Ársskýrsla Tilraunastöðvar H.Í. í meinafræði að Keldum fyrir árið 2022 er komin út. Skýrsluna má nálgast hér á PDF sniði: Ársskýrsla 2022

Í ársskýrslunni er að finna ítarlegt yfirlit um fjölbreyttar og metnaðarfullar grunn- og þjónusturannsóknir á sviði dýrasjúkdóma og dýraheilbrigðis, gæðamál, tilvísunar-rannsóknastofur, lífsýnasöfn og birtingar og kynningar starfsfólks.

Þá er:

•    Gríðarleg aukning í greiningum vegna fisksjúkdóma síðustu ár rakin
•    Greint frá því hvernig ósjaldan reynir á þverfaglegt viðbragð sérfræðinga stofnunarinnar þegar upp koma ný sjúkdómavandamál í dýrum
•    Gerð grein fyrir rannsóknum sem byggja á Einni heilsu (One Health), s.s. í tengslum við súnuvalda en það eru sýklar í dýrum og umhverfi sem geta borist á  milli dýra og manna

Auk framangreinds má m.a. nefna rannsóknir á:

•    Sumarexemi í hestum
•    Veiru- og sníkjudýrasýkingum í fiski
•    Veirusýkingum í fuglum og hrossum
•    Riðu-, bakteríu- og veirusýkingum í sauðfé
•    Sýklalyfja- og sníkjudýralyfjaónæmi í dýrum

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum er dýraheilbrigðisstofnun Íslands.

•    Stofnunin rekur rannsóknastofur á átta fagsviðum, auk fullkomnustu öryggisrannsóknastofu landsins
•    Sérfræðingar stofnunarinnar búa yfir yfirgripsmikilli fagþekkingu sem er hvergi annars staðar fyrir hendi á landinu