Hestar með sumarexem sýndu bata í kjölfar afnæmingar með ofnæmisvökum í ónæmisglæðum

Grein um þróun á meðferð gegn sumarexemi í hestum birtist á dögunum í Frontiers in Allergy:

Allergen immunotherapy using recombinant Culicoides allergens improves clinical signs of equine insect bite hypersensitivity
Anneli Graner, Ralf S. Mueller, Johanna Geisler, Delia Bogenstätter, Samuel J. White, Sigridur Jonsdottir og Eliane Marti.

Sumarexem í hrossum er IgE-miðlað ofnæmi gegn munnvatnskirtla próteinum úr lúsmýstegund af ættkvíslinni Culicoides. Afnæming (AIT) með seyði af heilum flugum hefur ekki gefið góða raun. Markmiðið með þessari rannsókn var að meta áhrif afnæmingar þar sem notuð var blanda af hreinum Culicoides ofnæmisvökum í blöndu af ónæmisglæðum í framsýnni, tvíblindri samanburðarrannsókn með lyfleysu.

Einkenni sumarexems hjá 17 hestum í Þýskalandi voru metin ári áður en afnæming hófst og á fyrsta ári afnæmingar (maí til október) og í maí og júlí á öðru ári afnæmingar. Níu hestar voru bólusettir þrisvar sinnum undir húð með blöndu af níu ofnæmisvökum í ónæmisglæðunum, alum og monophosphoryl lipid A (MPLA). Átta hestar fengu lyfleysu. Á öðru afnæmigarári voru hestarnir bólusettir tvisvar sinnum með sömu blöndu. Ofnæmisvaka sérvirkt svar gegn einum ofnæmivaka sem var í blöndunni var metið.

Á fyrsta afnæmingarári minnkuðu meðal sumarexemeinkenni marktækt meira í  meðferðarhópnum samanborið við lyfleysu. Meira en 50% bati (improvement) á meðal sumarexemeinkennum varð í 67% hestanna í afnæmingarhóp en 25% í lyfleysuhópnum. Á öðru afnæmingarári var munurinn enn meiri eða 89% í afnæmingarhópnum en 14% í lyfleysuhópnum. Í kjölfar afnæmingarinnar mynduðu hestarnir ofnæmisvaka sérvirk IgG mótefni af öllum undirflokkum. IgG mótefnin hindruðu sérvirka IgE bindingu við ofnæmisvaka.

Ofnæmisvakasérvirk afnæming á hestum með sumarexem virðist lofa góðu sem meðferð á hestum með ofnæmi gegn biti skordýra.