Bólusetning gegn ofnæmi

Bólusetning gegn ofnæmi: Ofnæmi er yfirdrifið ónæmissvar gegn próteinum (ofnæmisvökum) á Th2 braut með IgE mótefnaframleiðslu. Bóluefninu er ætlað að stýra ónæmissvari gegn ofnæmisvökunum á Th1 braut, efla T-stýrifrumur og koma í veg fyrir IgE framleiðslu. Bóluefnablandan er samsett úr enduröðuðum hreinsuðum ofnæmisvökum og ónæmisglæði sem á að stýra svarinu á Th1 braut. Valdir voru níu aðalofnæmisvakar samkvæmt kortlagningu með örflögutækni (Novotny et al.,2020). Ofnæmisvökunum var blandað í  ónæmisglæðablöndu alum/MPLA og blöndunni sprautað í kjálkabarðseitla. Þessi aðferð hafði gefið Th1 miðað ónæmissvar í fyrri tilraunum (Jonsdottir et al., 2016).

Mynd
Mynd af bólusetningu á hesti

Áskorun: Eina leiðin til að prófa endanlega hvort að bólusetning virkar, óháð bólusetningaraðferð er að gera áskorun (challenge). Áskorunartilraun felst í því að bólusetja hóp hesta og flytja þá síðan út á flugusvæði í Evrópu. Hrossin verða að vera á flugusvæði í a.m.k. 3 ár þar sem fylgst yrði með ónæmissvari þeirra og hvort þau fái sumarexem. Bólusetning fyrir áskorun hófst í desember 2019. Fengin voru 27 tamin hross 5-12 vetra og tekin núllsýni; blóðsýni til söfnunar á sermi og fyrir einangrun hvítfruma í blóði og húðsýni. Sýnin voru meðhöndluð og fryst í samræmi við síðari notkun sem viðmið í ónæmisprófum. Bólusett var í eitla með níu aðalofnæmisvökum í alum/MPLA glæðablöndu, þrisvar sinnum á fjögurra vikna fresti og blóðsýni tekin aðra hverja viku fyrir serum. Á viku 10 eða tveimur vikum eftir þriðju bólusetningu voru einangraðar hvítfrumur örvaðar og frystar. Bólusettu hestarnir voru fluttir út 16. mars. 2020. Dr. Eliane Marti á dýrasjúkdómadeild háskólans í Bern hefur yfirumsjón með skoðun hestanna, sýnatökum og úrvinnslu sýna í Sviss. Sjá nánar á Horses of Iceland.