Vísindavakan verður haldin í Laugardalshöllinni næstkomandi laugardag þann 28. september frá kl. 13 – 18. Keldur verða með bás þar sem kynntar verða rannsóknir á sviði dýraheilbrigðis.
Eftirfarandi verkefni verða kynnt sérstaklega:
Verða fiskar veikir?
Svarið er já! Alls konar smitsjúkdómar geta herjað á fiska. Sjúkdómsvaldarnir geta t.d. verið af sníkjudýr, bakteríur eða veirur. Á vísindavökunni kynnum við sérstaklega fiskabakteríur og sníkjudýrið Parvicapsula pseudobranchicola sem finnst m.a. í gervitálknum á laxi.
Hvað er riða í kindum og hvernig greinum við hana?
Er hægt að losna við riðu á Íslandi með því að rækta kindur með riðuþolna arfgerð líkt og hrúturinn Gimsteinn er með?
Höfuðlús
Lús – upp hefur komið tilfelli af lús…“ Fátt er ljóðrænna en skilaboð af þessu tagi í upphafi skólaárs. Hvernig lítur samt þessi blessaða höfuðlús út og af hverju klæjar okkur undan þeim?
Vísindamenn sem starfa á Keldum taka vel á móti ykkur í Laugardalshöllinni næstkomandi laugardag og svara öllum spurningum eftir fremsta megni.
Við hlökkum til að sjá ykkur!