greinst hér á landi og er mjög skæð, Salmonella bakteríu sýkingu, svo og eitrun og þá einkum rottueitur sem veldur blæðingum. Í kjölfarið voru sýni send utan til nákvæmari greiningar og þá var staðfest að sýkingin væri af völdum kanínu caliciveiru af gerð 2 (sem nefnist rabbit hemorrhagic disease virus – 2 (RHDV-2)) (frétt á heimasíðu MAST).
Vinstri mynd: Lifrardrep af völdum RHDV-2 - histólógisk mynd (Ólöf Sigurðardóttir). Hægri mynd: Rafeindasmásjármynd af caliciveirum úr saur hests með hitasótt (1998), kvarði 100nm (Vilhjálmur Svansson).
Grunn- og þjónusturannsóknir í veirufræði á Keldum
Almennt má skipta veirurannsóknum stofnunarinnar í þjónusturannsóknir og grunnrannsóknir. Undir þjónustuna falla reglubundnar skimanir og greiningar bráðatilvika, sbr. kanínudauðann, en undir grunnrannsóknir falla langtímaverkefni sem ætlað er að auka skilning okkar á veirum, og sýkingum af þeirra völdum. Á Keldum er auk almennra veirurannsóknarýma að finna fullkomnustu rannsóknastofu landsins af svokölluðum P3 staðli sem er hönnuð til rannsókna á smitefnum sem krefjast slíkrar aðstöðu s.s. vegna gruns um inflúensuveirusýkingar í fuglum og hundaæðis í dýrum.
Dæmi um reglubundnar skimanir fyrir veirum má nefna, að á Keldum er starfrækt fullkomin rannsóknastofa sem er sérútbúin til skimana fyrir fiskaveirum og sinnir m.a. eftirliti fyrir fiskeldisfyrirtæki. (kynningarmyndband um rannsóknastofuna). Rannsóknir á mæði-visnu veirunni og rannsóknir á herpesveirum í hestum eru dæmi um grunnrannsóknir á veirum.
Covid-19
Vegna Covid-19 heimsfaraldursins í mönnum þá hefur nú verið komið upp greiningarprófi fyrir veiruna á Keldum, sem hægt er að grípa til ef grunur vaknar um smit úr mönnum í dýr. Þá hefur Stefán Ragnar Jónsson veirufræðingar skrifað svör á Vísindavef HÍ um veirur, m.a. um frostþol þeirra, sem var síðan útgangspunktur greinar um mögulegt frostþol SARC-CoV-2 á vefmiðlinum Stundinni. Einnig hefur hann setið fyrir svörum í sjónvarpsviðtölum, m.a. ræddi Stefán Ragnar Jónsson við Sævar Helga Bragason um heim veiranna.