Útgáfa Keldna

Vísindamenn Keldna birta niðurstöður rannsókna sinna í ritrýndum tímaritum og í ýmsum skýrslum. Til að kynna rannsóknir sínar fyrir almenningi þá hafa starfsmenn Keldna skrifað greinar í blöð, t.d. Bændablaðið. Liður í þessari kynningarstarfsemi eru Keldnaráðstefnurnar, sem eru ráðstefnur sem haldnar eru á tveggja ára fresti á stofnuninni þar sem vísindamenn hennar kynna rannsóknir sínar með erindum og veggspjöldum. Þessar ráðstefnur eru öllum opnar. 

Tilraunastöðin hefur um áratuga skeið gefið út ítarlega ársskýrslu sem nær yfir alla starfsemi stofnunarinnar, jafnt þjónustrannsóknir og grunnrannsóknir. Skýrslur aftur til 2004 eru aðgengilegar á heimasíðunni á rafrænu formi. Skýrslur fyrir þann tíma er mögulegt að sjá á bókasafni Keldna.

Á síðustu áratugum hafa fjölmargir nemendur unnið rannsóknarverkefni á Keldum undir leiðsögn vísindamanna stofnunarinnar. Þar er um að ræða BSc, MS og PhD verkefni. Ritgerðir þessara nemenda má nálgast á Skemmunni eða á Opin Vísindi.

Tilraunastöðin tekur einnig þátt í útgáfu tímaritsins Icelandic Agricultural Sciences.