Faggilding prófunaraðferða

Þann 8. júní 2006 tók Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum við yfirlýsingu SWEDAC (Swedish Board for Accreditation and Conformity Assessment) því til staðfestingar, að nokkrar prófunaraðferðir hefðu fengið faggildingu.

Faggildar prófunaraðferðir

SWEDAC uppfyllir öll skilyrði sem European co-operation for Accreditation (EA) gerir til óháðra úttekaraðila og byggir úttekt sína til faggildingar á samningi, sem faggildingarstofur innan EA hafa gert með sér, um gagnkvæma viðurkenningu á skýrslum og vottorðum frá faggiltum fyrirtækjum, og að allir aðilar samningsins geri jafngildar kröfur til faggildingar.
Faggilding er samkvæmt kröfum alþjóðlega gæðastaðalsins IST EN ISO/IEC 17025 um hæfni og starfsemi prófunarstofa.

Með faggildingu prófunaraðferða eru uppfylltar allar kröfur alþjóðlega gæðastaðalsins IST EN ISO/IEC 17025 um hæfni og starfsemi prófunarstofa. Ennfremur eru uppfyllt ákvæði reglugerðar nr. 351 frá 1993, þar sem kveðið er á um að rannsóknastofur sem sinna rannsóknum í tengslum við opinbert eftirlit, skuli faggilda prófunaraðferðir sínar.

Gæðastaðallinn IST EN ISO/IEC 17025 um hæfni og starfsemi prófunarstofa, gerir m.a. kröfu til þess að unnið sé samkvæmt Gæðakerfi, sem skjalfest sé í Gæðahandbók, að unnið sé samkvæmt kerfisbundnum og skilgreindum aðferðum við stjórnun gæðamála, og að skrifaðar séu verklagsreglur fyrir alla þætti prófunar sem staðallinn tekur til.

Gæðakerfi Tilraunastöðvarinnar er skjalfest í rafræna Gæðahandbók CCQ (Cloud compliance & Quality).
Faggilding á að tryggja að þjónusta rannsóknastofunnar mæti væntingum viðskiptamanna hvað varðar gæði, hæfni, öryggi og afgreiðsluhraða.