Þjónusta Keldna vegna dýrasjúkdóma

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum er leiðandi í rannsóknum á sjúkdómum og sjúkdómsvörnum dýra, og er eina dýrasjúkdómastofnun landsins.

Stofnunin annast rannsóknir og þjónustu í þágu heilbrigðiseftirlits, sjúkdómsgreininga og sjúkdómsvarna fyrir búfé, fiska, gæludýr og önnur láðs- og lagardýr í samstarfi við Yfirdýralækni, og er Matvælastofnun til ráðuneytis varðandi sjúkdóma í dýrum og varnir gegn þeim.

Keldur gegna mikilvægu hlutverki við rannsóknir á súnum, þ.e. sjúkdóma eða sýkingavalda sem smitast á milli manna og dýra með náttúrulegum hætti, og vörnum gegn þeim.

Lög um matvæli (nr. 169/2000) og reglugerð um tilkynningar- og skráningarskylda dýrasjúkdóma (nr. 52/2014) kveða á um skyldur rannsóknastofa til að tilkynna stjórnvöldum ef greinast tilgreindar örverur sem valdið geta sjúkdómum annað hvort í dýrum eða mönnum eða borist á milli dýra og manna. Tilkynningaskyldan vegur þyngra en trúnaður við viðskiptavini.

Aðstaða og sérfræðiþekking

Á Keldum eru þrjár deildir sem allar sinna grunn- og þjónusturannsóknum á sviði dýraheilbrigðis og dýrasjúkdóma. Þær eru Bakteríu- og meinafræðideild (deildarstjóri: Charlotta Oddsdóttir), Rannsóknadeild fisksjúkdóma (deildarstjóri: Árni Kristmundsson) og Veiru-, sníkjudýra og sameindalíffræðideild (deildarstjóri: Vilhjálmur Svansson).

Allar deildir sinna grunn- og þjónusturannsóknum á sviði dýraheilbrigðis og dýrasjúkdóma.

Finna má yfirlit yfir allar þjónusturannsóknir sem framkvæmdar eru á þessum deildum í gjaldskrá Keldna. Í ársskýrslu Keldna má síðan finna samantekt og yfirlit yfir þjónusturannsóknir hvers árs fyrir sig.

Keldur sinna prófunum og greiningum á mörgum sviðum s.s.:

  • Blóðsjúkdómafræði
  • Fisksjúkdómafræði
  • Krufningar og vefjameinafræði
  • Ónæmisfræði
  • Príonfræði
  • Sameindalíffræði
  • Sníkjudýrafræði
  • Sýklafræði
  • Veirufræði

Tilraunastöð HÍ Íslands í meinafræði að Keldum er með vottað gæðakerfi samkvæmt alþjóðlega faggildingarstaðlinum ÍST ISO/IEC 17025 og 10 prófunaraðferðir eru faggiltar. Gæðastjóri Keldna: Kristín Matthíasdóttir.

Faggilding

  • Er formleg viðurkenning óháðra eftirlitsaðila SWEDAC (Swedish Board for Accreditation and Conformity Assessment) á því prófunarstofur Keldna hafi þekkingu og hæfni til að vinna viðkomandi rannsóknir.
  • Er staðfesting eftirlitsaðila á því að Tilraunastöðin uppfylli allar kröfur staðals varðandi móttöku og skráningu sýna, framkvæmdir prófana og útgáfu svara.
  • Er viðurkenning á gæðakerfi og gæðaeftirliti vegna tækja, húsnæðis og hæfni starfsfólks.
  • Svið faggildingar

Faggiltar prófunaraðferðir Keldna

  • Riðuskimun – TeSeE ELISA
  • Riðuskimun – Hybrid Western blot
  • Sýklalyfjanæmisprófun með seyðismikró-þynningaraðferð
  • Campylobacter ræktun
  • Salmonella ræktun
  • Tríkínugreining
  • Greining á IHN, VHS og IPN fiskaveirum
  • Greining Infectious Salmon Anemia (ISAV) fiskaveiru
  • Greining Salmonid Alpha Virus (SAV)
  • Greining Infectious Pancreatic Necrosis Virus (IPNV)
  • Greining Piscine Myocarditis Virus (PMCV)

Ný matvælalöggjöf um hollustuhætti og eftirlit á Evrópska efnahagssvæðinu tók gildi á Íslandi 1. mars 2010. Samkvæmt löggjöfinni ber yfirvöldum að tilnefna tilvísunarrannsóknarstofur e. National Reference Laboratory (NRL) fyrir fóður og matvæli annars vegar og rannsóknir á heilbrigði dýra og lifandi dýrum hins vegar. Tilvísunarrannsóknastofur sinna ýmsum samskiptum við Evrópurannsóknarstofur (EURL) á viðkomandi sviðum, Matvælastofnun og opinberar rannsóknastofur.

Keldur eru með þjónustusamning við Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið (ANR) um rekstur tilvísunarrannsóknarstofa á 7 sviðum

  • Rannsóknir á bogstafasýklum (Campylobacter). Tengiliður: Vala Friðriksdóttir.
  • Rannsóknir á sníkjudýrum, einkum tríkínum (Trichinella spp.), Echinococcus spp. (sullaveikibandormi/sullafársormi) og hringormum (Anisakis). Tengiliður: Guðný Rut Pálsdóttir.
  • Rannsóknir á smitandi heilahrörnun (TSE). Tengiliður: Stefanía Þorgeirsdóttir.
  • Rannsóknir á fisksjúkdómum. Tengiliður: Árni Kristmundsson.
  • Rannsóknir á samlokusjúkdómum. Tengiliður: Árni Kristmundsson.
  • Rannsóknir á sjúkdómum í krabbadýrum. Tengiliður: Árni Kristmundsson.
  • Rannsóknir á þoli gegn sýklalyfjum. Tengiliður: Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir.

Öryggisrannsóknarstofa var reist á Keldum 2007 til þess að vinna með hættulega sýkla eða þegar grunur er um hættulegar sýkingar t.d miltisbrand eða hundaæði. Einnig fer þar fram skimun fyrir fuglaflensu. Rannsóknarstofan flokkast sem "Biosafety level 3".

Byggingin er með ytra og innra rými, undirþrýsting í því innra. Allt loft frá innra rýminu er síað og allur úrgangur þaðan dauðhreinsaður. Í kjallara er meðhöndlun á affalli, á miðhæð er krufningsherbergi og rannsóknarstofa og loftræsti- og síunarbúnaður á efstuhæð. Strangar vinnureglur eru viðhafðar og notaður einnota öryggisklæðnaður.

Vilhjálmur Svansson dýralæknir er umsjónamaður öryggisrannsóknarstofunnar.

Tilraunastöðin heldur hross og sauðfé vegna blóðsölu til sýklaætisgerðar, framleiðslu á mótefnasermi og tilrauna.

Stofnunin veitir vísindamönnum aðstoð við framkvæmd og skipulagningu dýratilrauna.

Faglega umsjón með dýrahaldi hafa Charlotta Oddsdóttir og Vilhjálmur Svansson, dýralæknar.

Samstarf um dýratilraunir er við fyrirtækið ArcticLAS samkvæmt sérstökum samningi. Tengiliður ArcticLAS er Katrín Ástráðsdóttir.

Greining dýrasjúkdóma - ferli

Sjúkdómsgreiningar geta byggt á fleiri en einni rannsókn, m.a.:

  • Krufningu
  • Vefjaskoðun
  • Blóðrannsókn
  • Sýklaræktun
  • Sníkjudýrarannsókn
  • Veiruleit
  • Mögnun og skoðun erfðaefnis
  • Mótefnamælingum

Þegar send eru inn hræ eða líffæri í krufningu eru gerðar nauðsynlegar viðbótarrannsóknir eftir því sem við á. Ef um hjarðvandamál er að ræða skal senda sýni frá fleiri en einu dýri.

Rannsóknir á sýnum:

  • Eru hluti af sjúkdómsgreiningaferli
  • Geta leitt til sértækra sjúkdómsgreininga
  • Geta útilokað grun um ákveðna sjúkdóma
  • Gæði sýnatöku eru undirstaða greininga
  • Niðurstöður þarf alltaf að meta út frá forsögu og klínískum einkennum