Header Paragraph

Nýtt sníkjudýr á Íslandi

Image
Mynd af feldmítlum

Nýverið barst mjallahvítur hárbrúskur af kanínu að Tilraunastöðinni á Keldum þar sem fjöldi lifandi mítla, hver um hálfs millimetra langur, hafði sést skríðandi í með berum augum. Þarna var á ferðinni mítill sem ekki hefur áður verið staðfestur hér á landi, feldmítillinn Leporacarus gibbus (Astigmata: Listrophoridae).  Tegundin lifir í feldi kanína (og héra) og eru mítlarnir aðlagaðir því að grípa utan um stök undirhár í feldi hýslanna. Þar lifa mítlarnir aðallega á fitu sem ættuð er úr fitukirtlum húðarinnar en einnig á ýmsum smásæjum lífrænum úrgangi sem safnast í feld hýsilsins.

Lífsferillinn er beinn, lirfur, gyðlur og fullorðnir mítlar lifa öll á sama dýrinu. Oftast ber mest á feldmítlinum á baki og á kviði kanínanna. Einkenni smits geta verið hárlausir blettir, kláði og húðbólgur en oft eru kanínurnar einkennalausar. Stundum koma fram húðútbrot á eigendum sem hafa verið að handfjatla smituð dýr. Ekkert er vitað um útbreiðslu feldmítilsins hjá kanínum á Íslandi í dag.

Mynd: Karl Skírnisson

Image
Mynd af feldmítlum