Alþjóðlegt samstarfsverkefni þar sem faraldsfræði og sýkiþættir riðu á Íslandi verða til rannsóknar mun fá um 190 milljónir króna styrk á næstu þremur árum úr sjóði sem veitir styrki til alþjóðlegra rannsókna á smitsjúkdómum í dýrum; ICRAD (international coordination of research on infectious animal diseases). Þátttakendur koma frá fimm löndum auk Íslands; Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni og Stóra-Bretlandi.
Dr. Christine Fast, meinafræðingur við Friedrich-Loeffler stofnunina í Þýskalandi, er verkefnisstjóri en á myndinni hér að neðan sjást þeir aðilar sem eru í forsvari í hverju landi, en fleiri vísindamenn taka þátt í verkefninu á hverjum stað. Íslenski rannsóknarhópurinn samanstendur af tveimur vísindamönnum frá Tilraunastöðinni að Keldum; Stefaníu Þorgeirsdóttur frumulíffræðingi og Vilhjálmi Svanssyni dýralækni, auk Eyþórs Einarssonar ráðunautar hjá RML og Karólínu Elísabetardóttur sauðfjárbónda í Hvammshlíð. Karólína á stóran þátt í tilurð þessa verkefnis, því hún hefur verið mjög ötul undanfarið ár við að koma á fót samstarfi við erlenda aðila sem vinna við rannsóknir á príonsjúkdómum. Fleiri koma að þessum rannsóknum hér á landi, bæði starfsfólk á Keldum og RML.
Mynd: Christine Fast
Rannsóknarefniviðurinn kemur að miklu leyti frá Íslandi, t.d. hefur jákvæðum riðusýnum verið safnað á Keldum til margra ára en einnig verður nýjum efnivið safnað fyrir mismunandi rannsóknarþætti. Meðal annars verður safnað sýnum úr fjárhúsum á bæjum þar sem riða hefur greinst á undanförnum árum og athugað hvort riðusmitefni finnist í umhverfi. Einnig verður safnað sýnum úr kindum sem bera mismunandi breytileika í príongeninu og riðunæmi breytileikanna skoðað. Í þessum rannsóknum verður notast við svokallaða PMCA tækni þar sem hægt er að greina umbreytingu og mögnun á príonpróteininu í mjög litlu magni. Rannsóknir verða einnig gerðar í músum og munu þær m.a sýna okkur hvar íslenski riðustofninn (eða stofnar) stendur í samanburði við evrópska stofna hvað varðar mismunandi sýkiþætti riðuveikinnar. Rannsóknirnar sjálfar verða mest megnis framkvæmdar á rannsóknarstofum erlendis og því kemur ekki mikið af styrkfénu sjalfu til Íslands en við munum njóta góðs af niðurstöðum verkefnisins. Hins vegar verður reynt að fá innlenda styrki fyrir kostnaði sem fellur til hérlendis, t.d. vegna sýnatöku. Með þessu verkefni fæst aðgangur að færustu vísindamönnum á þessu sviði innan Evrópu og ýmsum rannnsóknaraðferðum sem við höfum ekki haft yfir að ráða hér á landi.
Hér má sjá umfjöllun og viðtal við Stefaníu Þorgeirsdóttur (PDF skjal) sem birtist í Morgunblaðinu 13.12.2022. (Birt með leyfi Morgunblaðsins).
Forsíðumynd þessarar fréttar prýðir hrúturinn Gimsteinn sem var fyrsti hrútur hérlendis sem greindist með ARR verndandi arfgerð príon-gensins. Myndina tók Eyþór Einarsson.