Babesia canis greinist í fyrsta sinn á Íslandi í hundi í einangrun

Blóðsníkjudýr af tegundinni Babesia canis greindist í fyrsta sinn í hundi hérlendis í lok árs 2023. Ungur hundur drapst eftir bráð veikindi í einangrunarstöð nokkrum dögum eftir komuna til landsins frá meginlandi Evrópu. Hundurinn var í kjölfarið sendur á Keldur þar sem óskað var eftir krufningu. Krufningarmynd var óvenjuleg en ósértæk, með útbreiddum blæðingum í innri líffærum og þrútið milta. Að auki sáust innanfrumusníkjudýr í rauðum blóðkornum í æðum ýmissa líffæra við vefjameinafræðilega skoðun. Við það vaknaði grunur um smit með frumdýri (protozoa) af gerðinni Babesia. Við greiningu sýna úr líffærum með PCR-prófi fékkst jákvæð svörun við  ættbálki Piroplasmida frumdýra, sem Babesia tilheyrir, en við raðgreiningu á PCR-afurðum fékkst að endingu staðfest að um sýkingu af völdum Babesia canis canis væri að ræða.  

Babesia canis í rauðum blóðkornum: Smásjármynd af æð með fjölda rauðra blóðkorna (rauður litur) og annarra blóðfruma (fjólublár litur). Innan rauðu blóðkornanna má sjá Babesia canis sníkjudýrið (dæmi sýnt með ör).

Frumdýr af gerðinni Babesia eru ein af nokkrum tegundum blóðsníkjudýra sem smitast með biti blóðsjúgandi mítla. Undirtegundir sníkjudýrsins sýkja rauð blóðkorn í bæði mönnum og dýrum og eru sumar þeirra súnur. Sú undirtegund í hundum sem hefur náð hvað mestri útbreiðslu í Evrópu er Babesia canis en hún hefur nú greinst í flestum löndum á meginlandi álfunnar þó óljóst sé hvort mítlar í öllum löndum beri hana að staðaldri. Babesia canis hefur hingað til aðeins greinst í mítlinum Dermacentor reticulatus,  en hann hefur ekki greinst hér á landi.

Flestir hundar sem sýkjast af Babesia sýna engin eða væg klínísk einkenni sem takmarkast yfirleitt við skammvinnan, almennan slappleika og lystarleysi eftir 10-28 daga meðgöngutíma. Í fáum tilfellum, oft í hundum sem hafa aðra undirliggjandi sjúkdóma, veldur sýkingin alvarlegu blóðleysi, blæðingum, fjöllíffærabilun og jafnvel dauða. Frískir smitberar geta veikst ef ónæmiskerfið veiklast af einhverjum ástæðum. Í lifandi hundum fer greining einkum fram á blóðstrokssýnum, þar sem sníkjudýrin sjást þá í rauðum blóðkornum í smásjá, og með PCR á blóði. Meðferð byggir einkum á blóðgjöf og stuðningsmeðferð út frá einkennum en misjafnar fregnir eru af árangri lyfjameðferðar gegn sníkjudýrinu.

Athygli er vakin á að Babesia canis smitast ekki yfir í menn frekar en aðrar undirtegundir Babesia í hundum. Afar ólíklegt er að sníkjudýrið berist beint á milli hunda en erlendis hafa komið upp tilfelli í tengslum við blóðug slagsmál í stórum hundategundum sem notaðar eru í hundaat. Ein vísindagrein hefur verið birt um mögulegt náttúrulegt Babesia canis smit frá móður yfir í hvolpa í móðurkviði en þrátt fyrir mikla útbreiðslu í sömu löndum Evrópu hafa fleiri tilfelli ekki verið birt.

Ekki er skimað fyrir Babesia í gæludýrum sem flutt eru til landsins en gerð er krafa um meðhöndlun við ytri sníkjudýrum, þar með talið mítlum, fyrir innflutning. Babesia í hundum er ekki á skrá yfir tilkynningaskylda sjúkdóma á Íslandi.

Að greiningu sjúkdómsins kom starfsfólk meinafræði-, veiru- og sameindalíffræðideilda Keldna.

Heimildir:

  1. Adaszek L, Obara-Galtek J, Piech T, Winiarczyk M, Kalinowski M, Winiarczyk S. Possible verticle transmission of Babesia canis canis from a bitch to her puppies: a case report. Veterinarni Medicina. 2016, (5):263-266.  doi: 10.17221/8881-VETMED.
  2. Baneth G. Antiprotozoal treatment of canine babesiosis. Vet Parasitol. 2018, 254:58-63. doi: 10.1016/j.vetpar.2018.03.001. Epub 2018 Mar 7.  
  3. Cacciò SM, Antunovic B, Moretti A, Mangili V, Marinculic A, Baric RR, Slemenda SB, Pieniazek NJ. Molecular characterisation of Babesia canis canis and Babesia canis vogeli from naturally infected European dogs. Vet Parasitol. 2002, 106(4):285-92. doi: 10.1016/s0304-4017(02)00112-7.  
  4. Goodman A, Bilal M, Amarnath S, Gentile ZS.. The unusal case of babesiosis causing disseminated intravascular coagulation with hemophagyocytic lymphohistiocytosis. Clin Case Rep. 2021:eO4744. doi: 10.1002/ccr3.4744
  5. Köster LS, Lobetti RG, Kelly P. Canine babesiosis: a perspective on clinical complications, biomarkers, and treatment. Vet Med (Auckl). 2015, 6:119-128. doi: 10.2147/VMRR.S60431.
  6. Solano-Gallego L, Sainz Á, Roura X, Estrada-Peña A, Miró G. A review of canine babesiosis: the European perspective. Parasit Vectors. 2016, 9(1):336. doi: 10.1186/s13071-016-1596-0.
  7. Weingart C, Helm CS, Müller E, Schäfer I, Skrodzki M, von Samson-Himmelstjerna G, Krücken J, Kohn B. Autochthonous Babesia canis infections in 49 dogs in Germany. J Vet Intern Med. 2023, 37(1):140-149. doi: 10.1111/jvim.16611. Epub 2023 Jan 11.