Hvað er sumarexem?

Lengi hefur verið vitað að með sumarkomu fá sum hross kláða og húðútbrot einkenni sem ágerast er líður á sumarið, sérstaklega ef sumrin eru heit og rök.  Einkennin eru tengd bítandi óværu. Sjúkdómurinn hefur í tímans rás fengið mismunandi heiti s.s. summer eczema, sweet itch, Queensland itch”, summer itch, Culicoides hypersensitivity og insect bite hypersensitivity. Á íslensku nefnist sjúkdómurinn sumarexem.

Uppúr miðri síðustu öld var farið að rannsaka sjúkdóminn nánar, til að greina eðli hans og orsakir. Með því að nota seyði af mismunandi blóðsjúgandi eða bítandi flugnategundum í húðprófum þá kom í ljós að stærstur hluti hestanna svaraði á seyði smámýs af ættkvíslinni Culicoides (Fadok, 1990; Halldorsdottir et al., 1989; Quinn et al., 1983).  Vefjameinafræði sjúkdómsins benti til þess að um ofnæmisviðbrögð væri að ræða (Riek, 1953).

A picture of a horse with summer eczema

Öll hrossakyn geta fengið sumarexem en eru misnæm og virðast erfðaþættir koma þar við sögu. Umhverfisþættir og þá aðallega útsetning fyrir smámýi skiptir þó mestu máli. Tíðni sumarexems í mismunandi hrossakynjum er mjög á reiki og í raun lítið rannsökuð. Erfitt getur verið að bera saman tíðnina út frá þeim faraldsfræðilegu rannsóknum sem gerðar hafa verið sökum mismunandi aðferðafræði.

Samkvæmt þeim er sýnd sjúkdómsins mjög breytileg eftir landsvæðum (útsetning fyrir flugunni) og hestakynjum, eða á bilinu 2 til 50% (Þorsteinsdóttir and Svansson, 2002, Schaffartzik et al., 2012).