Háskóli Íslands

Þróun ónæmismeðferðar gegn sumarexemi í hestum

 

Hvað er sumarexem?

Kynningarmyndband um rannsóknir á sumarexemi

Markmið

Markmið doktosverkefnisins er að þróa ónæmismeðferð gegn sumarexemi í hestum með tveimur nálgunum:

 

 

1. Fyrirbyggjandi meðferð með bólusetningu hesta með hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði.

Þar sem sprautun í eitla er ekki mjög auðveld verður hún borin saman við sprautun undir húð á þremur hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði. Einnig verða veiru-líkar agnir (virus-like particles (VLP)) bornar saman við Th1 stýrandi ónæmisglæðin monophosphoryl lipid A (MPLA) sem hefur áður verið notaður í tilraunum okkar með góðum árangri. Út frá niðurstöðum úr þessari bólusetningatilraun og niðustöðum úr örflögutilrauninni, sem gefa hugmynd um hverjir aðalofnæmisvakarnir eru, hefur verið sett upp áskorunartilraun. Hestar voru sprautaðir í eitla með hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði hér á Íslandi og síðan fluttir út á flugusvæði í Sviss þar sem þeir verða óvarðir og fylgst með þeim í þrjú ár til þess að meta hvort að bólusetningin geti varið þá gegn ofnæminu.

Ofnæmisvakarnir sem eru notaðir í bólusetningarnar eru framleiddir í E.coli en þeir henta ekki í ónæmispróf til að meta ónæmissvarið í kjölfar ónæmismeðferðar vegna mikils bakgrunns vegna mengunar af inneiturs (endotoxin; lipopolysaccharide). Þess vegna er mikilvægt að framleiða ofnæmisvakana líka í öðru kerfi eða heilkjörnungum og þar sem þeir eru upprunnir úr bitkirtlum skordýrs er eðlilegast að tjá þá í skordýrafrumum.

 

2. Afnæming um slímhúð munns með byggi sem tjáir ofnæmisvaka, gert í samstarfi við ORF Líftækni.

Framleiðsla á ofnæmisvökunum í byggi býður uppá inneitur fría próteinafurð og geymslan á próteininu í bygginu er mjög stöðug. Með því að nota byggið til að afnæma gegnum slímhúð fer ekki mikil vinna og kostnaður í próteinhreinsun og ekki þarf að sprauta hrossin. Framleiðslan á ofnæmisvökunum í byggi fer fram hjá ORF Líftækni með aðferð þeirra sem byggir á þremur kynslóðum á byggi og þarf að skima þær allar fyrir tjáningu ofnæmisvakans. Ferlið er mjög tímafrekt, tekur 18-24 mánuði frá því að klónun á sér stað þar til að lokaafurð fæst.

Seinni aðferðin sem notuð er við þróun á ónæmismeðferð er afnæming þar sem hestar með sumarexem eru meðhöndlaðir um slímhúð munns með byggi sem tjáir ofnæmisvakana sem hesturinn er með svörun gegn. Nú hafa sex ofnæmisvakar verið framleiddir í byggi og þessi aðferð verið prófuð á heilbrigðum hestum á Keldum með einum ofnæmisvaka og sýndu niðurstöður fram á að í kjölfar meðhöndlunar mældust sérvirk IgG (IgG1 og IgG 4/7) mótefni í sermi og munnvatni sem gátu að hluta til hindrað bindingu IgE við ofnæmisvakan [14]. Forrannsókn með einum vaka í samstarfi við Cornell háskóla í Ithaca í Bandaríkjunum er hafin. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna aukningu á Th1 mótefnum og að svarinu sé því beint frá Th2 yfir á Th1 braut. Þessi aðferð verður útvíkkuð og prófuð á fleiri hestum með fleiri ofnæmisvökum.

 

Í doktorsnefnd eru:
Sigurbjörg Þorsteinsdóttir (Dr. Med. Sc) Ónæmisfræðingur á Keldum
Vilhjálmur Svansson (DMV Ph.D) Dýralæknir/ Veirufræðingur á Keldum
Eliane Marti (Ph.D, Dr. Med. Vet.) Dýralæknir/ Ónæmisfræðingur við Háskólan í Bern, Sviss
Jón Már Björnsson (Ph.D) Sameindalíffræðingur hjá ORF Líftækni hf.
Arna Rúnarsdóttir (Ph.D) Lífefnafræðingur hjá ORF Líftækni hf.

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is