Bólusetning - afnæming

Bólusetning gegn ofnæmi: Ofnæmi er yfirdrifið ónæmissvar gegn próteinum (ofnæmisvökum) á Th2 braut með IgE mótefnaframleiðslu. Bóluefninu er ætlað að stýra ónæmissvari gegn ofnæmisvökunum á Th1 braut, efla T-stýrifrumur og koma í veg fyrir IgE framleiðslu. Bóluefnablandan er samsett úr enduröðuðum hreinsuðum ofnæmisvökum og ónæmisglæði sem á að stýra svarinu á Th1 braut. Valdir voru níu aðalofnæmisvakar samkvæmt kortlagningu með örflögutækni (Novotny et al.,2020). Ofnæmisvökunum var blandað í  ónæmisglæðablöndu alum/MPLA og blöndunni sprautað í kjálkabarðseitla þrisvar sinnum. Þessi aðferð hafði gefið Th1 miðað ónæmissvar í fyrri tilraunum (Jonsdottir et al., 2016). Sett var upp áskorunartilraun.

Mynd af bólusetningu í eitla á hesti
Bólusetning í eitla

Tuttugu og sjö hross voru bólusett og flutt til Sviss á flugusvæði í mars 2020. Þessum hrossum hefur nú verið fylgt eftir í þrjú ár. Þau voru skoðuð, tekið úr þeim blóð reglulega og fylgst með ónæmissvari þeirra.  Samanburðarsýni voru jafnframt tekin úr tuttugu óbólusettum íslenskum hestum sem voru fluttir til Sviss vorið 2020, tíu heilbrigðum íslenskum hestum og tíu með sumarexem. Klínískum hluta áskorunartilraunarinnar er lokið. Af þeim 27 hestum sem voru fluttir út bólusettir fengu 15 sumarexem eða 55.5%, sem er hlutfallið sem búast hefði mátt við fyrir óbólusetta hesta. Hins vegar þegar gert var ofnæmispróf (basafrumuörvun) í lok þriðja árs, þá svöruðu bólusettu hestarnir sem fengu sumarexem mun daufar eða ekki á ofnæmisvakana sem voru í bóluefninu, samanborið við sumarexemhesta í Sviss. Þetta getur bent til að þó bóluefnið verji ekki hestana þá séu þeir minna næmdir gagnvart ofnæmisvökunum sem voru í bóluefninu miðað við sumarexem kontrólhestana. Eftir er að framkvæma próf og úrvinnslu á flest öllum þeim fjölmörgu sýnum sem tekin voru og fryst meðan á tilrauninni stóð.

Dýralæknirinn Eliane Marti skoðar íslenskan hest
Dýralæknirinn Eliane Marti skoðar íslenskan hest