Lungnaormur greinist í innfluttum ketti
Sníkjudýradeild Tilraunastöðvarinnar á Keldum sinnir meðal annars leit að sníkjudýrum í innfluttum hundum og köttum. Fyrr í þessum mánuði greindist, í fyrsta sinn hérlendis, lungnaormurinn Aelurostrongylus abstrusus í ketti sem dvaldi í einangrunarstöð.
Notast var við Baermann botnfellingaraðferð, sem er beint sérstaklega að hjarta- og lungnaormalirfum. Skoðun sýnisins leiddi í ljós talsverðan fjölda fyrsta stigs lirfa tegundarinnar A. abstrusus. Lirfurnar eru um 310 – 400 µm að lengd og hafa sérkennilega, en einkennandi, lögun á afturenda, boginn með hak og baklægan brodd (sjá mynd hér að neðan. Mynd: Guðný Rut Pálsdóttir).
A. abstrusus má finna í kattardýrum um allan heim. Lífsferillinn er flókinn, með kattardýr sem lokahýsil og ýmsar tegundir landsnigla sem millihýsla (sjá skýringarmynd um lífsferilinn hér að neðan). Fullorðin karl- og kvendýr halda til í lungnablöðrum og berkjum kattarins. Þar fer fram kynæxlun og kvendýrin verpa eggjum. Úr eggjunum klekjast fyrsta stigs lirfur, sem er hóstað upp, er kyngt og berast loks út með saur kattarins. Þar bíða þær þess að hitta fyrir móttækilegan landsnigil og bora sér leið inn í gegnum fót hans. Í sniglinum heldur lífsferillinn áfram, þar sem fyrsta stigs lirfur þroskast upp á þriðja stig, sem jafnframt er smithæfa stigið í lífsferlinum. Þroskunin er háð hitastigi og getur farið fram við allt niður í 7 °C. Fjöldi tegunda landsnigla geta verið millihýslar og má finna nokkrar þeirra hér á landi.
Í þessum lífsferli er hlutverk burðarhýsla býsna veigamikið, þar sem gera má ráð fyrir því, að fáir kettir gæði sér alla jafna á sniglum. Burðarhýsill er dýr sem fær í sig sníkjudýr, án þess þó að sníkjudýrin þroskist frekar í þeim. Lokahýslar geta sýkst ef þeir éta burðarhýsil. Dæmi um burðarhýsla í þessum lífsferli eru dýr sem éta landsnigla, svo sem froskdýr, skriðdýr og ýmsar tegundir nagdýra og fugla. Kettir geta smitast við að éta þröst eða mús sem hefur étið smitaðan snigil.
Kötturinn fær viðeigandi meðhöndlun undir handleiðslu Matvælastofnunar og sýni verða tekin í framhaldinu til að tryggja að tekist hafi að losa köttinn við smitið.
Ítarefni:
1. Moskvina, T. V. (2018). Current knowledge about Aelurostrongylus abstrusus biology
and diagnostic. Annals of Parasitology, 64 (1), 3-1.
2. Traversa, D., & Di Cesare, A. (2013). Feline lungworms: what a dilemma. Trends in Parasitology, 29(9), 423–430.