Riða og riðuskimun

Image
Mynd af hrúti

Riðuveiki í kindum hefur verið þekkt á Íslandi í meira en 140 ár og valdið miklum búsifjum í áranna rás. Riða er ólæknandi smitsjúkdómur sem leggst á taugakerfið og engin meðferð né bólusetning er möguleg.  Smitefnið er prótein sem finnst á eðlilegu formi í öllum spendýrum, svokallað príonprótein, sem á umbreyttu formi verður smitandi og afar þolið.
 

Greining sjúkdómsins byggist á mælingu á riðusmitefninu í heilasýnum.  Árið 2005 var byrjað að nota Elísu-próf  til riðuskimunar í stað hefðbundinnar vefjalitunar.

Komið var upp rannsóknaraðstöðu á Tilraunastöðinni, þar sem eingöngu er unnið að rannsóknum á riðusjúkdómnum. Elísu-prófið (TeSeE, Bio-Rad) byggist á einangrun riðusmitefnisins úr heilavef, þ.e. mænukylfu og litla heila, og mælingu á magni þess með mótefnaprófi.   Til að staðfesta riðusmit ef sýni reynast jákvæð í þessu prófi, er notað próteinþrykk.

Með Elísu-prófinu er hægt að greina kúariðu og klassíska riðu í kindum en auk þess greinir það óhefðbundin riðutilfelli öðru nafni Nor98 riðu. Þau hafa greinst víða í Evrópu á síðustu árum, en hér á landi hafa Nor98 riðutilfelli greinst á sjö bæjum, það fyrsta frá árinu 2004. Þessi riðutilfelli greinast oft í eldra fé og oftast er bara um eina jákvæða kind að ræða í hverri hjörð.    

Helstu einkenni þessara tilfella er önnur dreifing vefjaskemmda og uppsöfnunar smitefnis í heila miðað við klassíska riðu. Auk þess bera þessi tilfelli aðrar arfgerðir príongensins en þær sem hafa verið tengdar áhættu fyrir riðu. Nor98 riða er greind út frá öðru bandamynstri á próteinþrykki en klassísk riða sýnir.

Á Keldum hefur frá árinu 1995 verið rannsakað samband arfgerða príongensins við riðusmit í sauðfé, en náttúrulegur breytileiki í príongeninu er mikilvægur fyrir næmi kinda fyrir riðu. Mismunandi samsætur í táknum 136, 154 og 171 tengjast áhættu (VRQ) og minnkuðu næmi (AHQ) fyrir hefðbundinni riðu í íslensku fé en samsætan sem er þekkt erlendis vegna mest verndandi eiginleika (ARR) hefur ekki fundist hér á landi.

Verkefnið felur í sér vöktun á arfgerðum príongensins í kindum sem greinast með riðu, en auk jákvæðra kinda eru til samanburðar prófaðar einkennalausar kindur úr riðuhjörðum. Tvö jákvæð tilfelli hafa verið staðfest með þá arfgerð sem upphaflega var talin geta veitt vernd gegn riðu í íslensku fé (AHQ). Í þeim tilvikum var um einkennalausar kindur að ræða (sláturhúsasýni og niðurskurðarsýni). Þetta bendir til að sú arfgerð gefi ekki þá vernd sem áður var talið. Þessi arfgerð er algeng í tilfellum Nor98 riðu, en þar snýst áhættan við hvað varðar smitnæmi arfgerða.
 

Kynningarmyndband um riðuskimanir á Keldum

Yfirlit yfir þjónusturannsóknir vegna riðu úr ársskýrslu Keldna fyrir má sjá hér