Charlotta Oddsdóttir nýr aðalritstjóri Acta Veterinaria Scandinavica

Charlotta Oddsdóttir, deildarstjóri bakteríu- og meinafræðideildar hefur tekið við sem aðalritstjóri fagtímaritsins Acta Veterinaria Scandinavica. Tímaritið var stofnað af dýralæknafélögum Norðurlandanna árið 1959 og er opinbert fagtímarit dýralæknasamtaka á Norðurlöndum og Eistlandi. Í ritinu birtast vísindagreinar sem bæði eiga almennt erindi við dýralækna og vísindamenn sem rannsaka heilbrigði og velferð dýra, og sem hafa sérstaka skírskotun til aðstæðna, dýrahalds og dýrasjúkdóma sem þekkjast á norðurhveli jarðar.

Charlotta hefur setið í ritstjórn tímaritsins fyrir hönd Íslands frá 2020. Í tímaritinu er fjallað um alla þætti dýralækninga. Það hefur síðan 2006 verið í opnum aðgangi á netinu og er gefið út af BMC Springer Nature  https://actavetscand.biomedcentral.com/.