Reglulega berast til landsins dýrategundir sem teljast framandi tegundir í íslenskri náttúru. Oft berast þau með fraktflutningum til landsins, t.d. með matvælum. Til dæmis um þetta má nefna að ekki er langt síðan leðurblaka fannst í Kjósinni og 2018 veiddist þvottabjörn nálægt Höfnum á Reykjanesi.

Mikilvægt er að viðbrögð við slíkum fundum séu skilgreind og samhæfð. Samstarfshópur Matvælastofnunar, Tilraunastöðvar HÍ að Keldum, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og Hafrannsóknarstofnunar hefur gefið út sameiginlega áætlun um vibrögð við því þegar slíkar framandi tegundir finnast.

Nánar má lesa um þessa áætlun í fréttatilkynningu á heimasíðu Matvælastofnunar en þar segir m.a.: "Tilgangurinn með áætluninni er að tryggja að rétt sé staðið að handsömun, aflífun, sýnatökum og rannsóknum á dýrinu, og varðveislu eða eyðingu á hræi. Þetta er mikilvægt til að hindra eins og kostur er útbreiðslu smitefna sem dýrið getur hugsanlega borið með sér og að hræ dýrsins sé meðhöndlað á þann hátt að það megi varðveita ef það er talið áhugavert."

Mynd af þvottabirni af Wikipedia (Darkone, CC BY-SA 2.5 <https://creativecommons.org/licenses/by-sa/2.5>, via Wikimedia Commons)