Smámý og ofnæmisvakar

Sumarexem er ofnæmi gegn próteinum í munnvatni smámýstegunda af ættkvíslinni Culicoides. Culicoides tegundir eru yfir þúsund talsins í mörgum undirættkvíslum. Þær eru landlægar um allan heim nema á Suðurskautslandinu og Nýja Sjálandi (Augot et al., 2017). Til skamms tíma fundust þær ekki á Íslandi en nú er hér a.m.k. ein tegund Culicoides reconditus, sem kölluð hefur verið lúsmý. Þessi tegund virðist aðallega leggjast á fólk og hefur ekki valdið sumarexemi í hestum enn sem komið er. Smámý eru örsmáar flugur minni en íslenska bitmýið (Simulium vittatum), sem líka bítur hross. Bitmý veldur ekki sumarexemi en hestar sem komnir eru með sumarexem svara oftar en ekki líka á bitmý (Torsteinsdottir et al., 2018)

Nærmynd af lúsmýi

Þegar smámýið bítur hrossin þá spýtir það inn blöndu af próteinum sem auðveldar flugunum að sjúga blóð. Þessi prótein vekja ofnæmisviðbrögð í vissum einstaklingum og kallast þá ofnæmisvakar. Nauðsynlegt er að greina og framleiða endurraðaða ofnæmisvaka til að hægt sé að þróa ofnæmisvaka sérhæfða ónæmismeðferð (allergen specific immunotherapy).

Hér til hægri er mynd af Culicoides tekin af Karli Skírnissyni.

 

Um 30 mismunandi ofnæmisvakar ættaðir úr munnvatnskirtlum smámýstegunda hafa verið einangraðir og tjáðir í E. coli, (Langner et al., 2009; Schaffartzik et al., 2010 and 2011; Peeters et al., 2013; van der Meide et al., 2013). Fjölmargir ofnæmisvakanna hafa líka verið tjáðir í skordýrafrumum (Stefánsdóttir 2015, Kristínarson 2017, Guðnadóttir 2021) og átta í byggi. Til að ákvarða mikilvægi einstakra vaka var gerð kortlagning með örflögutækni (Component-resolved microarray analysis). Prófuð voru sermi úr 199 sumarexemhestum og 148 heilbrigðum samanburðarhestum á rúmlega 27 mismunandi ofnæmisvökum (Novotny et al.,2021). Hestar sem fá sumarexem næmast á sama tíma gegn mörgum smámýs ofnæmisvökum (Birras et al., 2021).

Niðurstöður þessara rannsókna eru sett fram í súluritinu hér að neðan sem sýnir IgE svörun gegn 27 endurröðuðum smámýs ofnæmisvökum. Á myndinni er samanburður milli svörunar íslenskra hesta (n=120) og hesta af öðrum kynjum (n=79) í Sviss. Marktækur munur milli hópa (Fisher´s exact próf) er sýndur með stjörnu á myndinni (skematísk mynd úr Novotny et al., 2021).