Fróðleikur um Keldur

Starfsemi Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hefur verið á Keldnalandi frá árinu 1948, frá upphafi stofnunarinnar og miðað er við þann 15. nóvember það ár.

Björn Sigurðsson,  forstöðumaður 1946 - 1959

Björn Sigurðsson

Fyrsti forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar að Keldum var Björn Sigurðsson (1913-1959). Hann var skipaður í þá stöðu árið 1946 og tveimur árum síðar, 1948 hófst starfsemi að Keldum í nýrri rannsóknastofuaðstöðu.

Björn fæddist 3. mars 1913 á Veðramóti í Skagafirði og lauk kandídatsprófi í læknisfræði árið 1937. Áður en hann hóf störf að Keldum vann hann á Rannsóknastofu Háskólans við Barónsstíg, á sjúkrahúsi Hvítabandsins og í tvö ár var hann við nám og störf við Carlsbergsfondets Biologiske Institut í Kaupmannahöfn. Björn fórtil framhaldsnáms og starfa í Rockefeller Institute í Princeton, New Jersey árið 1941. Rockefellerstofnunin lagði fram styrk til uppbyggingar Tilraunastöðvarinnar að Keldum að því tilskyldu að Björn yrði forstöðumaður.

Björn lést um aldur fram og hafði þá aðeins verið rúman áratug í starfi forstöðumanns Tilraunastöðvarinnar að Keldum. Á stuttri æfi vann hann ótrúlega mikið starf við rannsóknir á sviði meinafræði, bakteríufræði, veirufræði, ónæmisfræði og faraldsfræði.

Björn varð víðfrægur fyrir störf sín og ber hæst rannsóknir hans á hæggengum smitsjúkdómum og skilgreiningar hans á þeim. Á ensku hefur verið vitnað til skilgreininga hans sem „The legacy of Dr. Bjorn Sigurdsson“. Björn Sigurðsson er upphafsmaður hugmynda um sérstakan flokk smitsjúkdóma sem hann nefndi annarlega hæggenga veirusjúkdóma.

Þessar hugmyndir Björns voru byggðar á rannsóknum á ýmsum sýkingum í sauðfé, svo sem votamæði, þurramæði, visnu og riðu, og reyndar hafði hann einnig í huga ýmsar æxlisveirur í músum og fleiri dýrum. Þeir vísindamenn sem vinna að rannsóknum á hæggengum veirusýkingum í mönnum og dýrum víða um heim nú á dögum þekkja og meta brautryðjendastarf Björns Sigurðssonar  á þessu sviði, og nýtur starfsemin á Keldum enn þann dag í dag góðs af þeirri viðurkenningu, sem stofnuninni tókst þegar að afla sér á alþjóðlegum vettvangi á fyrstu starfsárunum. Þetta þýðir að Björn setti fyrstur manna fram kenningu um sérstakan flokk smitsjúkdóma, hæggenga smitsjúkdóma og heldur kenning hans enn velli.

Á Tilraunastöðinni að Keldum tókst Birni og samstarfsmönnun í fyrsta sinn í heiminun að rækta veirur af lentiveiruflokki, en nafnið lentiveirur er dregið af hugmyndum Björns. Þessi veira ber heitið Mæði- visnuveira (MVV) og eftir einangrun á henni tókst Birni og samstarfsmönnum að lýsa ýmsum einkennum sem hún veldur.

Einnig vann Björn ekki síður merkar rannsóknir á riðu og garnaveiki í sauðfé og byggði doktorsritgerð hans frá árinu 1955 á rannsóknum á garnaveiki.

Eftirfarandi ritlisti Björns Sigurðssonar er tekin frá „Björn Sigurðsson dr.med. Ritverk – Collected Scientific Papers 1936- 1962. Útg. Jóhannes Björnsson og Sigurður Björnsson 1990, Reykjavík.“

Ritaskrá

Minningarorð um Björn Sigurðsson rituð af Páli A. Pálssyni í Annals New York Academy of Science 1994

 

Páll Agnar Pálsson,  forstöðumaður 1959-1967

Páll Agnar Pálsson

Páll Agnar Pálsson (1919-2003) var meðal fyrstu sérfræðinga Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og hafði starfsaðstöðu hér í fimm áratugi. Hann var dýralæknamenntaður frá Dýralækna- og Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn og sótti viðbótarmenntun í sýkla- og meinafræði húsdýra víðar erlendis.

Páll Agnar á farsælan feril sem brautryðjandi á Tilraunastöðinni í ýmsum rannsókna- og greiningaverkefnum tengdum dýrasjúkdómum. Einnig vann hann ötullega að því að fyrirbyggja dýrasjúkdóma og útrýmingu þeirra.

Eftir hann liggur langur ritlisti vísinda- og fræðigreina.  Þar er um að ræða sérhæfar niðurstöður vísindarannsókna og ítarlegan fróðleik um ýmsa dýrasjúkdóma og baráttuna við þá. Páll Agnar gegndi stöðu forstöðumanns Tilraunastöðvarinnar í tæpan áratug og stöðu yfirdýralæknis í rúmlega þrjá áratugi.

Minningarorð um Pál Agnar Pálsson rituð af Guðmundi Péturssyni.

Kafli um Pál Agnar Pálsson úr Dýralæknatali Dýralæknafélags Íslands.

Ritlisti Páls Agnars Pálssonar.

 

Guðmundur Pétursson,  forstöðumaður 1967 - 1993  

Guðmundur Pétursson

Guðmundur Pétursson (1933-2017) útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1952 og frá Læknadeild Háskóla Íslands árið 1959. Hann starfaði sem læknir í Vestmannaeyjum, Færeyjum, í Kalmar í Svíþjóð og í Hilleröd. Guðmundur vann við krabbameinsrannsóknir við Sloan Kettering Institute í New York frá 1961 til 1964 og síðan frá 1964 til 1967 á rannsóknastofum í Sviss, Institut Suisses de Recherches Experimentales sur le Cancer og Center for Electron Microscopy við háskólann í Lausanne.

Við heimkomu til Íslands tók hann við sem forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum árið 1967. Því starfi gegndi Guðmundur til ársins 1993, en eftir það vann hann áfram við rannsóknir við stofnunina.

Meðfram starfi sínu á Keldum kenndi Guðmundur við læknadeild Háskóla Íslands frá 1967 og var skipaður prófessor þar 1991 þar til að hann lét af störfum vegna aldurs 2003. Rannsóknir Guðmundar beindust einkum að hæggengum veirusjúkdómum í sauðfé, sérstaklega að mæðivisnuveirunni.

Hann gegndi enn fremur fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Háskóla Íslands og Læknafélag Íslands, átti sæti í stjórnum og vísindanefndum innanlands og utan. Guðmundur skrifaði fjölda vísindagreina og flutti fyrirlestra víða um heim

Rannsóknir og störf, önnur störfvísindagreinarbókarkaflarútdrættir og erindi.

 

Guðmundur Georgsson,  forstöðumaður 1994 - 2001  

Guðmundur Georgsson

Guðmundur Georgsson (1932-2010) varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1952, lauk prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1960, doktorsprófi frá Háskólanum í Bonn 1966, og fékk viðurkenningu sem sérfræðingur í meinafræði 1967.

Guðmundur var aðstoðarlæknir á Landspítalanum 1960-61, héraðslæknir 1961, aðstoðarlæknir við meinafræðideild Háskóla Íslands 1962-63, stundaði sérfræðinám og var síðar aðstoðarlæknir í meinafræði við Háskólann í Bonn 1963-68, sérfræðingur í líffærameinafræði við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum 1968-94, forstöðumaður við sömu stofnun og jafnframt prófessor við læknadeild Háskóla Íslands 1994-2001. Jafnframt stundaði Guðmundur talsverða kennslu á sínu sérsviði við Háskóla Íslands.

Guðmundur gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum. Hann var mikilvirkur og eftir hann liggur mikill fjöldi vísindagreina.

Ferilskrá

 

Aðdragandann að stofnun bókasafnins að Keldum má rekja allt til ársins 1946 er Björn Sigurðsson var skipaður forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar. Þá þegar hófst hann handa við að kaupa bækur og tímarit.

Í upphafi var safnið í nokkrum hillum hjá Háskóla Íslands. Þegar starfsemi Tilraunastöðvarinnar hófst 1948 var bókakosturinn fluttur að Keldum. Björn Sigurðsson var duglegur við að efla bókakost stofnunarinnar og fylgdist vel með því markverðasta sem var gefið út á þessum árum.

Rockefeller-stofnunin í Bandaríkjunum veitti stofnuninni styrk og gerði Keldum kleift að eignast mikilvægar bækur og tímarit þannig að safnkostur Keldna þótti einstakur hér á landi á þessum árum.

Bókavörður safnsins fyrstu árin var Páll Sigurðsson. Hann hafði áður starfað sem aðstoðarmaður Björns og kom með honum að Keldum. Páll vann við ýmis störf önnur t.d. ljósmyndun og bóluefnaframleiðslu þar til hann lét af störfum er hann varð sjötugur 1995, Páll lést skömmu síðar.

Þorsteinn Þorsteinsson, lífefnafræðingur, frá Húsafelli, sá m.a. um skráningu á ýmsum sérprentum, bréfum og skjölum og kom upp skjalasafni stofnunarinnar, Þorsteinn lét af störfum í árslok 1996.

Núverandi húsnæði safnsins var tekið í notkun um 1965 og er það enn í óbreyttri mynd og hefur verið friðað. Hannes Davíðsson arkitekt teiknaði vinnubyggingar að Keldum og dýrahús. Fyrsta byggingin var tekin í notkun 1948 og hófst þá starfsemi stofnunarinnar. Nýbyggingu til aukningar á húsakynnum fyrir rannsóknarstörf var lokið árið 1965. Bókasafnið flutti í þá byggingu árið 1964, en 1965 var frágangi lokið. Bókasafnið þótti höfuðprýði stofnunarinnar og var jafnframt hugsað sem lestrar-, fyrirlestra- og fundarsalur.

Járnhandrið á bókasafninu er líklega hannað af Þorvaldi Skúlasyni. Jón Gunnar Árnason var blikksmiður á þessum tíma og setti það upp, en hannaði það ekki. Hann mun hafa gert verkið sem hangir á innveggnum á neðri hæð bókasafnsins meðan hann var að vinna við handriðið og sennilega hefur það verið upphafið að listamannsferli hans. Það hékk þarna í mörg ár áður en Guðmundur Pétursson lét Keldur kaupa verkið. Veggmyndin ber heitið: Svo er margt sinnið sem skinnið (haft er eftir Páli Agnari Pálssyni að fyrirmyndin væri innyfli úr hval). Á skúlptúrnum eru málmplötur sem hreyfa má og breyta að vild.

Á handriði á efri hæð bókasafnins er koparlistaverk, hannað af Sigurjóni Ólafssyni, hermt er að samskonar veggmynd sé á Búrfellsvirkjun, eftir Sigurjón, þá hönnuð í múrverk (PAP). Sigurjón gerði einnig brjóstmynd af Birni Sigurðssyni, forstöðumanni á Keldum á árunum 1948-1959, sem er á efri hæð bókasafnsins.

Á norðurvegg bókasafnsins er málverk eftir Jóhann Briem. Myndin heitir Rauðhetta og er 90x115 cm. Una Jóhannesdóttir ekkja Björns Sigurðssonar keypti málverkið og gaf Keldum til minningar um Björn þegar hann hefði orðið fimmtugur 3. mars 1963.

Í upphafi var safnið vel búið húsgögnum sem nú eru komin til ára sinna en hafa verði gerð upp að hluta, m.a. eru þar leðurstólar hannaðir af Gunnari Guðmundsyni arkitekt.

Laugardaginn 27. ágúst 1949 fór ég (Halldór Vigfússon) að Grafarholti og átti tal við Björn gamla Bjarnarson (93 ára). Hann sagði mér þetta um örnefni o.fl. í Keldnalandi:

Slöðrið eða slakkinn milli holtanna Grafarholts og Keldnaholts heitir Klofningur. Þar niður vildi Einar skáld Benediktsson veita Úlfarsá1), svo að hún félli í Grafarvog og mætti verða að góðri laxveiðiá í líkingu við Elliðaárnar. Einar eða faðir hans hafði keypt lönd á þessu svæði (Gröf og Keldur) og fengu þeir feðgar Björn, sem var þá ekki enn farinn að búa í Gröf, til að mæla fyrir þessari vatnsveitingu. Birni mældist að skurðurinn þyrfti að vera 11 feta djúpur, þar sem þurfti að grafa dýpst. Var verkið hafið og nokkur dagsverk unnin, en aðrir, sem lönd áttu að Úlfarsá, munu hafa amast við þessari röskun og bannaði Benedikt þá frekari framkvæmdir.

Áður en sneiðin norðan af Keldnalandi var seld undir Korpólfsstaði (Thor Jensen), áttu Keldur slægjuland uppi við Úlfarsá, sem hét Tjarnengi.2)

Lautin austan við túnið á Keldum, þar sem sumarhús Einars Pálssonar stendur nú, heitir Kúalág. Það nafn er frá þeim tímun er kýr voru látnar liggja úti á nóttum og lágu þær þá einna helst þar.

Fyrir norðan Keldnabæinn og upp af honum er Keldnaholt. Vestan í því er Keldnakot. Þar var búið fram á seinni hluta síðastliðinnar aldar. Utan í Keldnaholti, norður af Kotinu, er hóll sem heitir Skyggnir.

Suðvestur af kotinu gengur grjóthóll út úr holtinu. Suður og niður af honum var svo kallaður Lambarimi, nú sléttaður og ræktaður í tún, nyrsta nýræktin. Nafnið kom til af því að riminn var áður sleginn næst á eftir túninu og þótti hey af honum gott og var ætlað lömbum.

Mýrardragið upp með Keldnaholti að vestan heitir Keldnasund eða Sundið. 

Á hábungunni beint vestur af Keldum er hringmynduð rúst, kölluð Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft. Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðardóttir Snæfellsáss og sótt sér í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti, nyrst á Geldinganesi.3)

Niðri við Grafarvog, í mörkum Keldna- og Gufunesslands, heitir Kattarnef. Góðan spöl innar gengur lítil og lág eyri út í voginn. Hún heitir Naustatangi. Þar höfðu Keldnamenn lendingarstað og uppsátur fyrir báta, sem voru aðallega notaðir til hrognkelsaveiða. Voru þær veiðar stundaðar nokkuð frá bæjunum við Grafarvog, þó óhentugt væri vegna útfiris, en netalagnir voru út undan Gufuneshöfða.

Í fjöruborði milli Kattarnefs og Naustatanga skagar allmikil eyri út í voginn frá suðurlandinu (Grafarholtslandi). Á þessari eyri og síðan þvert yfir voginn er gamall grjótgarður, sem sést vel um fjöru. Þetta mannvirki segir Björn, að heiti frá fornu fari Síldarmannagarður. En síðustu not, sem hann veit til, að menn hafi reynt að hafa af garðinum, voru þó til laxveiði. Um það hafði hann fyrir sér frásögn Ólafs Stephensens frá Viðey, sem hafði sjálfur verið við þá veiðitilraun. Það mun hafa verið á árunum 1870-80. Um flóð eða með byrjandi útfalli var dregið net í hlið, sem var á garðinum, og var ætlunin að króa fiskinni inni, svo að hann fjaraði uppi. Var mikill lax fyrir innan og enda selur. En undan útfallinu settist slý og þaraslæðingur í netið, og fiskurinn lagðist fast á, og undan þessum þunga öllum sprakk netið, svo að afli varð lítill eða enginn. Þessi garður er nú allmikið raskaður af sjávarfangi og af völdum veiðimanna, er voru þar með laxakláfa um og eftir síðustu aldamót.4)

Í botni Grafarvogs eru grjótgarðar, sem mynda litla kví við ós Grafarlækjar. Þar hagar þannig til, að Keldnamegin við ósinn gengur fram smáeyri eða hryggur, og þar hefur því ekki þurft mikla hleðslu, aðeins að raða steinum ofan á. Grafarholtsmegin hefur hleðslan þurt að vera hærri, og þar er mjótt hlið á garðinum fyrir lækjarrennslið og sjávarföll. Þetta heitir Króargarður og mun hafa verið gerður kringum 1870 til laxveiði.

Landarmerki milli Grafarholts og Keldna segir Björn, að sé bein lína frá Grafarvaði á Úlfarsá í Grafarlæk, þar sem hann beygir fyrir Svartabakka. Þaðan ræður lækurinn til sjávar.

Örnefnatalningunni má ljúka með því að geta þess, að holtið þar sem nýi vegurinn 

að Keldum kemur á aðalveginn, heitir Nónholt og var eyktarmark frá Gröf. En ekki kvaðst Björn kunna að skilgreina með vissu eyktarmörk frá Keldum.

Halldór Vigfússon

1) Þetta er hið forna og upphaflega nafn árinnar (sbr. Landnámu) en hún er nú oftast nefnd Korpólfsstaðaá, Korpa, eða eftir öðrum bæjum sem eiga land að henni, einkum þar sem vöð voru á ánni. Björn segist hafa átt hlut að því að nafni Kálfakots var breytt í Úlfarsá til þess að festa hið forna nafn.

2) Samnefnt slæguland var einnig frá Grafarholti litlu ofar. Á þeim slóðum byggði tengdasonur Bjarnar (Hreiðar Gottskálksson) nýbýlið Engi. Þar er hvylft mikil, sem heitir Flykkisgróf, og segir Björn, að hún sé norðaustur endinn á langri gjá, sem muni mega rekja við og við allt suðvestur að Kleifarvatni. Í gjá þessari hyggur Björn að vera muni afrennsli Kleifarvatns og komi fram í Kaldá. (Hann hefur þó að vísu ekki komið lengra suður en í Gjárétt).

3) Skrýtilegt er það, að vestast á Viðey er klettadrangur, sem heitir Helguhóll eða Kelguklettur, og Helgusker er í Kollafirði.

4) Sem hliðstæðu við þennan garð bendir Björn á, að inni í Hvalfjarðarbotni er til örnefnið Vogargarðslág, þó að garður sjáist þar nú enginn. Þar eru og Síldarmannagötur.