Háskóli Íslands

Rannsóknir í veiru-, ónæmis-og sameindalíffræði - texti úr ársskýrslu Keldna

Áhrif Sulforaphane á mæði-visnuveiru sýkingu í makrófögum

Starfslið: Stefán R. Jónsson og Valgerður Andrésdóttir.
Samstarf: Carlos de Noronha, Albany Medical College, SUNY, Albaby, NY.
Upphaf: 2015. Lok: Óviss.

Sulforaphane (SFN) er efni sem finnst í ýmsum kálplöntum, mest í spergilkálsspírum, og virkjar Nrf2, sem aftur stýrir tjáningu á ýmsum próteinum sem eru mikilvæg í andoxunarferlum. Carlos de Noronha og samstarfsfólk við Albany Medical College hefur sýnt fram á að SFN meðhöndlun hindrar HIV-1 sýkingu í makrófögum í gegnum Nrf2. Þessi áhrif sjást hins vegar ekki í T-frumum. Við athuguðum áhrif SFN á mæði-visnuveirusýkingu og benda fyrstu niðurstöður til að SFN meðhöndlun hindri sýkingu í makrófögum en hafi mun minni áhrif í SCP frumum.

 

Hlutverk Vif í lentiveirum

Starfslið: Stefán Ragnar Jónsson, Tim Aberle,  Morgane Méras, Alvaro Garces Cardona, Sóveig Rán Stefánsdóttir og Valgerður Andrés¬dóttir.
Samstarf: Reuben S. Harris, University of Minnesota; Nevan Krogan og Joshua Kane, University of California, San Francisco, Ólafur S. Andrésson, líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Upphaf: 2000. Lok: Óviss.

Á síðustu árum er sífellt að koma betur í ljós að lífverur hafa komið sér upp ýmsum vörnum gegn veirusýkingum. Veirurnar hafa á hinn bóginn fundið leiðir fram hjá þessum vörnum hver í sínum hýsli. Lentiveirur eins og mæði-visnuveira og HIV hafa próteinið Vif, sem er nauðsynlegt til þess að veirurnar geti sýkt markfrumur sínar. Sýnt hefur verið fram á að Vif miðlar niðurbroti próteinsins APOBEC3, sem er eitt af veiruvarnarpróteinum frumunnar.
Rannsóknir okkar á Vif próteininu hafa leitt í ljós að þetta er ekki eina virkni Vif. Vif prótein bæði mæði-visnuveiru og HIV-1 binst einnig öðrum veiruhindra sem nefnist SAMHD1. SAMHD1 er meðal annars tjáð í makrofögum, og hafa HIV-2 og ýmsar apalentiveirur sérstakt prótein, Vpx, sem miðlar niðurbroti SAMHD1. Vpx próteinið er ekki í HIV-1, og hingað til hefur ekki verið vitað hvernig HIV-1 kemst fram hjá SAMHD1 í makrofögum. Niðurstöður okkar benda til að mæði-visnuveira og HIV-1 noti Vif til að ráða niðurlögum SAMHD1.

 

Hlutverk sjálfsáts í mæði-visnuveirusýkingu

Starfslið: Stefán R. Jónsson og Valgerður Andrésdóttir.
Samstarf: Margrét Helga Ögmundsdóttir, læknadeild Háskóla Íslands.
Upphaf: 2015. Lok: Óviss.

Sjálfsát (autophagy) er mikilvægt ferli í ónæmissvari og hefur stýring á sjálfsáti verið tengd við ýmsar veirusýkingar þar á meðal í HIV. Við lituðum fyrir LC3, sem er merkiprótein fyrir sjálfsát, í kinda-makrófögum sýktum með mæði-visnuveiru (MVV). Niðurstöðurnar benda til að slík stýring sé líka til staðar í mæði-visnuveiru. Kinda makrófagar sýktir með MVV sýna að í upphafi sýkingar verður aukning á sjálfsáti, en á þriðja degi sýkingar verður tímabundin hindrun. Þessi hindrun er Vif háð þar sem veira án Vif sýnir ekki sömu hindrun. Einnig sýndi samónæmisfelling að MVV Vif bindur LC3 próteinið. Þessar niðurstöður benda til áður óþekktrar virkni Vif, sem við munum rannsaka frekar.

 

Rannsóknir á herpesveirusýkingum í hestum

(Tengill á vefsíðu rannsóknarverkefnisins er hér)

Starfslið: Vilhjálmur Svansson, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Lilja Þorsteinsdóttir, Sara Björk Stefánsdóttir, Sigríður Jónsdóttir og Kristín Þórhallsdóttir.
Samstarf: Bettina Wagner, Cornell University, Ithaca, NY, USA.
Upphaf: 1999. Lok: Óviss.

Þekktar eru 5 herpesveirusýkingar í hrossum þ.e. alfaherpesveirurnar equine herpesvirus type 1 (EHV-1), EHV-3 og EHV-4, og gammaherpesveirurnar EHV-2 og EHV-5. Frumsýkingar með EHV-1 og EHV-4 eiga sér stað um öndunarveg en auk þess að valda öndunarfærasýkingum veldur EHV-1 einnig fósturláti og lömunum og telst með alvarlegri veirusýkingum í hrossum. Sýkingar með EHV-1 hafa ekki greinst hérlendis. EHV-3 veiran smitast við kynmök og veldur útbrotum á kynfærum. Sýkingar með EHV-2 og EHV-5 eru vanalegast einkennalausar öndunarfærasýkingar en væg einkenni, kvefs og hvarmabólgu geta sést hjá folöldum. Ekki er vitað hvenær þær 4 herpesveirugerðir sem hér er að finna í hrossum bárust til landsins. Í ljósi þess hvernig herpesveirur viðhaldast í stofnum með dulsýkingum má að ætla að allar veirugerðirnar hafi borist með hrossum sem voru flutt inn til Íslands í upphafi byggðar.
Núverandi rannsóknir beinast að því að setja upp ýmsar aðferðir til greininga á sýkingum með veirum auk þess að skoða faraldursfræði veiranna, sýkingaferla og ónæmisviðbrögð.
Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði Rannís, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Stofnverndarsjóði íslenska hestsins, Þróunarfjárnefnd hrossaræktarinnar og Framleiðnisjóði landbúnaðarins.

 

Rannsóknir á riðu í sauðfé

Starfslið: Stefanía Þorgeirsdóttir, Ásrún María Óttarsdóttir og Eva Hauksdóttir.
Samstarf: Matvælastofnun.
Upphaf: 1995. Lok: Óviss.

Riða í sauðfé flokkast undir príonsjúkdóma, öðru nafni smitandi heilahrörnun, en um er að ræða ólæknandi taugasjúkdóma sem ekki er hægt að bólusetja gegn. Sambærilegir sjúkdómar finnast í geitum, nautgripum og hjartardýrum, en einnig í mönnum. Príonsjúkdómar draga nafn sitt af svokölluðu príonpróteini, sem finnst á eðlilegu formi í öllum spendýrum en á umbreyttu formi getur það orðið smitandi, þolið gagnvart niðurbroti og safnast upp, einkum í heilavef, þar sem einkennin koma fram sem truflun á taugaboðum.
Á Íslandi hefur riða lengi verið vandamál í sauðfjárrækt, sérstaklega á Norðurlandi þar sem sjúkdómurinn kom fyrst upp og er þar enn landlægur á ákveðnum svæðum. Önnur svæði á landinu hafa einnig fengið sinn skerf í gegnum tíðina en nokkur svæði hafa alltaf verið riðufrí, sem má m.a. þakka varnargirðingum, sem ásamt náttúrulegum hindrunum, skipta landinu í varnarhólf (nú 26). Frá árinu 1978 hefur skipulega verið reynt að útrýma riðusjúkdómnum hér á landi, fyrst með niðurskurði á fé, síðar sótthreinsun útihúsa og nokkurra ára fjárlausu tímabili. Ekki hefur tekist að útrýma sjúkdómnum en tilfellum hefur fækkað mikið frá því sem mest var. Síðustu ár hafa greinst örfá tilfelli á ári, sum ár eingöngu Nor98 riða, sem er óhefðbundið afbrigði riðu, sem er talið sjálfsprottið án utanaðkomandi smits. Ekki er þörf á niðurskurði á fé þar sem Nor98 greinist líkt og í tilfellum hefðbundinnar riðu.
Á Keldum hefur frá árinu 1995 verið rannsakað samband arfgerða príongensins við riðusmit í sauðfé, en náttúrulegur breytileiki í príongeninu er mikilvægur fyrir næmi kinda fyrir riðu. Mismunandi samsætur í táknum 136, 154 og 171 tengjast áhættu (VRQ) og minnkuðu næmi (AHQ) fyrir hefðbundinni riðu í íslensku fé en samsætan sem er þekkt erlendis vegna mest verndandi eiginleika (ARR) hefur ekki fundist hér á landi. Verkefnið felur í sér vöktun á arfgerðum príongensins í kindum sem greinast með riðu, en auk jákvæðra kinda eru til samanburðar prófaðar einkennalausar kindur úr riðuhjörðum. Tvö jákvæð tilfelli hafa verið staðfest með þá arfgerð sem upphaflega var talin geta veitt vernd gegn riðu í íslensku fé (AHQ). Í þeim tilvikum var um einkennalausar kindur að ræða (sláturhúsasýni og niðurskurðarsýni). Þetta bendir til að sú arfgerð gefi ekki þá vernd sem áður var talið. Þessi arfgerð er algeng í tilfellum Nor98 riðu, en þar snýst áhættan við hvað varðar smitnæmi arfgerða.
Á árinu 2018 var lokið við arfgerðagreiningu sýna úr niðurskurði frá tveimur bæjum þar sem hefðbundin riða hafði greinst, þ.e. á Stóru-Gröf ytri í Skagafirði (2016) og Urðum í Eyjafirði (2017). Af 296 niðurskurðarsýnum frá Stóru-Gröf reyndust fjögur vera jákvæð fyrir riðu (1,4%) og var eitt þeirra með áhættuarfgerð (25%). Af 292 neikvæðum sýnum voru 40 með áhættuarfgerð (13,7%), en 32 með minnkað næmi (11,0%). Af 103 sýnum úr niðurskurði á Urðum voru átta jákvæð fyrir riðu (7,8%) og báru þrjú þeirra áhættuarfgerð (37,5%). Eitt jákvætt sýni úr niðurskurði bar arfgerð sem hefur verið tengd minnkuðu næmi. Af 95 neikvæðum sýnum voru 15 með áhættuarfgerð (15,8%) en sjö með minnkað næmi (7,4%). Í báðum riðuhjörðum voru um 75% kindanna með svokallaða hlutlausa arfgerð.

 

Rannsóknir á virkni unnins þorskroðs sem vefjaviðgerðarefni í kindum og svínum

Starfslið: Eygló Gísladóttir, Elvar Hólm Ríkharðsson og Guðbjörg Jónsdóttir.
Samstarf: Hilmar Kjartansson (verkefnisstjóri), Ingvar H. Ólafsson, Guðjón Birgisson og Sigurbergur Kárason hjá Landspítala Háskólasjúkrahúsi.
Upphaf: 2014. Lok: Óviss.

Íslenska lækningavörufyrirtækið Kerecis hefur þróað einkaleyfavarðar aðferðir og tækni sem umbreyta þorskroði, hráefni sem hingað til hefur verið fleygt, í verðmæta lækningavöru. Kerecis Omega3 er affrumað fiskiroð sem nota má til margskonar húð- og vefjaviðgerða.
Kerecis hefur í samstarfi við Keldur unnið að margskonar prófunum á virkni affrumaðs roðs sem vefjaviðgerðarefni í kindum. Prófanirnar hafa verið framkvæmdar skv. leyfum sem veitt hafa verið af yfirdýralækni samkvæmt umfjöllun fagráðs um velferð dýra og hefur tilgangur prófananna verið að sýna fram á öryggi og virkni tækni Kerecis. Prófanir þær sem framkvæmdar hafa verið á Keldum eru undanfari prófana sem Kerecis hyggst framkvæma í mönnum og hefur tekist náið samstarf milli Kerecis og Keldna varðandi þessar prófanir sem gera Kerecis kleift að framkvæma stærri hluta af vöruþróunarferli sínu á Íslandi.

 

Sumarexem í hrossum, þróun ónæmismeðferðar

(Tengill á vefsíðu rannsóknarverkefnisins er hér.)

Starfslið: Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Vilhjálmur Svansson, Sara Björk Stefánsdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Hólmfríður Kristjánsdóttir, Laura Wanner, Lilja Þorsteinsdóttir, Ólöf Sigurðardóttir og Eygló Gísladóttir.
Samstarf: Eliane Marti, dýrasjúkdómadeild Háskólans í Bern, Sviss; Bettina Wagner dýrasjúkdómadeild Háskólans í Cornell, Íþöku, USA; Marcos Alcocer Lífvísindadeild Háskólans í Nottingham, Englandi, Sigríður Björnsdóttir Matvælastofnun; Jón Már Björnsson og Arna Rúnarsdóttir ORF Líftækni; Sveinn Steinarsson formaður Félags Hrossabænda, Þorvaldur Kristjánsson ábyrgðarmaður í hrossarækt  hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins.
Upphaf: 2000. Lok: Óviss.

Sumarexem er húðofnæmi í hestum orsakað af IgE miðluðum viðbrögðum gegn biti smámýs sem lifir ekki á Íslandi. Tíðni sjúkdómsins er mjög há í útfluttum hestum. Sumarexemverkefnið er samvinnuverkefni milli Keldna og dýrasjúkdómadeildar háskólans í Bern í Sviss og er markmið þess þríþætt: I. Finna og greina próteinin sem valda ofnæminu. II. Rannsaka ónæmissvarið og feril sjúkdómsins. III. Þróa ónæmismeðferð, forvörn með því að sprauta hesta með hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði og afnæmingu um slímhúð munns með byggi sem tjáir ofnæmisvaka. Afnæming um slímhúð er einnig í samstarfi við Bettinu Wagner við Dýrasjúkdómadeild Háskólans í Cornell, Íþöku, Nánar um verkefnið, tildrög, fræðilegan bakgrunn, útskrifaða nema og birtar greinar má finna á heimasíðu Keldna.
Fjölmargir ofnæmisvakar úr smámýi hafa verið einangraðir og nú hafa aðalofnæmisvakar verið kortlagðir með örflögutækni í samvinnu við Marcos Alcocer í Háskólanum í Nottingham. Exemið er ofnæmissvörun á Th2 braut með framleiðslu á IgE mótefnum og ójafnvægi milli undirflokka T-fruma virðist vera undirliggjandi orsök. Í forrannsókn hefur tekist að Th1 miða ónæmissvar í hestum með því að sprauta hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæðablöndu í eitla. Verið er að prófa þessa aðferð í fleiri hestum og bera saman við sprautun undir húð sem er auðveldari í framkvæmd.  Á grundvelli niðurstaðna verður gerð áskorunartilraun þar sem bólusettir hestar verða fluttir á flugusvæði í Sviss og fylgst með þeim í þrjú ár.
Ofnæmisvakar hafa verið tjáðir í byggi og reynast ekki síðri í ónæmisprófum en vakar framleiddir í E. coli og skordýrafrumum. Aðferð hefur verið þróuð til að meðhöndla hross með endurröðuðu byggmjöli um slímhúð munns. Heilbrigðir hestar meðhöndlaðir með endurröðuðu byggi mynduðu ofnæmisvakasérhæfð mótefni sem gátu að hluta hindrað IgE bindingu við ofnæmisvakann. Í tengslum við önnur samstarfsverkefni við Dýrasjúkdómadeild Cornell Háskóla hefur verið komið upp hópi íslenskra tilraunahesta við skólann. Sum þessara hrossa eru komin með sumarexem og eru kjörin til þess að prófa afnæmingu. Forprófun í meðhöndlun var gerð með byggi sem tjáir einn ofnæmisvaka þar sem fyrstu niðurstöður lofa góðu. Hjá ORF Líftækni er verið að tjá fjóra ofnæmisvaka í byggi sem sumarexemshestarnir í Cornell hafa ofnæmi fyrir til að hægt sé að meðhöndla þá. Í tengslum við meðhöndlun um slímhúð munns er verið að kortleggja ónæmisfrumur í kjafti hrossa.
Verkefnið er styrkt af Rannís, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og Þróunarfjárframlagi hrossaræktarinnar.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is