Um riðugreiningar á sauðfé á Keldum

Í ár eru 75 ár frá stofnun Tilraunastöðvar H.Í. í meinafræði að Keldum en á Vísindadegi Keldna þann 19. apríl n.k. mun Stefanía Þorgeirsdóttir, líffræðingur á Veiru- og sameindalíffræðideild halda erindi um riðurannsóknir og verndandi arfgerðir í sauðfé.

Rannsóknir á riðu og öðrum hæggengum sauðfjársjúkdómum hafa farið fram á  Keldum frá upphafi stofnunarinnar. Eina aðferðin til að greina riðusmit með vissu í einstaklingi er að ná vefjasýni úr heila og greina með sértækum aðferðum. Þar sem sjúkdómurinn er mjög hæggengur og fyrstu einkenni geta verið illgreinanleg, er hætta á því að riða náði fótfestu í hjörð áður en nokkur grunur vaknar. Vakni grunur hjá sauðfjárbónda um riðusmit tilkynnir hann það til héraðsdýralæknis hjá Matvælastofnun (Mast).

Keldur taka við sýnum úr slíkum gripum og greina með vottuðum aðferðum. Þegar sýnin berast eru þau greind með ELISA-aðferð. Fyrstu niðurstöður liggja vanalega fyrir 4-6 klst síðar. Reynist sýnið jákvætt er ELISA prófið endurtekið. Jafnframt er gert staðfestingarpróf og aðgreining á hefðbundinni og óhefðbundinni riðu (Nor98) með próteinþrykki (western blot). Ef niðurstöður þessa tveggja prófa eru samhljóma senda Keldur staðfestingu til Mast, sem þá setur af stað viðbragð og smitrakningu. Í tengslum við aðgerðir í Miðfjarðarhólfi undanfarna daga hafa nú þegar komið til greininga tæplega 700 sýni á riðurannsóknastofu Keldna og er unnið að greiningu þeirra.

Auk riðurannsókna hafa arfgerðagreiningar á príon-geni sauðfjár verið framkvæmdar á Keldum síðastliðin 28 ár. Aukinn áhugi er á því að nýta ónæmar og/eða lítið næmar arfgerðir í baráttunni við útbreiðslu riðu.

Keldur eru aðilar að rannsóknar- og átaksverkefni um arfgerðargreiningar á sauðfé í samstarfi við Eyþór Einarsson hjá RML og Karólínu Elísabetardóttur, auk Matís og samstarfsaðila í Þýskalandi. Verkefnið fór af stað árið 2021 og hafa verið greind sýni úr tæplega 30 þúsund gripum frá rúmlega 600 bæjum víðs vegar af landinu. Í verkefninu fannst í fyrsta sinn í íslensku fé ARR arfgerðin sem er viðurkennd sem verndandi gegn riðusjúkdómnum.

Á Keldum starfa dýralæknar, líffræðingar og fleiri sérfræðingar sem byggja rannsóknir á riðu á þekkingu sinni á sjúkdómafræði dýra, sameindalíffræði, kynbótafræði, erfðafræði og sögu sauðfjársjúkdóma á Íslandi.

Um þetta og margt fleira verður fjallað á Vísindadegi Keldna en hér má nálgast dagskrá Vísindadagsins, ágrip erinda og Zoom streymi á dagskrá Vísindadagsins.