Header Paragraph

Riða greind í Tröllaskagahólfi

Image
Kindur

Riðuveiki hefur nú greinst á fjórum bæjum í Skagafirði innan Tröllaskagahólfs. Fyrst greindist riða á Stóru-Ökrum 1 í kind með klínísk einkenni riðu. Síðan greindist riða í sýnum úr kindum frá þremur bæjum til viðbótar og er hægt að rekja þau smit til fyrsta bæjarins, en kindurnar sem reyndust jákvæðar komu þaðan. Nánar má lesa um framvindu þessa máls í fréttatilkynningum á heimasíðu Matvælastofnunar.

Greining á riðu í sýnum úr sauðfé fer fram á Tilraunastöðinni á Keldum í samstarfi við Matvælastofnun. Sýnin eru prófuð með elísuprófi, en það byggist á að einangra riðusmitefnið og nota mótefni gegn príonpróteini til að greina hvort riðusmitefnið er til staðar. Ef það próf gefur jákvæða svörun er gerð ónæmisblottun (Western blot) til staðfestingar á sjúkdómnum. Auk þessara prófa er stuðst við aðferðir vefjameinafræði, þ.e. HE litun og sértæka ónæmislitun, ef sjúkdómseinkenni benda til riðu og hentug sýni eru til staðar.

Riðurannsóknarstofa   Keldna   starfar   sem   landsbundin   tilvísunar-rannsóknarstofa (NRL) fyrir smitandi heilahrörnun (TSE), þ.e. riðu og skylda príonsjúkdóma. Aðferðir sem notaðar eru við greiningar á riðurannsóknarstofu hafa fengið vottun frá SWEDAC samkvæmt alþjóðlega faggildingarstaðlinum ISO/IEC 17025 og er sú vottun uppfærð reglulega.  

Í þessu kynningarmyndbandi fer Stefanía Þorgeirsdóttir nánar yfir starfsemi Riðurannsóknarstofu Keldna. Einnig má lesa nánar um starfsemi hennar hér.