Eitt meginhlutverk Tilraunastöðvarinnar samkvæmt lögum er, að annast þjónustu og rannsóknir í þágu heilbrigðiseftirlits, sjúkdómsgreininga og sjúkdómsvarna fyrir búfé og önnur dýr, í samstarfi við Yfirdýralækni.
Þjónusturannsóknir Tilraunastöðvarinnar ná yfir margvíslegar prófanir og greiningar. Um er að ræða m.a.:
• krufningar og aðrar meinfræðirannsóknir,
• almenna sýklafræði,
• blóðmeinafræði,
• sníkjudýrafræði,
• eftirlit með alidýraeldi og sláturafurðum,
• rannsóknir á fiskasjúkdómum,
• skimun fyrir riðu,
• blóðflokkagreiningar á hrossum.
Framleiðsla á bóluefni og mótefnasermi gegn sauðfjársjúkdómum hefur einnig um árabil verið mikilvægur hluti þjónustu Tilraunastöðvarinnar.
Tilraunastöðin framleiðir bóluefni gegn clostridiumsjúkdómum í sauðfé, þ.e. lambablóðsótt, garnapest, og bráðpest. Langt mest er framleitt af svokölluðu Blönduðu bóluefni gegn þessum sjúkdómum.
Þá framleiðir stöðin bóluefni gegn lungnapest í sauðfé af völdum Pasteurella sýkla. Tilraunastöðin framleiðir einnig mótefnasermi gegn lambablóðsótt og garnapest.
Tilraunastöðin sér öllum rannsóknarstofnunum í landinu fyrir hrossa og kindablóði í sýklaæti og ýmis rannsóknastofupróf og blóði, sermi eða öðrum blóðþáttum úr öðrum tilraunadýrum eins og marsvínum, kanínum og músum.
Samfara þessu sinna sérfræðingar stofnunarinnar ráðgjöf á mörgum sviðum.
Til að tryggja gæði rannsókna er beitt faggiltum prófunaraðferðum og unnið eftir gæðakerfi sem byggir á faggildingarstaðlinum ISL ISO 17025:2005.
Sérstök áhersla er lögð á góð samskipti við viðskiptavini og að þeir hafi greiðan aðgang að Tilraunastöðinni.
Tilraunastöð H.Í. í meinafræði að Keldum hvetur viðskiptavini sína til að hafa samband við stofnunina með því að senda tölvupóst á netfangið postur@keldur.is ef frekari upplýsinga er þörf.
Ennfremur má þar koma á framfæri ábendingum eða athugasemdum um annað sem betur má fara.