Rannsóknir á sumarexemi -fréttir

21. júní 2024

 

Meistaravörn í sumarexemi

Hafdís María Pétursdóttir varði meistararitgerð sína „Greining á boðefnasvari hrossa i kjölfar bólusetningar gegn sumarexemi“ við Læknadeild Háskóla Íslands, 21. Júní 2024. Verkefnið vann hún á Keldum undir leiðsögn Sigríðar Jónsdóttur og Vilhjálms Svanssonar. Þriðji maður í meistaranefnd var Siggeir Fannar Brynjólfsson ónæmisfræðingur og lektor við Læknadeild Háskóla Íslands. Prófari var Jóna Freysdóttir.

Útdráttur

Aðal markmiðið í þessari rannsókn var að staðla framleiðslu og hreinsun á aðal ofnæmisvaka (Cul o 5) fyrir notkun í bólusetningu. Framleiðsla Cul o 5 í E. coli í Cinnabar æti og fjarlæging fitufjölsykra bar ekki árangur. Breyting á skrefum í framleiðslu Cul o 5 í 2xYT æti leiddi til hærri styrks á hreinsuðu próteini. Hreinsaða próteinið var stöðugt í 50 mM imidazole. Tveir hestar voru endurbólusettir og hvítfrumur þeirra örvaðar in vitro til þess að mæla boðefnasvar með qPCR og fjölkúlnaaðferð. Vísar, þreifarar og aðrir þættir qPCR voru staðlaðir. Mikill einstaklingsmunur var á milli hestanna og var qPCR ekki prófað frekar. Örvun á 800,000 frumum í 96 tíma sýndi upphaflega bestu niðurstöðurnar með fjölkúlnaaðferð. Boðefnamæling á fjórtán hestum benti hins vegar til þess að örvun í 48 tíma væri hentugri, þar sem að hún sýndi oftar marktækan mun á boðefnasvari fyrir og eftir endurbólusetningu. Hægt er að bæta framleiðslu á aðal ofnæmisvökum með því að breyta aðstæðum framleiðslunnar. Í næstu SE bólusetningatilraunum verða 800,000 frumur örvaðar í 48 og 96 tíma til að sannreyna enn frekar hvor tíminn er betri til að greina boðefnasvar eftir bólusetningu.

Tengill á ritgerð: https://hdl.handle.net/1946/48304

 

7. mars 2024

 

Doktorsvörn í sumarexemi

Sara Björk Stefánsdóttir varði doktorsritgerð sína „Þróun ónæmismeðferðar gegn sumarexemi í hestum “ við Læknadeild Háskóla Íslands 7. mars 2024. Verkefnið var unnið á Keldum og við dýrasjúkdómadeild Háskólans í Bern, Sviss.
Andmælendur voru dr. Hans Grönlund, dósent við Karolinska Institutet, Department of Clinical Neuroscience, Svíþjóð og dr. Zophonías Oddur Jónsson, prófessor í sameindaerfðafræði við  Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Umsjónarkennari var dr. Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, ónæmisfræðingur og leiðbeinandi var dr. Vilhjálmur Svansson dýralæknir. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Arna Rúnarsdóttir lífefnafræðingur, dr. Eliane Marti dýralæknir og dr. Jón Már Björnsson sameindalíffræðingur.

Útdráttur

Í þessari rannsókn voru gerðar tvær bólusetningartilraunir, annars vegar samanburður á stungustað og hins vegar samanburður á ónæmisglæðum. Sambærilegar niðurstöður fengust þegar hestar voru bólusettir með ofnæmisvökum í alum/MPLA í eitla og undir húð. Sprautun undir húð gæti því verið nothæf við ónæmismeðferð gegn sumarexemi. Bólusetning með ofnæmisvökum í alum/MPLA framkallaði sterkara ónæmisvar en ofnæmisvakar í alum og veiru-líkum ögnum (VLP).
Til að meta hvort bólusetning með hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði veiti vörn gegn sumarexemi var framkvæmd áskorunartilraun. Tuttugu og sjö heilbrigðir íslenskir hestar voru bólusettir í kjálkabarðseitla með ofnæmisvökum í alum/MPLA. Hestarnir voru bólusettir á Íslandi áður en þeir voru fluttir til Sviss þar sem þeim var fylgt eftir í þrjú ár með reglulegri klínískri skoðun, blóðtöku og örvunarbólusetningum. Einn hestur var tekinn úr rannsókninni. Á fyrsta ári höfðu 6 hestar (23,1%) þróað með sér sumarexem, 13 hestar (50,0%) á öðru ári og 16 (61,5%) á því þriðja. Enginn marktækur munur var á IgG mótefnasvari á neinum tímapunkti fyrstu tvö árin milli bólusettra hesta sem fengu sumarexem og þeirra sem voru heilbrigðir út tímabilið en marktækur munur var eftir annað árið á IgE svari á milli hópanna. Bólusetningin veitti því ekki vörn gegn sumarexemi en frekari prófun á þeim sýnum sem safnað var gæti gefið innsýn í orsök þess að bóluefnið varði ekki hestana. Sjá nánar

Tengill á ritgerð: https://opinvisindi.is/handle/20.500.11815/4751