Matvælaráðuneytið óskaði eftir því í júlí 2022 að Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum ynni vísindarannsókn á blóðhag hryssna sem eru í reglulegri blóðsöfnun á vegum fyrirtækisins Ísteka ehf. Ástæða þess að ráðuneytið óskaði eftir því að Keldur ynnu rannsóknina er að þar eru starfandi sérmenntaðir dýralæknar sem eru reyndir í vísindastörfum og túlkun rannsóknaniðurstaðna. Auk þess kölluðu vísindamenn Keldna til sérfræðing í tölfræðigreiningu á gögnum um líffræðileg kerfi og erlendan dýralækni sem sérhæfir sig í rannsóknum og mati á velferð dýra. Samhliða skýrslu sem gefin var út í byrjun febrúar, var unnin vísindagrein sem nú hefur birst eftir ritrýni þriggja sérfræðinga í lífeðlisfræði, atferli og blóðhag hrossa (Charlotta Oddsdóttir o.fl. 2024). Það er því hæpið að taka orð fólks sem ekki hefur þekkingu á lífeðlisfræði hrossa fyrir því að ályktanir skýrslunnar séu dregnar á röngum forsendum, en það er fullyrt í grein sem rituð er fyrir hönd samtaka um dýravelferð á Íslandi og birtist á vef Heimildarinnar 5. mars 2024.

Við vinnu rannsóknar sem þessarar er nauðsynlegt að gera skil þeim ferlum sem liggja að baki blóðmyndun hjá hrossum. Þvert á það sem höfundar greinarinnar halda fram, eru hross um margt mjög ólík öðrum dýrategundum, þar á meðal mönnum, hvað varðar blóðmyndun, viðbrögð við blóðtapi og birtingarmyndir þeirra viðbragða í mældigildum blóðs.

Áður en rannsóknin var unnin hafði verið látið að því liggja, út frá því sem þekkist hjá kvendýrum af tegundinni maður, að hryssur þjáðust almennt af blóðleysi á meðgöngunni. Það kom skýrt fram í niðurstöðum rannsóknarinnar að hryssur þjáðust ekki af blóðleysi, þvert á móti. Þetta er í samræmi við áður birtar greinar um efnið, þar sem hefur komið skýrt fram að hryssur eigi almennt ekki á hættu að líða fyrir blóðleysi á meðgöngu (Satué o.fl. 2023). Þetta er eitt af mörgum dæmum um rangtúlkun sem byggir á því að hross séu manngerð og lífeðlisfræðilegir þættir séu heimfærðir frá einni dýrategund yfir á aðra.

Höfundar skýrslunnar misskilja alveg að um tvenns konar viðmiðunarbil er að ræða. 

  1. Viðmiðunarbil um eðlileg blóðhagsgildi, sem fengin eru með því að taka tillit til 90% af mældum gildum en það þýðir ekki að þau 10% gilda sem liggja fyrir utan þetta bil séu merki um sjúkdóm eða óeðlilegt ástand. Efstu mörk blóðleysis eru þannig ekki endilega þau sömu og neðstu mörk eðlilegs blóðhags og heilbrigður einstaklingur getur fallið fyrir utan viðmiðunargildi um eðlilegan blóðhag.
  2. Viðmiðunarbil fyrir blóðleysi, en engin slík hafa verið gefin út fyrir kaldblóðshross eins og til dæmis íslenska hestinn. Þau viðmiðunarbil fyrir blóðleysi sem skilgreind voru í skýrslunni byggja meðal annars á rannsókn Balan o.fl. (2018) þar sem rannsökuð voru hross af ýmsum ræktunarkynjum og notast við eftirtalin gildi blóðfrumnahlutfalls (Hct): ≥ 30% - < 34% sem mörk vægs blóðleysis hjá varmblóðshrossum, ≥ 20% - < 30% fyrir miðlungsblóðleysi og < 20% fyrir greinilegt blóðleysi. Höfundar notuðust við lægstu eðlilegu viðmiðunargildi Hct fyrir varmblóðshross (32%) við sína skilgreiningu. Þeir notuðust einnig við lægstu eðlileg viðmiðunargildi (24%) fyrir kaldblóðshross en komust einnig að því í sinni rannsókn að heilbrigð kaldblóðshross, eins og íslenski hesturinn mældust að staðaldri með 18% lægri gildi blóðfrumnahlutfalls og blóðrauða en heitblóðshross.

Viðmiðunarbil um eðlileg blóðhagsgildi sem reiknuð voru út frá mæligildum í rannsókn Keldna sýndu að hryssur voru fjarri því að líða fyrir blóðleysi áður en blóðsöfnunartímabilið hófst. Þessi niðurstaða um eðlilegan blóðhag segir þó lítið um það við hvaða gildi þær líði blóðleysi, þar sem viðmiðunarbil um það eru ekki til. Höfundar skýrslunnar þurftu því að skilgreina viðmiðunarbil blóðleysis hjá hryssunum út frá áðurnefndum vísindagögnum um hross af heitblóðsættum og eðlileg viðmiðunarbil fyrir kaldblóðshross. Leitast var við að ekki lægju einstaklingar óbættir hjá garði og því tekin víðari bil en ella, þ.e. að 24% - 26% væru merki um milt blóðleysi, þó svo 24% séu eðlileg neðri mörk hjá kaldblóðshrossum. Lægsta mælda gildi sem mældist í þeim efniviði sem notaður var til að reikna út eðlilegt viðmiðunarbil fyrir hryssurnar voru 26,2% hjá heilbrigðri hryssu.
 
Það verður að benda á að þau viðmiðunarbil blóðleysis sem til eru fyrir hross af heitblóðsættum (heitblóðs- og varmblóðshross) byggjast á mælingum á hrossum sem sýna klínísk einkenni blóðleysis, svo sem úthaldsleysi í reið og minnkuð afköst í vinnu. Hross sem ganga undir sjálfum sér í haga, jafnvel þó um sé að ræða hryssur sem eru fylfullar á fyrsta þriðjungi meðgöngu, og jafnvel þó þær séu með folald undir sér, þurfa ekki að afkasta súrefnisháðri vöðvavinnu. Það vanmetur því ekki þeirra þörf fyrir rauðfrumur og blóðrauða að miða við þau eðliðlegu blóðhagsviðmið sem skilgreind eru fyrir kaldblóðshesta í súrefnisháðri vöðvavinnu og blóðleysisviðmið fyrir hross af heitblóðsættum.
 
Þessar rangfærslur Samtaka um dýravelferð á Íslandi voru hermdar upp á starfsfólk Keldna af blaðamanni Kveiks áður en þáttur um málefnið fór í loftið í síðustu viku, en útskýringar og mótrök fengu ekki pláss í þættinum þar sem blaðamaður bar við tímaleysi.

Aðrar rangfærslur greinarhöfunda eru eftirtaldar:

Viðmiðunargildi blóðleysis í hrossum eru byggð á blóðfrumnahlutfalli (Hct/PCV) en ekki blóðrauða (Hgb) eins og hjá mönnum. Það kom þó fram í rannsókninni að Hgb og Hct gildi fylgjast mjög vel að, þó svo að notkun Hct sé næmari mælikvarði, einkum þar sem til eru viðmiðunargildi fyrir þann mæliþátt. Greinin í Heimildinni ber vitni um að höfundar hafi dregið beinar ályktanir frá mönnum yfir á hross.

Höfundar greinarinnar halda því fram að snúið hafi verið við blaðinu í miðri rannsókn og leitað annarra viðmiðunargilda en þeirra sem reiknuð voru fyrir hryssurnar, en þar er um grundvallar-misskilning greinarhöfunda að ræða, sem rugla saman viðmiðunargildum um eðlilegan blóðhag og viðmiðunargildum um blóðleysi.
 
Þegar kemur að blóðleysi er mikilvægt að greina á milli varanlegs blóðleysis og blóðleysis sem á sér afmarkaða orsök, og er skammvinnt vegna mótvægisaðgerða líkamans. Ein hryssa í rannsókninni sýndi mælanleg einkenni blóðleysis. Engar hinna hryssnanna báru merki langvarandi blóðleysis, eða merki um að mótvægisaðgerðir gegn blóðtapi hefðu ekki árangur.

Hvergi er vitnað í viðmiðunargildi fyrir asna í skýrslunni, en það sem höfundar greinarinnar hafa líklega misskilið er að bókarkafli sem vísað er í heitir „Normal hematology of the horse and donkey“ og er í 6. útgáfu bókarinnar Schalm’s Veterinary Hematology. Hvort sem misskilningur höfunda byggist á hroðvirknislegum vinnubrögðum, hroka eða rætni er þetta ósönn fullyrðing.

Einnig verður að benda á að rannsókn Balan o.fl. (2018) var byggð á blóðsýnum úr 322 hrossum alls, þar af voru 182 heilbrigð en 140 þeirra, þar af 4 kaldblóðshross, voru með blóðleysi eða annan sjúkdóm. Eins og áður kom fram voru blóðleysisviðmið þeirra höfunda byggð á varmblóðshestum, enda voru þau stærsti einstaki hópurinn sem greindist með blóðleysi (n = 66). Ekki voru í þeirri rannsókn dregnar neinar ályktanir um blóðleysisviðmið fyrir kaldblóðshross, og það er því rangt sem greinarhöfundar Heimildarinnar halda fram að hafi verið viðmiðið í skýrslu Keldna.

Athugasemdir greinarhöfunda við fjölda blóðsöfnunarvikna fyrir hverja hryssu og muninn á fjölda vikna milli stóðanna tveggja hlýtur að byggja á vanþekkingu höfundanna á því hvernig blóðsöfnunin fer fram. Ástæðan fyrir því að ekki er safnað átta sinnum úr öllum hryssum er, að styrkur hormónsins eCG er einstaklingsbundinn, og helst mislengi nægilega hár til þess að vinnsla úr blóði sé forsvaranleg. Það er þannig við því að búast að ekki sé safnað jafnoft úr öllum hryssum. Það er rétt að safnað var blóði sjö eða átta sinnum úr mun hærra hlutfalli hryssna á Norðurlandi heldur en á Suðurlandi, en þar ræður lífeðlisfræðilegur breytileiki í hormónastyrk, ekki hversu vel hryssurnar standa blóðsöfnunina almennt af sér. Við úrvinnslu gagna voru notuð tölfræðilíkön sem gerðu ráð fyrir þessum breytum til þess að fá sem réttasta mynd. Þessar athugasemdir eru því á misskilningi byggðar og einfalt að skýra.

Blóðsýnatöku í rannsókninni var hagað þannig, að strax fyrir hverja blóðsöfnun var tekið blóðsýni sem gæfi mynd af blóðhag þeirrar hryssu sem verið væri að safna blóði úr. Jafnframt því voru tekin blóðsýni úr hryssum sem lokið var blóðsöfnun úr á yfirstandandi tímabili, til þess að fylgjast með vikulegri endurheimt eftir að blóðsöfnun lauk, í allt að þrjú skipti eftir síðustu blóðsöfnun. Það er því rangt sem haldið er fram að færri blóðsýnatökur séu án útskýringa, enda er þessu lýst í aðferðafræði¬kaflanum.

Rétt er að það hefði mátt taka fram hvernig stóðin í rannsókninni voru valin, en það var kynnt fyrir matvælaráðuneyti á sínum tíma. Þetta er annar fróðleiksmoli sem blaðamaður Kveiks afþakkaði í umfjöllun sinni. Valið fór þannig fram að vísindamenn sem stóðu að rannsókninni ákváðu eftirtalin skilyrði sem stóðin þyrftu að uppfylla: Þar sem blóðsöfnun fer aðallega fram á Norðurlandi og á Suðurlandsundirlendinu þótti þörf á að rannsaka stóð á báðum landsvæðum. Stóðin þurftu einnig að vera nægilega stór (50-120) til þess að fá sem flesta einstaklinga til mælinga (það er afar sjaldgæft að allar hryssur í stóðinu mælist með nægan hormónastyrk til að blóðsöfnun sé gerð, jafnvel þó þær fyljist). Upplýsingar um stóð sem uppfylltu þessar kröfur fengust frá Ísteka og völdu vísindamenn Keldna eitt stóð á Norðurlandi og eitt á Suðurlandi.

Tölfræðigreining var gerð á 160 hryssum, en nokkrar hryssur voru undanþegnar tölfræðigreiningu vegna þess að upplýsingar vantaði eða þær voru ekki í blóðsöfnun hvert skipti, en í fylgiskjali við skýrsluna koma fram hæstu og lægstu mæligildi þessara hryssna, svo þeim upplýsingum er ekki haldið fyrir utan skýrsluna.

Lokaorð

Vísindarannsókn Keldna snerist um það að mæla blóðhag hryssna án þess að auka álagið á þær. Rannsóknin krafðist mikils utanumhalds og nákvæmni til þess að tryggja að sýnin nýttust sem best og að upplýsingar væru nægar. Þetta var því  mjög hagnýt rannsókn en einnig mjög afmörkuð um blóðhagsmælingar. Mikill tími fór í að kynna sér ítarlega fyrirliggjandi þekkingu og upplýsingar skoðaðar með gagnrýnum huga. Það er því hryggilegt að mikil og vönduð vinna hljóti þann dóm að vera gölluð, að mati fólks sem hvorki hefur þekkingu á dýraheilbrigðisvísindum og rannsóknum á þeim, né hefur kynnt sér aðferðafræði rannsóknarinnar eða þá þekkingu sem hún byggir á, heldur leggur skoðanir sínar þar að jöfnu.

Það er mikilvægt að hafa í huga að niðurstöður skýrslunnar eru byggðar á mælingum í tveimur stóðum. Þó svo að þær gefi ákveðna mynd af stöðunni í þessum tveimur stóðum ber að varast að draga ályktanir um allar hryssur sem safnað er blóði úr á landinu. Ekki má heldur út frá þessu ganga út frá því að sá munur sem sést milli stóðanna tveggja sé vísbending um landshlutamun. Í framhaldinu er mikilvægt að rannsaka þá þætti sem mögulega geta haft áhrif á muninn milli stóða, og sérstaklega með mælingum á styrk og hlutföllum snefilefna í jarðvegi og beitargróðri, enda er það nokkuð sem getur haft áhrif á öll þau hross sem beitt er á sama svæði á Suðurlandi.

Balan M, McCullough M, O’Brien PJ. (2019). Equine blood reticulocytes: reference intervals, physiological and pathological changes. Comp Clin Pathol, 28, 53–62.  https://doi.org/10.1007/s00580-018-2820-4
Charlotta Oddsdóttir, Hanna Kristrún Jónsdóttir, Erla Sturludóttir, Xavier Manteca Vilanova (2024). The effect of repeated blood harvesting from pregnant mares on haematological variables. Animals, 14, 745. https://doi.org/10.3390/ani14050745
Charlotta Oddsdóttir, Hanna Kristrún Jónsdóttir, Erla Sturludóttir. (2023). Haematological reference intervals for pregnant Icelandic mares on pasture. Acta Vet Scand, 65, 57-63. https://doi.org/10.1186/s13028-023-00721-x
Satué K, Fazio E, La Fauci D og Medica P. (2023). Hematological indexes and iron status in pregnant mares. Arch Anim Breed, 66, 197–205. https://doi.org/10.5194/aab-66-197-2023