Jafnréttisáætlun Keldna

Inngangur

Jafnréttisáætlunin byggir á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna.

Stefnt er að því að jafnréttissjónarmið séu samþætt allri starfsemi Tilraunastöðvarinnar eins og 17. gr. laganna gerir ráð fyrir og að jafnrétti kynja verði haft að leiðarljósi við stefnumótun, ákvarðanatöku, áætlanagerð.

Jafnrétti á vinnustað er grundvallarréttur allra starfsmanna og stúdenta. Tilraunastöðinni er kappsmál að tryggja vellíðan starfsfólks og nemenda og skapa vinnuumhverfi sem gerir öllum kleift að njóta sín á jafnréttisgrundvelli. Stefna Tilraunastöðvarinnar gegn mismunun nær til hvers kyns mismununar á grundvelli kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, heilsufars, þjóðernis, litarháttar, uppruna, trúarbragða, skoðana, menningar eða stöðu að öðru leyti, sem lítilsvirðir eða misbýður einstaklingi eða hópi sem fyrir henni verður.

Áréttað er að jafnréttisáætlun Keldna tekur eingöngu til jafnréttis karla og kvenna (kynjajafnréttis).

Jafnréttisáætlun Tilraunastöðvarinnar nær yfir tímabilið 2020-2023.

 

Markmiðssetning og aðgerðir

 

Markmið I

Almennt markmið

Að stjórnendur séu á öllum tímum vel uppfræddir og meðvitaðir um jafnréttismál.

Sértækt markmið

Stjórnendur þ.m.t. deildarstjórar sæki reglulega námskeið og fræðslu um jafnréttismál til að fylgja eftir jafnréttisáætlun Keldna.

Ábyrgðaraðili

Forstöðumaður og framkvæmdastjóri.

 

Markmið II

Almennt markmið

Að tryggja jafnt kynjahlutfall starfsmanna Keldna.

Sértækt markmið

Í auglýsingum um störf á Keldum sé gætt jafnræðis og jafnrar virðingar kynjanna. Þar komi fram að starf sem er laust til umsóknar standi opið jafnt körlum sem konum.

Vísa skal í heimild í jafnréttislögunum og beita tímabundnum sértækum aðgerðum til að jafna stöðu kynjanna.

Hvetja skal það kyn sem er í minnihluta á stofnun/deild til að sækja um enda komi það fram í auglýsingu að ástæðan sé jöfnun kynjahlutfalls.

Velja skal umsækjanda af því kyni sem er í minnihluta á umræddu starfs- eða fræðasviði, í þeim tilvikum þegar fleiri en einn umsækjandi um starf eru metnir jafnhæfir.

Ábyrgðaraðili

Framkvæmdastjóri, forstöðumaður og deildarstjórar.

Tímarammi

Regluleg úttekt á ráðningarferli á mánaðarlegum fundum framkvæmdastjóra, forstöðumanns og deildarstjóra.

 

Markmið III

Almennt markmið

Að kynjahlutfall sé jafnt í stjórn Keldna og að í nefndum sem starfa innan Tilraunastöðvarinnar sé fyllsta jafnréttis gætt.

Sértækt markmið

Þegar tilnefndir eru fulltrúar í stjórn Keldna skulu allir sem tilnefna fulltrúa gæta þess að kynjahlutfall sé jafnt, einnig að stuðst sé við 15 og 20 gr. jafnréttislaga, en þar kemur fram hvernig nefndum og ráðum hjá ríki og sveitafélögum skuli háttað og hvernig eigi að tilnefna og þar sem því verður komið við skulu sitja sem næst jafn margar konur og karlar.

Þegar forstöðumaður Keldna tilnefnir fulltrúa í nefndir á vegum Keldna skal þess ætíð gætt að kynjahlutfall sé jafnt og fyllsta jafnréttis sé gætt að öðru leyti.

Ábyrgðaraðili

Forstöðumaður, stjórn Tilraunastöðvarinnar og ráðuneyti sem tilnefna fulltrúa í stjórn Keldna, auk háskólaráðs sem skipar í stjórn Keldna.

Tímarammi

Forstöðumaður leggur árlega fyrir stjórnarfund yfirlit yfir tilnefnanir og skipanir.

 

Markmið IV

Almennt markmið

Að réttindi og möguleikar kynja til endur- og símenntunar og annars sem þroskað getur viðkomandi í starfi séu jöfn.

Sértækt markmið

Yfirmenn/deildarstjórar hvetji starfsmenn af báðum kynjum og í öllum starfsheitum til þess að sækja sér endur- og símenntun og sækja fundi og ráðstefnur sem geta þroskað viðkomandi í starfi.

Ábyrgðaraðili og tímarammi

Sérhver starfsmaður hafi starfsþróunaráætlun til tveggja ára þar sem tilgreindar eru fræðslu og starfsþróunarþarfir hans, sjá eyðublað í fylgiskjali. Starfsmenn sæki í starfsmenntunarsjóði þar sem það á við. Starfsmenn meti í samráði við yfirmann ávinning af fræðslu. Forstöðumaður er ábyrgðaraðili og verkefnið er viðvarandi.

 

Markmið V

Almennt markmið

Að réttindi og möguleikar nemenda af báðum kynjum í rannsóknaverkefnum séu jöfn varðandi aðstöðu og handleiðslu.

Sértækt markmið

Fylgt er sértækum markmiðum frá Háskóla Íslands eða þeim öðrum háskóla sem nemandi er skráður við.

Ábyrgðaraðili

Rannsóknanámsnefndir Háskóla Íslands eða annarra háskóla sem nemandi er skráður við taka á ábyrgð, aðgerðum og tímaramma einstakra aðgerða.

 

Markmið VI

Almennt markmið

Tryggt sé að starfsmönnum sé aldrei mismunað á grundvelli kynferðis, starfsheitis og/eða stéttarfélags.

Sértækt markmið

Tilraunastöðin skuldbindi sig til að mismuna ekki starfsmönnum, hvorki eftir kyni eða starfsheiti. Ekki heldur varðandi ýmis hlunnindi s.s. skólagjöld, aksturshlunnindi og ferða- og dagpeninga.

Ábyrgðaraðili

Forstöðumaður, framkvæmdastjóri og deildarstjórar. Stofnunin mun bregðast við ef starfsfólki er faglega mismunað eftir kyni.

 

Markmið VII

Almennt markmið

Að tryggja að kynbundin launamunur finnist ekki á Keldum.

Sértækt markmið

Þess sé ætíð gætt að starfsmönnum sé raðað í launaflokka óháð kyni og að kynin njóti sömu kjara fyrir jafnverðmæt störf.

Ábyrgðaraðili

Forstöðumaður og framkvæmdastjóri.

Tímarammi

Unnið er eftir starfsmatskerfi HÍ í stjórnsýslu og stigakerfi vísinda- og nýsköpunarsviðs HÍ. Regluleg endurskoðun og úttekt fer fram skv. jafnréttisstefnu HÍ.

 

Markmið VIII

Almennt markmið

Að stuðla að samþættingu atvinnu- og einkalífs kvenna og karla, samanber 21. gr. jafnréttislaga um samræmingu atvinnulífs og ábyrgðar gagnvart fjölskyldu.

Sértækt markmið

Að flétta sjónarhorn kynferðis inn í alla stefnumótun og ákvarðanatöku og gera körlum sem konum kleift að samþætta fjölskyldu– og atvinnulíf.

Ábyrgðaraðili

Forstöðumaður og framkvæmdastjóri.

Tímarammi

Viðvarandi, tekið fyrir á deildarstjórafundum.

 

Markmið IX

Almennt markmið

Tryggt verði að einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni fái ekki þrifist á Tilraunastöðinni.

Sértækt markmið

Yfirmenn afli sér þekkingar á því hvernig bregðast skuli við ef upp kemur einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni eða kynferðisleg áreitni á Keldum.

Ábyrgðaraðili

Forstöðumaður og framkvæmdastjóri.

Tímarammi

Tilraunastöðin nýtir sér fræðslu og verklagsreglur Háskóla Íslands um viðbrögð við einelti, kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni og hefur aðgang að því ferli. Forstöðumaður leggur fyrir stjórn Tilraunastöðvarinnar árlegt yfirlit yfir fjölda mála á Tilraunastöðinni.