Sníkjudýrategundir í íslenskum hýslum

Karl Skírnisson, dýrafræðingur á Keldum, hefur undanfarin ár og áratugi unnið að því að útbúa skrá yfir sníkjudýrategundir sem nafngreindar hafa verið við rannsóknir á fánu Íslands. Sníkjudýrategundirnar eru alls um 900 talsins. Í þessari skrá er getið um fræðiheiti hverrar sníkjudýrategundar, íslenskt heiti ef þekkt, flokkunarfræðilega stöðu og í hvaða hýsli eða hýslum viðkomandi sníkjudýr hefur fundist. Helstu heimilda er getið í aftasta dálki töflunnar. Skammstafanir þar vísa til ritverka sem varðveittar eru í sérstöku heimildasafni á sníkjudýradeildinni á Keldum.

Í árslok 2021 voru í skránni 147 tegundir frumdýra (Protozoa), 145 ögður (Trematoda, 19 Monogenea og 128 Digenea tegundir), 115 bandormar (Cestoda), 163 þráðormategundir (Nematoda) og 15 krókhöfðar (Acanthocephala). Samtals eru þetta 585 tegundir. Til viðbótar í skránni eru um 50 tegundir krabbadýra (einkum fiska- og tálknalýs) sem lifa á húð eða tálknum sjávar- og ferskvatnsfiska. Þá eru á listanum 93 tegundir naglúsa (Mallophaga, - lifa flestar á hár- eða fiðurpróteinum, sumar tegundir drekka blóð til bragðbætis), sjö blóðsjúgandi soglýs (Anoplura) og tíu flóartegundir (Siphonaptera). Afgangurinn eru mítlar (Acarina) sem lifa sníkjulífi. Til dæmis kláðamítlar í húð spendýra eða fugla. Aðrar tegundir sníkja uppi í nösum eða jafnvel niðri í öndunarvegi, inni í fjaðurstöfum, í fjaðraham og í feldi og eyrum spendýra. Stórir blóðmítlar svo sem lundamítillinn (áður nefndur lundalús) sækja í að sjúga blóð bæði úr fuglum og/eða spendýrum.

Langflestar sníkjudýrategundir hafa verið staðfestar í eða á mönnum, alls 65. Fjórir aðrir hýslar, allt mikið rannsakaðar tegundir, eru með ríflega 40 skráðar sníkjudýrategundir hver (sauðkind, æðarfugl, þorskur og bleikja). Þá eru 39 hundasníkjudýr og 20 kattasníkjudýr á listanum. Þar eru meðtaldar tegundir sem fundist hafa í eða á innfluttum gæludýrum í einangrunarstöðvum.

Misjafnt er hversu vel íslenskir hýslar hafa verið rannsakaðir með tilliti til sníkjudýra. Skipulagðar rannsóknir hafa þegar verið gerðar á öllum helstu nytjadýrum mannsins (húsdýrum, gæludýrum, sumum nytjafuglum svo sem rjúpu og nytjafiskum bæði í sjó og í ferskvatni). Tilfallandi rannsóknir hafa verið gerðar á sníkjudýrum margra sjávarspendýra (6 selategundum, 7 hvölum) og spendýrum á þurrlendi. Þá hafa mismiklar athuganir verið gerðar á fiskum (á 7 tegundum brjóskfiska og 35 beinfiskum) og 77 tegundum fugla. En mikið verk er enn óunnið í að greina sníkjudýrafánu Íslands.

Hér til hliðar má sjá mynd af hnísli (Eimeria rangiferensis, lengd 35 µm) úr hreindýri (Mynd: Karl Skírnisson).