Ónæmissvar

Ofnæmissvar er ótímabært ónæmissvar gegn saklausum próteinum með framleiðslu á IgE mótefnum og bólgumiðum sem valda einkennunum. Heilbrigðir einstaklingar bregðast ekki við saklausum próteinum sem þeir borða, anda að sér snerta eða fá við skordýrabit eða stungur. Ónæmiskerfi ofnæmissjúklinga bregst hins vegar við slíku áreiti og úr verður ofnæmissvar. Svarið getur verið af ýmsum toga t.d. ofnæmiskvef, heymæði, astmi, kláði, erting, bjúgur, útbrot, meltingaróþægindi og jafnvel ofnæmislost.

Sumarexem er ofnæmi eða ónæmissvar á svokallaðri Th2 braut, með framleiðslu á IgE mótefnum og bólgumiðlum sem valda exeminu.  Sýnt hefur verið fram á þetta bæði í blóði og í húð. Áberandi öflug Th2 svörun og IgE framleiðsla er hjá hestum sem fluttir er frá Íslandi til Evrópu (Hamza et al., 2007; Hamza et al., 2010; Hamza et al., 2008; Heimann et al., 2011).

Image
Einfölduð skematísk mynd af ofnæmisviðbragði í sumarexemi

(a) Næming: (1) Smámý bítur hestinn og sprautar inn munnvatni með próteinum. (2) Þekjufrumurnar bregðast við með framleiðslu á TSLP, IL-33 og IL-25 aðvörunarboðefnum sem örva ILC2 frumur. (3) ILC2 seyta IL-5 og IL-13 bólguboðefnum. (4) - (6) Sýnifruma (APC) tekur upp munnvatnspróteinið (ofnæmisvakann) fer í aðlægan eitil og undir áhrifum bólguboðefnanna sýnir CD4 T hjálparfrumu ofnæmisvakann. (7) - (9) Hjálparfruman þroskast í Th2 frumu sem framleiðir IL-4 og IL-13 bólguboðefni sem fyrirskipa B-frumunni að skipta yfir í ofnæmisvaka sérvirka IgE mótefnaframleiðslu. (10) IgE mótefni bindast hásækni IgE nemum (FceRI) á mastfrumum með þeim afleiðingum að hesturinn næmist.

(b) Endurútsetning: (1) - (2) Þegar hesturinn er aftur útsettur fyrir ofnæmisvökunum þá bindast þeir á sérvirk IgE mótefni á mastfrumunum krossbinda þau þannig að mastfrumurnar framleiða bólgumiðla sem valda bólgu og kláða. (5) - (7) Örvaðar mastfrumur framleiða efnaboða og boðefni sem laða að sýrufrumur, basafrumur og Th2 hjálparfrumur sem efla viðbrögðin enn frekar.

(Einfölduð skematísk mynd af ofnæmisviðbragði í sumarexemi, tekin úr Jonsdóttir et al., 2019 https://doi.org/10.1007/s13671-019-00279-w)