Á Keldum hefur nú verið sett upp ný PCR aðferð til þess að greina erfðaefni bakteríunnar Taylorella equigenitalis í sýnum úr æxlunarfærum hrossa. Bakterían veldur smitandi legbólgu hjá hryssum (e. Contagious equine metritis, CEM) og eru ræktunarhross skimuð fyrir bakteríunni víðast hvar erlendis, til þess að koma í veg fyrir að smit dreifist. Nú þegar aðferðin hefur verið sett upp verður regluleg skimun íslenskra ræktunarhrossa möguleg, auk þess sem hægt verður að senda sýni í greiningu þar sem grunur er um smit. Þess má geta að bakterían hefur hingað til ekki greinst hérlendis, þó svo ekki hafi verið skimað fyrir henni reglulega.