Áskorun - útflutningur á flugusvæði

Eina leiðin til að prófa endanlega hvort að bólusetning virkar, óháð bólusetningaraðferð er að gera áskorun (challenge). Áskorunartilraun felst í því að bólusetja hóp hesta og flytja þá síðan út á flugusvæði í Evrópu. Hrossin verða að vera á flugusvæði í a.m.k. 3 ár þar sem fylgst yrði með ónæmissvari þeirra og hvort þau fái sumarexem. Bólusetning fyrir áskorun hófst í desember 2019. Fengin voru 27 tamin hross 5-12 vetra og tekin núllsýni; blóðsýni til söfnunar á sermi og fyrir einangrun hvítfruma í blóði og húðsýni. Sýnin voru meðhöndluð og fryst í samræmi við síðari notkun sem viðmið í ónæmisprófum. Bólusett var í eitla með níu aðalofnæmisvökum í alum/MPLA glæðablöndu, þrisvar sinnum á fjögurra vikna fresti og blóðsýni tekin aðra hverja viku fyrir serum. Á viku 10 eða tveimur vikum eftir þriðju bólusetningu voru einangraðar hvítfrumur örvaðar og frystar. Bólusettu hestarnir voru fluttir út 16. mars. 2020. Þrettán hestabúgarðar með íslenska hesta í Sviss samþykktu að taka hestana að sér, að minnsta kosti tvo hesta hver, gegn því að eignast þá að lokinni tilraun í lok árs 2022. Skilyrði var að á þessum stöðum væru hestar sem fengið hefðu sumarexem á staðnum svo öruggt væri að tilraunahestarnir yrðu útsettir fyrir smámýi. Ekki mátti verja tilraunahestana gegn flugunum s.s. með ábreiðum, hýsingu eða flugufælandi efnum eins og alla jafna er venjan fyrst eftir innflutning. Dr. Eliane Marti á dýrasjúkdómadeild háskólans í Bern hefur yfirumsjón með skoðun hestanna, sýnatökum og úrvinnslu sýna í Sviss. Við viljum koma á framfæri þakklæti til Félags íslenskra hrossabænda, seljenda hrossanna og þeirra fjölmörgu dýralækna og hestamanna sem skoðuðu og tömdu hrossin. Einnig er Export-Hestar, Icelandair, Ingo Müller og Bjarna Jónassyni þakkaður stuðningur við hrossaflutning og undirbúning í Sviss.

Image
Mynd af rannsakendum sumarexems með bólusetta hesta sem voru fluttir úr landi
Útflutningur á bólusettum hestum