Að morgni þriðjudagsins 3. desember kviknaði grunur um fuglainflúensu á kalkúnabúi í Auðsholti í Ölfusi. Kvöldið áður hafði orðið vart við skyndilega og mikla aukningu dauða í fuglunum ásamt einkennum sem bentu til öndunarerfiðleika, slappleika og taugaeinkenna. Eigendur brugðust hratt við og með milligöngu dýralæknis búsins var komið með fjóra kalkúna í krufningu á Keldur skömmu fyrir hádegi 3. desember. Úr hræjunum voru tekin stroksýni sem rannsökuð voru með tilliti til fuglainflúensu með PCR-aðferð og lá jákvætt svar í öllum fuglum fyrir um kl. 16 sama dag. Sýnin voru sterkt jákvæð og innihéldu mikið magn fuglainflúensuveiru af gerðinni H5N5 sem er sömu gerðar og veiran sem greinst hefur í villtum fuglum hérlendis í haust.
Einkenni og krufningarmynd fuglainflúensu í alifuglum geta verið margskonar en í þessu tilfelli var líklega um bráðan fasa sýkingar að ræða. Helstu niðurstöður krufningar voru fölvi og blámi í húð, slímmyndun í koki, útbreiddar lungnablæðingar, þroti í nýrum og áberandi mikil stækkun á milta. Einn fugl sýndi ummerki um skitu. Það er því full ástæða fyrir alifuglabændur að vera vakandi fyrir hvers kyns einkennum sem bent gætu til fuglaflensu og að hafa strax samband við sinn þjónustudýralækni við minnsta grun, sérstaklega ef vart verður við aukinn fugladauða.
Frekari upplýsingar má sjá á heimasíðu Matvælastofnunar.