Nýr framkvæmdastjóri Keldna, Kristín Kalmansdóttir, hefur störf á Keldum í dag. Kristín er viðskiptafræðingur með MBA gráðu og hefur faggildingu í innri endurskoðun. Hún hefur starfað hjá Umhverfisstofnun sl. tæp sex ár, í eitt ár sem fjármálastjóri en síðan sem sviðsstjóri sviðs þjónustu og fjármála. Svið þjónustu og fjármála hjá Umhverfisstofnun er stoðsvið sem annast m.a. fjármál og rekstur, gæðamál, upplýsingatæknimál, notendaþjónustu, skjalastjórnun, launamál og verkefni á sviði miðlunar, s.s. heimasíðu og samfélagsmiðla. Í störfum sínum hefur hún einnig sinnt verkefnum tengdum mannauðsstjórnun, annast ráðningar á nýju starfsfólki á sviðinu í samstarfi við forstjóra og mannauðsstjóra og tekið þátt í gerð stofnanasamninga, sem og sinnt fleiri verkefnum tengdum mannauðsmálum og þeim sem fylgja því að sitja í yfirstjórn stofnunar. Krístín hefur fjölþætta reynslu úr opinbera geiranum og hefur m.a. starfað hjá Ríkisendurskoðun, Landspítala og Reykjavíkurborg. Einnig hefur hún sinnt kennslu og leiðsögn á háskólastigi. Kristín hefur unnið við stefnumótun og umbótastarf á starfsferli sínum, hún hefur þekkingu og reynslu m.a. af fjármálastjórnun, stjórnsýsluúttektum, mannauðsstjórnun, stefnumótun og eftirfylgd stefnu, verkefnastjórnun, upplýsingatæknimálum, framkvæmdamálum og áhættustjórnun.
 
Helgi S. Helgason fráfarandi framkvæmdastjóri mun starfa áfram í hlutastarfi fram yfir áramót við ýmis verkefni tengd frágangi, ráðgjöf ofl.