Rannsóknir á Piridium sociabile; brúin milli frítt lifandi lífvera og sníkjudýra

Ásthildur Erlingsdóttir, doktorsnemi á Keldum, vinnur um þessar mundir að rannsóknum á Piridium sociabile (P. Soc.). Meginmarkmið verkefnisins er að afla grunnupplýsinga um líffræði og lífsferil P. soc. sem er þróunarfræðilega einstakt snýkjudýr og finnst í fæti beitukóngs (Buccinum undatum), en beitukóngur er algengur sæsnigill við Íslandsstrendur.

Með verkefninu er stefnt á að auka þekkingu á P. soc. Lífveran var upphaflega talin vera hluti af Apicomplexa, en nýlega hefur verið sýnt fram á að hún sé í raun forfaðir hópsins og er skyldust Chromerida, sem eru ljóstillífandi og frítt lifandi lífverur.

Í verkefninu verður útbreiðsla og smittíðni sníkjudýrsins kortlögð, bæði við strendur Íslands og erlendis. Auk þess verður tegundasérhæfni metin.
Lífsferli sníkjudýrsins verður lýst, sem og öllum lífsstigum sem eru hluti af þroskaferli þess ásamt smitferli.

Einnig verður útlitseinkennum dýrsins lýst í smáatriðum með rafeindarsmásjárskoðun og þau borin saman við þekkt lífsstig skyldra hópa, þ.e. chromerida, colpodellida, apicomplexa og perkinsida. Áhrif sem sníkjudýrið kann að hafa á hýsil sinn verða metin með vefjameinafræðilegum aðferðum.

Niðurstöður rannsóknarinnar munu ekki aðeins auka þekkingu á sníkjudýrinu sjálfu, heldur einnig varpa nýju ljósi á þróun sníkjulífs og mögulega tegundamyndun P. soc. og samþróun tegunda ásamt mismunandi hýslum.