Brúni hundamítillinn fannst á innlendum hundi
Fyrir helgi barst Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum eintak af brúna hundamítilinum (Rhipicephalus sanguineus s.l.) sem fannst á hundi af Suðurlandi. Um var að ræða karldýr, 3 mm að stærð (sjá mynd 1). Þar sem þessi mítlategund er ekki landlæg hér á landi var Matvælastofnun gert viðvart og stofnunin fór í aðgerðir til að uppræta smitið.
Mynd 1. Karldýr brúna hundamítilsins (Rhipicephalus sanguineus s.l.) um 3 mm að stærð. Myndir: Guðný Rut Pálsdóttir.
Brúni hundamítillinn (R. sanguineus s.l.) er eins og aðrar tegundir af stórmítlaætt (Ixodidae), blóðsjúgandi sníkjudýr. Tegundin er útbreidd um allan heim en hefur ekki náð fótfestu hérlendis þó hann hafi greinst hér nokkrum sinnum á síðastliðnum árum, síðast árið 2017. Hingað hefur hann jafnan borist sem laumufarþegi, ýmist með farangri, á mannfólki eða dulist í feldi innfluttra hunda.
Eins og nafnið gefur til kynna, sníkir mítillinn fyrst og fremst á hundum þó hann geri sér einnig að góðu blóðmáltíðir frá öðrum spendýrum á borð við ketti, nagdýr og stundum okkur mannfólkið.
Mítlinum líður best í hlýju loftslagi og er kjörhitastig fyrir lífsferilinn á bilinu 20-24°C ásamt miklum loftraka. Hann er því algengur utandyra í hlýrra loftslagi en getur vel lokið lífsferlinu í hlýjum húsum hér á norðurslóðum. Við bestu umhverfisaðstæður og nægt framboð af hýslum getur mítillinn lokið lífsferli sínum á um tveimur mánuðum en úr því getur teygst ef illa gengur að finna heppilegan hýsil. Mítlarnir geta lifað í 3-5 mánuði á hverju þroskastigi án þess að fá næringu.
Hann hefur þriggja hýsla lífsferil (sjá mynd 2), sem þýðir að öll þroskastig (lirfur, gyðlur og fullorðin dýr) þurfa blóðmáltíð til að komast upp á næsta þroskastig eða til að verpa eggjum. Þegar mítillinn hefur sogið nægju sína lætur hann sig falla til jarðar, skríður upp veggi og gardínur eða felur sig inni í rifum og sprungum í nánasta umhverfi. Lirfur og gyðlur hafa hamskipti áður en kemur að næstu blóðmáltíð, en kvendýrin verpa þúsundum eggja og deyja að því loknu.
Í gegnum tíðina hefur brúni hundamítillinn verið alræmdur fyrir að geta borið hina ýmsu sjúkdómsvalda. Skráðar eru að minnsta kosti 14 tegundir sjúkdómsvalda (bakteríur, frumdýr og þráðormar) sem staðfest er að mítillinn geti borið í hunda og menn.
Síðastliðin ár hefur tegundin verið til endurskoðunar og telst nú sem hópur að minnsta kosti 17 skyldra tegunda eða undirtegunda. Oft er lítill sem enginn munur á útliti og tegundirnar því helst aðgreindar með sameindafræðilegum aðferðum. Þær rannsóknir hafa leitt í ljós tvo þróunarfræðilega aðskilda hópa (e. phylogenetic clades). Einnig hafa athuganir víða um heim bent til þess að það geti verið breytileiki innan tegunda hópsins þegar kemur að getu þeirra til að bera hina ýmsu sjúkdómsvalda.
Greinist mítillinn á hundi hérlendis fær hann lyfjameðhöndlun hjá dýralækni og bæli hundsins og aðrir þeir staðir sem hundurinn heldur til á eru þrifnir vel til að útrýma öllum lífsstigum mítilsins. Þessar aðferðir hafa reynst mjög árangursríkar og vel tekist að útrýma mítlinum af heimilum þar sem hann hefur gert sig heimakominn.
Mynd 2: Lífsferill mítilsins (Dantas-Torres & Otranto (2022))
Ítarefni.
Dantas-Torres F., Otranto D. 2014. Further thoughts on the taxonomy and vector role of Rhipicephalus sanguineus group ticks. Vet. Parasitol. 208:9–13.
Dantas-Torres, F., Otranto, D. 2022. Vector of the month. Trends in Parasitology 38 (11). 993-994
Gray, J., Dantas-Torres, F., Estrada-Pena, A., Levin, M. 2013. Systematics and ecology of the brown dog tick, Rhipicephalus sanguineus. Ticks and Tick-borne Diseases. 4:171-180.
Karl Skírnisson & Matthías Eydal. 2008. Blóðsjúgandi hundamítlar berast til Íslands. Náttúrufræðingurinn 77 (1-2). 53-57.