Rannsóknadeild fisksjúkdóma
Þjónusturannsóknir Rannsóknadeildar fisksjúkdóma lúta að reglubundinni leit að tilteknum sýklum sem reynst geta hættulegir lagardýrum og almenn greining sjúkdóma sem upp koma í fiskum og skeldýrum, villtum og í eldi. Fyrra atriðið er grunnur að vottorðagjöf til þess að auka öryggi við dreifingu afurða á markaði, utanlands sem innan en seinna atriðið er m.a. forsenda sjúkdómavarna og sjúkdómsmeðferða, svo sem lyfjagjafa.
Finna má ítarlegan lista yfir þjónusturannsóknir Rannsóknadeildar fisksjúkdóma í gjaldskrá Keldna.
Nákvæmar greinargerðir um þjónusturannsóknir Rannsóknadeildar fisksjúkdóma má finna í kaflanum "Þjónusturannsóknir vegna fisksjúkdóma" í ársskýrslum Keldna.
Viðfangsefni rannsókna
Greiningar á bakteríum eru gerðar með ræktunum og mótefnaprófum (ELISA fyrir nýrnaveikibakteríu). Nánari tegundagreining baktería sem vaxa í rækt er síðan gerð með 16s PCR mögnun og raðgreiningu ásamt öðrum prófum eins og kekkjunarprófum. Nánar má lesa um bakteríugreiningar á Rannsóknadeild fisksjúkdóma í kaflanum "Þjónusturannsóknir vegna fisksjúkdóma" í ársskýrslum Keldna.
Veirufræðisvið fisksjúkdómadeildar skimar fyrir veirum með PCR mögnun og ræktun í frumum. Fyrir PCR próf eru sértækir vísar notaðir til að skima fyrir ákveðnum veirum. Þetta er mjög öflug aðferð, en vegna þess hve sértæk hún er, þá er einungis hægt að greina þær veirur sem skimað er fyrir. Í frumum má rækta fiskaveirur ósértækt og hægt er að greina nýjar veirur. Ef veira vex í ræktinni, þá er í framhaldinu skimað með PCR til að greina hvaða veira er til staðar. Nánar má lesa um veirugreiningar á Rannsóknadeild fisksjúkdóma í kaflanum "Þjónusturannsóknir vegna fisksjúkdóma" í ársskýrslum Keldna.
Greiningar á sníkjudýrum og sveppum í fiskum og skelfiski fela í sér krufningu fiska/skelfiska og smásjárskoðun sýna, ýmist á ferskum sýnum eða lituðum vefjasneiðum. Þótt slíkar rannsóknir gefi einungis grófa hugmynd um gerð/tegundir sníkjudýra og sveppa, eru þær í mörgum tilfellum fullnægjandi, einkum ef um er að ræða tegundir sem algengt er að hrjái lagardýr. Í sumum tilfellum er þó þörf á nánari greiningum. Í slíkum tilfellum er erfðaefni einangrað og sýni keyrt í PCR prófi, með sértækum erfðavísum.
Óhagstætt umhverfi/vatnsgæði skapar oft valdamál hjá fiskum, einkum í eldi. Dæmi um slíkt er yfirmettun lofttegunda (sem veldur loftbóluveiki) og þörungablómi í opnum eldiskerfum. Á Rannsóknadeild fisksjúkdóma er slíkum rannsóknum sinnt með krufningu, víðsjár- og smásjárskoðun eftir því sem við á.
Vefjameinafræði eru ríkur þáttur í rannsóknum fisksjúkdómadeildar. Saman með öðrum rannsóknaraðferðum (s.s. PCR) er vefjaskoðun sýna öflug aðferð til greininga á sýklum og/eða vefjaskemmdum sem þeir valda. Slíkar rannsóknir eru einnig notaðar til að kanna almennt heilbrigðisástand lagardýra.
Á fisksjúkdómadeild Keldna eru ýmis rannsóknarverkefni í gangi sem tengjast smitsjúkdómum af völdum baktería, veira og sníkjudýra. Rannsóknarverkefnin eru gjarnan unnin í samvinnu við fiskeldisfyrirtæki, þar sem unnið er með sýkla sem einangraðir eru úr þjónustuverkefnum. Einnig eru verkefni sem unnin eru í samstarfi við innlendar eða erlendar rannsóknarstofnanir, einkaaðila eða fiskmarkaði.
Nánar má lesa um grunnrannsóknir á Rannsóknadeild fisksjúkdóma í kaflanum "Rannsóknir á sjúkdómum, sníkjudýrum og ónæmisfræði fiska" í ársskýrslum Keldna.
Ásthildur Erlingsdóttir - PhD verkefni - Piridium sociabile, brúin milli sníkjudýra og frítt lifandi lífvera.
Hrólfur Smári Pétursson - MS verkefni - Uppruni og ástæður Ichthyophonus hoferi faraldurs í íslenskri sumargotssíld.