Rannsóknir á sumarexemi -fréttir
31. október 2024
Hestar með sumarexem sýndu bata í kjölfar afnæmingar með ofnæmisvökum í ónæmisglæðum
Grein um þróun á meðferð gegn sumarexemi í hestum birtist á dögunum í Frontiers in Allergy:
Sumarexem í hrossum er IgE-miðlað ofnæmi gegn munnvatnskirtla próteinum úr lúsmýstegund af ættkvíslinni Culicoides. Afnæming (AIT) með seyði af heilum flugum hefur ekki gefið góða raun. Markmiðið með þessari rannsókn var að meta áhrif afnæmingar þar sem notuð var blanda af hreinum Culicoides ofnæmisvökum í blöndu af ónæmisglæðum í framsýnni, tvíblindri samanburðarrannsókn með lyfleysu.
Einkenni sumarexems hjá 17 hestum í Þýskalandi voru metin ári áður en afnæming hófst og á fyrsta ári afnæmingar (maí til október) og í maí og júlí á öðru ári afnæmingar. Níu hestar voru bólusettir þrisvar sinnum undir húð með blöndu af níu ofnæmisvökum í ónæmisglæðunum alum og monophosphoryl lipid A (MPLA). Átta hestar fengu lyfleysu. Á öðru afnæmigarári voru hestarnir bólusettir tvisvar sinnum með sömu blöndu. Ofnæmisvaka-sérvirkt svar gegn einum ofnæmivaka sem var í blöndunni var metið.
Á fyrsta afnæmingarári minnkuðu meðal sumarexemeinkenni marktækt meira í meðferðarhópnum samanborið við lyfleysu. Meira en 50% bati (improvement) á meðal sumarexemeinkennum varð í 67% hestanna í afnæmingarhóp en 25% í lyfleysuhópnum. Á öðru afnæmingarári var munurinn enn meiri eða 89% í afnæmingarhópnum en 14% í lyfleysuhópnum. Í kjölfar afnæmingarinnar mynduðu hestarnir ofnæmisvaka sértæk IgG mótefni af öllum undirflokkum. IgG mótefnin hindruðu sértæka IgE bindingu við ofnæmisvaka.
Ofnæmisvakasértæk afnæming á hestum með sumarexem virðist lofa góðu sem meðferð á hestum með ofnæmi gegn biti skordýra.
21. júní 2024
Meistaravörn í sumarexemi
Hafdís María Pétursdóttir varði meistararitgerð sína „Greining á boðefnasvari hrossa i kjölfar bólusetningar gegn sumarexemi“ við Læknadeild Háskóla Íslands, 21. Júní 2024. Verkefnið vann hún á Keldum undir leiðsögn Sigríðar Jónsdóttur og Vilhjálms Svanssonar. Þriðji maður í meistaranefnd var Siggeir Fannar Brynjólfsson ónæmisfræðingur og lektor við Læknadeild Háskóla Íslands. Prófari var Jóna Freysdóttir.
Útdráttur
Aðal markmiðið í þessari rannsókn var að staðla framleiðslu og hreinsun á aðal ofnæmisvaka (Cul o 5) fyrir notkun í bólusetningu. Framleiðsla Cul o 5 í E. coli í Cinnabar æti og fjarlæging fitufjölsykra bar ekki árangur. Breyting á skrefum í framleiðslu Cul o 5 í 2xYT æti leiddi til hærri styrks á hreinsuðu próteini. Hreinsaða próteinið var stöðugt í 50 mM imidazole. Tveir hestar voru endurbólusettir og hvítfrumur þeirra örvaðar in vitro til þess að mæla boðefnasvar með qPCR og fjölkúlnaaðferð. Vísar, þreifarar og aðrir þættir qPCR voru staðlaðir. Mikill einstaklingsmunur var á milli hestanna og var qPCR ekki prófað frekar. Örvun á 800,000 frumum í 96 tíma sýndi upphaflega bestu niðurstöðurnar með fjölkúlnaaðferð. Boðefnamæling á fjórtán hestum benti hins vegar til þess að örvun í 48 tíma væri hentugri, þar sem að hún sýndi oftar marktækan mun á boðefnasvari fyrir og eftir endurbólusetningu. Hægt er að bæta framleiðslu á aðal ofnæmisvökum með því að breyta aðstæðum framleiðslunnar. Í næstu SE bólusetningatilraunum verða 800,000 frumur örvaðar í 48 og 96 tíma til að sannreyna enn frekar hvor tíminn er betri til að greina boðefnasvar eftir bólusetningu.
Tengill á ritgerð: https://hdl.handle.net/1946/48304
7. mars 2024
Doktorsvörn í sumarexemi
Sara Björk Stefánsdóttir varði doktorsritgerð sína „Þróun ónæmismeðferðar gegn sumarexemi í hestum “ við Læknadeild Háskóla Íslands 7. mars 2024. Verkefnið var unnið á Keldum og við dýrasjúkdómadeild Háskólans í Bern, Sviss.
Andmælendur voru dr. Hans Grönlund, dósent við Karolinska Institutet, Department of Clinical Neuroscience, Svíþjóð og dr. Zophonías Oddur Jónsson, prófessor í sameindaerfðafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Umsjónarkennari var dr. Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, ónæmisfræðingur og leiðbeinandi var dr. Vilhjálmur Svansson dýralæknir. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Arna Rúnarsdóttir lífefnafræðingur, dr. Eliane Marti dýralæknir og dr. Jón Már Björnsson sameindalíffræðingur.
Útdráttur
Í þessari rannsókn voru gerðar tvær bólusetningartilraunir, annars vegar samanburður á stungustað og hins vegar samanburður á ónæmisglæðum. Sambærilegar niðurstöður fengust þegar hestar voru bólusettir með ofnæmisvökum í alum/MPLA í eitla og undir húð. Sprautun undir húð gæti því verið nothæf við ónæmismeðferð gegn sumarexemi. Bólusetning með ofnæmisvökum í alum/MPLA framkallaði sterkara ónæmisvar en ofnæmisvakar í alum og veiru-líkum ögnum (VLP).
Til að meta hvort bólusetning með hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði veiti vörn gegn sumarexemi var framkvæmd áskorunartilraun. Tuttugu og sjö heilbrigðir íslenskir hestar voru bólusettir í kjálkabarðseitla með ofnæmisvökum í alum/MPLA. Hestarnir voru bólusettir á Íslandi áður en þeir voru fluttir til Sviss þar sem þeim var fylgt eftir í þrjú ár með reglulegri klínískri skoðun, blóðtöku og örvunarbólusetningum. Einn hestur var tekinn úr rannsókninni. Á fyrsta ári höfðu 6 hestar (23,1%) þróað með sér sumarexem, 13 hestar (50,0%) á öðru ári og 16 (61,5%) á því þriðja. Enginn marktækur munur var á IgG mótefnasvari á neinum tímapunkti fyrstu tvö árin milli bólusettra hesta sem fengu sumarexem og þeirra sem voru heilbrigðir út tímabilið en marktækur munur var eftir annað árið á IgE svari á milli hópanna. Bólusetningin veitti því ekki vörn gegn sumarexemi en frekari prófun á þeim sýnum sem safnað var gæti gefið innsýn í orsök þess að bóluefnið varði ekki hestana. Sjá nánar
Tengill á ritgerð: https://opinvisindi.is/handle/20.500.11815/4751