Nýverið fékk Sölvi Rúnar Vignisson, líffræðingur og doktorsnemi hjá Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði í hendur smyril (Falco columbarius) sem reyndist vera smitaður af gífurlegum fjölda mítla sem sáust með berum augum skríða um á fiðri fuglsins. Smyrillinn var greinilega illa á sig kominn og drapst hann fljótlega. Nokkrir tugir mítla voru settir í glas og sendir að Tilraunastöðinni á Keldum til tegundargreiningar. Þar voru mítlarnir steyptir inn, greiningareinkenni rannsökuð og meðfylgjandi myndir teknar. Þarna var á ferðinni mítillinn Ornithonyssus sylviarum (Canestrini & Fanzago, 1877). Þetta tæplega 1 mm langa sníkjudýr sýgur blóð og lifa öll þroskastig í lífsferlinum á fuglinum sjálfum. Lífsferillinn tekur ekki nema 5-7 daga þannig að smit getur magnast hratt upp og smitun verður við snertingu. Hér er á ferðinni mítill sem lifir bæði á villtum fuglum og búrafuglum og er meðal annars þekktur af því að valda miklum skaða á hænsnabúum víða um heim. Smitaðir fuglar verpa færri eggjum og stundum orsakar mítillinn fjöldadauðsföll. Fundur þessa mítils hér á landi veldur áhyggjum, ekki hvað síst vegna þess að hér er á ferðinni sníkjudýr sem halda þarf í skefjum með notkun skaðlegra mítlalyfja auk þess sem smitið veldur hýslunum ómældri þjáningu. Fuglamerkingamenn og aðrir þeir sem handfjatla fugla hér á landi, hvort sem það eru villtir fuglar eða búrafuglar, eru hvattir til að safna blóðmítlum sem kunna að finnast og koma þeim í greiningu þannig að hægt sé að fylgjast með þróun þessara mála hér á landi á næstunni.