Háskóli Íslands

Rannsóknir á sníkjudýrum, örverum og meinafræði í ýmsum dýrategundum - texti úr ársskýrslu Keldna

Alþjóðleg rannsókn á smitsjúkdómum og lyfjaþolnum bakteríum í skólpi (Global Sewage Surveillance Project)

Starfslið: Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir.  
Samstarf: Rene S. Hendriksen og Jette Kjeldgaard, Research Group of Genomic Epidemiology, DTU-Food, National Food Institute, Danmörku, stýra þessu verkefni sem unnið er í samstarfi við fjölda rannsóknarstofa um allan heim.
Upphaf: 2016. Lok: Óviss.

Í lok árs 2015 hófu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og National Food Institute, DTU í Danmörku (WHO Collaborating Center for Antimicrobial Resistance in Foodborne Pathogens and Genomics) forrannsókn á notagildi víðerfðamengjafræði (metagenomics) við rannsóknir og eftirlit með smitsjúkdómum í skólpsýnum á alþjóðavísu. Markmiðið er að geta greint, haft eftirlit með, fyrirbyggt og spáð fyrir um smitsjúkdóma í mönnum. Eftirlit með skólpi er talið vera góð leið til að ná að fylgjast með ýmsum smitsjúkdómum í stóru þýði. Með þessu eftirliti er hægt að fá sýni úr stórum hluta þýðisins og þar með talið úr heilbrigðum einstaklingum. Hraðari og nákvæmari greiningar á sjúkdómsvöldum og sýklalyfjaónæmi eru mikilvægar þegar kemur að forvörnum og vörnum gegn sjúkdómum.
Sýnatökur fóru fyrst fram í 63 löndum í byrjun árs 2016, þar á meðal Íslandi. Sýnatökur fóru svo fram tvisvar sinnum á árunum 2017 og 2018, í yfir 100 löndum samtímis. Sýni eru tekin úr skólphreinsistöðvum, rétt eftir inntak í stöðina fyrir hreinsun. Tekið er safnsýni yfir 24 klst tímabil. DNA útdráttur og raðgreining fer fram hjá National Food Institute, DTU í Danmörku (WHO Collaborating Center for Antimicrobial Resistance in Foodborne Pathogens and Genomics) með Illumina Hiseq. Gögnin eru lesin saman við ýmsa gagnagrunna á vegum DTU Food og annarra og greint verður hvort og þá hvaða sýkingavaldar og sýklalyfjaónæmisgen má finna í sýnunum. Gögnin verða greind fyrir hvert land fyrir sig og tengd tiltækum gögnum svo sem á notkun sýklalyfja. Fylgjast má með framgangi verkefnisins hér: http://www.compare-europe.eu/Library/Global-Sewage-Surveillance-Project
 

Ásætumítlar á hunangsflugum

Starfslið: Guðný Rut Pálsdóttir og Karl Skírnisson.
Samstarf: Barry M O´Connor, Háskólanum í Michigan, BNA.
Upphaf: 2017. Lok: Óviss.

Fimm humlutegundir (Bombus spp.) hafa fundist á Íslandi á liðnum áratugum. Erlendis eru þekktar margar tegundir ásætumítla sem lifa samlífi með humlum. Hér á landi hafa menn iðulega séð ásætumítla á humlum en ekki vitað hvaða tegundir voru þar á ferðinni. Tilgangur verkefnisins er að greina tegundirnar. Vorið 2017 voru 53 humludrottningar fangaðar í Árbæ, í Kópavogsdal, á Tilraunastöðinni á Keldum, á Selfossi og í Laugarási, á Svignaskarði og á Egilsstöðum og þær strax settar í glös með 70% etanóli. Humlutegundirnar í þessum efniviði reyndust vera þrjár og allar voru þær með mítla, yfirleitt nokkra tugi eða hundruð mítla hver fluga en sú sem var með flesta bar 1115 mítla. Flokkun og talningu mítlanna er lokið. Fyrstu niðurstöður tegundagreininga benda til þess að amk. fimm mítlategundir séu til staðar í þessum efniviði. Leitað hefur verið til erlends sérfræðings varðandi staðfestingar á tegundagreiningum.
 

Bógkreppa í lömbum

Starfslið: Charlotta Oddsdóttir, Ólöf G. Sigurðardóttir og Eygló Gísladóttir.
Samstarf: Albína Hulda Pálsdóttir og Emma Eyþórsdóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands; Eyþór Einarsson, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.
Upphaf: 2018. Lok: Óviss.

Haustið 2017 var ákveðið af fagráði í sauðfjárrækt að setja í gang verkefni með það að markmiði að staðsetja erfðavísi fyrir bógkreppu.  Íslenskir bændur hafa þekkt bógkreppu í sauðfé áratugum saman, en það er arfgeng vansköpun sem lýsir sér í stuttum fótum og skekkju í liðum framfóta. Vansköpunin kemur missterkt fram í einstaklingum, en í verstu tilfellum geta lömbin ekki stigið í framfætur og komast ekki af sjálfsdáðum á spena.
Sterkar vísbendingar lágu fyrir um að sæðingastöðvahrúturinn Lækur 13-928 frá Ytri-Skógum gæti gefið þennan galla.  Því var ákveðið að gera prófun á Læk til staðfestingar á því hvort hann gæfi bógkreppu með því að sæða dætur hans og líklegar „bógkreppuær“ með honum.  Aðkoma sérfræðinga á Keldum snýst um að lýsa meinafræði gallans, en honum hefur ekki verið lýst með meinafræðilegum aðferðum áður.
Á árinu voru krufin tvö lömb á Keldum, bein verkuð og skoðuð ítarlega.  Úr beinunum voru tekin vefjasýni til meinafræðilegrar greiningar.  Einnig voru beinin borin saman við bein úr heilbrigðum lömbum, sem fengin voru úr Samanburðarsafni í dýrafornleifafræði við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Verkefnið er styrkt af þróunarfé sauðfjárræktarinnar úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins
 

Er skógarmítillinn Ixodes ricinus landlægur á Íslandi?

Starfslið: Matthías Eydal.
Samstarf: VectorNet. Jolyon Medlock og Kayleigh Hansford, Public Health England. Erling Ólafsson, Matthías Alfreðsson, Ester Rut Unnsteinsdóttir, Náttúrufræðistofnun Íslands. Fuglaathugunarstöð Suðausturlands.
Upphaf: 2015. Lok: Óviss.

Verkefnið var í byrjun þáttur í stærra verkefni (VectorNet) en í því var fólgin samvinna milli fjölda sérfræðinga viðsvegar í Evrópu um leit að skógarmítli (Ixodes ricinus) og skráningu á útbreiðslu/útbreiðsluaukningu hans. Í rannsókninni er í fyrsta sinn leitað kerfisbundið að skógarmítlum í skóglendi hér á landi, búsvæði mítlanna, með flöggunar aðferð. Auk þess er skráningu á greindum mítlatilfellum á dýrum og á fólki haldið áfram. Leitað hefur verið að mítlum á músum, refum og á farfuglum. Á árinu 2016 var sérstaklega óskað liðsinnis dýralækna, heilbrigðisstarfsfólks og almennings við að halda til haga mítlum sem finnast á fólki eða dýrum (hundum og köttum) og senda inn til greiningar.
Við leit í skóglendi á 111 stöðum víðs vegar um landið á árunum 2015-2016 fundust einungis fáeinir mítlar og á mjög afmörkum svæðum og lirfustig mítilsins hefur enn ekki fundist. Mítlar hafa fundist á farfuglum við komu til landsins, en engir á músum og refum. Samstarfið við VectorNet stóð yfir 2015-2016 og lauk með birtingu greinar í vísindaritinu Parasites & vectors: Alfreðsson M. o. fl. 2017. Flöggun var haldið áfram 2017 og 2018 og sömuleiðis leit á hagamúsum 2017 og á farfuglum 2017-2018. Innsendum mítlum hefur fjölgað á allra síðustu árum, mítlar hafa einkum fundist á hundum, en einnig á öðrum dýrum og á fólki. Keldum og Náttúrufræðistofnun bárust þó til skoðunar mun færri skógarmítlar á árinu 2018 en síðustu árin þar á undan eða samtals einungis 11 mítlar. Mikill fjöldi skógarmítla hefur fundist á farfuglum, langmest á skógarþröstum. Lifandi skógarmítill sem fannst í mars 2017, áður en farfuglar komu til landsins, staðfestir að tegundin lifi af veturinn. Þar eð ekki hafa enn fundist lirfur mítilsins er ekki hægt að staðfesta að skógarmítill ljúki lífsferli sínum hér á landi. Hafin er leit að sjúkdómsvöldum (vector-borne pathogens) í skógarmítlum sem safnað er hér á landi. Ekki leikur á því vafi að skógarmítlar berast til landsins á vorin með farfuglum og e.t.v. er það uppruni allra mítlanna sem síðan finnast á spendýrum yfir sumarið. Talið er hugsanlegt að skógarmítill geti náð viðvarandi fótfestu á afmörkuðum svæðum, helst sunnanlands, en það munu áframhaldandi rannsóknir væntanlega leiða í ljós.
 

Faraldsfræði ESBL-/AmpC-myndandi E. coli í dýrum, matvælum, mönnum og umhverfinu, könnuð með heilgenaraðgreiningum (WGS)

Starfslið: Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir.  
Samstarf: Vigdís Tryggvadóttir, Matvælastofnun; Viggó Þór Marteinsson, Matís; Karl G. Kristinsson, Landspítali – Háskólasjúkrahús; Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA).
Upphaf:    2018. Lok: 2021.

Þetta verkefni er partur af EU Risk Assessment Agenda Joint Projects hjá EFSA og er megin markmið þeirra að auka þekkingu í hverju landi ásamt því að auka samvinnu milli landa innan Evrópu.
Vonast er til að með þeim niðurstöðum sem fást í þessu verkefni verði hægt að gera áhættumat á þætti matvæla, dýra, manna og umhverfis sem uppsprettu ESBL/AmpC sýklalyfjaónæmis hjá E. coli (stofnar sem mynda ESBL og/eða AmpC eru að jafnaði fjölónæmir). Sýklalyfjaónæmi er ein stærsta ógn við lýðheilsu í heiminum í dag og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Sameinuðu Þjóðirnar og Evrópusambandið hafa hvatt aðildarþjóðir sínar að efla rannsóknir sem nýta mætti til að stemma stigu við þessari ógn. Því miður vantar þekkingu á því að hve miklu leiti sýklalyfjaónæmi kemur frá dýrum og umhverfi. Niðurstöðurnar munu nýtast til að útbúa viðbragðsáætlanir til að viðhalda lágu hlutfalli sýklalyfjaónæmis á Norðurlöndunum eða að hægja á þróun/aukningu ónæmis eins og hægt er.
Meginmarkmið rannsóknarinnar eru að kanna stofnfræði/flæði ESBL/AmpC myndandi E. coli og plasmíða sem bera sýklalyfjaónæmisgen milli mismunandi vistkerfa, matvæla, dýra, manna og umhverfis með heilgenaraðgreiningum. Einnig er vonast til að hægt sé að ákvarða hvort og þá hvaða klónar/ónæmisgen/plasmíð flytjast á milli þessara mismunandi vistkerfa, hvaða klónar eru meinvirkir og hlutfallslega áhættu þess að klónar úr dýrum/matvælum flytjist til manna á móti flutningi klóna manna á milli. Ennfremur verður fylgst með mögulegum breytingum á ónæmisprófíl E. coli stofna fyrir og eftir að takmörkunum á innflutningi á fersku kjöti yrði aflétt.
 

Faraldsfræði og sýklalyfjaþol Escherichia coli í dýrum, matvælum, mönnum og umhverfinu á Íslandi, könnuð með heilgenaraðgreiningum (WGS)

Starfslið: Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir.  
Samstarf: Vigdís Tryggvadóttir, Matvælastofnun; Viggó Þór Marteinsson, Matís; Karl G. Kristinsson, Kristján Orri Helgason, Ingibjörg Hilmarsdóttir og Freyja Valsdóttir, Landspítali – Háskólasjúkrahús; Cindy Liu og Lance Price, George Washington University; Bruce Hungate og Benjamin Koch, Northern Arizona University.
Upphaf:    2018. Lok: 2022.

Meginmarkmið rannsóknarinnar eru að kanna stofnfræði/flæði E. coli og plasmíða sem bera sýklalyfjaónæmisgen milli mismunandi vistkerfa, matvæla, dýra, manna og umhverfis með heilgenaraðgreiningum. Kannað verður hvort ákveðnar fjölgenaarfgerðir (MLST) tilheyri hverju vistkerfi fyrir sig. Einnig er vonast til að hægt sé að ákvarða hvort og þá hvaða MLST gerðir/ónæmisgen/plasmíð flytjast á milli þessara mismunandi vistkerfa, hvaða klónar eru meinvirkir og hlutfallslega áhættu þess að klónar úr dýrum/matvælum flytjist til manna á móti flutningi klóna manna á milli. Bera kennsl á mögulega „high-risk“ súnuvaldandi klóna sem berast úr dýrum og/eða matvælum í menn með það að leiðarljósi að þróa mögulegt bóluefni sem væri mögulegt að gefa eldishópum kjúklinga til að koma í veg fyrir flutning þessara stofna í menn.
 

Fósturlát hjá gemlingum

Starfslið: Charlotta Oddsdóttir, Ólöf G. Sigurðardóttir, Eygló Gísladóttir, Guðbjörg Jónsdóttir og starfsfólk sýklafræðideildar á Keldum.
Samstarf: Charlotta Oddsdóttir, Emma Eyþórsdóttir, Eyjólfur Kristinn Örnólfsson,  Landbúnaðarháskóla Íslands; Tilraunabúið að Hesti og aðrir sauðfjárbændur.
Upphaf:    2015. Lok: Óviss.

Lambleysi veturgamalla áa hefur þekkst lengi hér á landi, og hafa sést talsverðar sveiflur milli ára. Áður var talið að vandamálið skýrðist af breytileika í kynþroska og hæfni til að festa fang frá ári til árs. Þegar fósturtalningar með ómsjá hófust hér á landi kom fljótt í ljós að allt að helmingur veturgamalla áa á einstaka búum gengu með dauð fóstur, og skiluðu ekki lambi að vori. Fyrri rannsóknir hér á landi miðuðu að því að kanna hvort búskaparlag og aðstæður, selenskortur eða þekktir sýkingarvaldar væru áhrifavaldar í þessu vandamáli en ekki tókst að greina fylgni milli þessara þátta og fósturláts í gemlingum. Í gögnum sem safnað hefur verið undanfarin ár á Tilraunabúinu að Hesti eru vísbendingar um að þeir gemlingar sem þyngjast hraðar eigi frekar á hætta að missa fóstur.
Verkefnið snerist um að rannsaka fósturlát í íslenskum gemlingum. Lögð hefur verið áhersla á að greina hvenær á meðgöngunni fósturlát verður hjá gripunum. Í þessu samhengi hefur einnig verið fylgst með þyngdaraukningu gemlinganna á mánuðunum fyrir fengitíma og meðan á meðgöngu stendur. Einnig hefur verið gerð krufning og víðtæk meinafræðileg skoðun á gemlingum sem eru við það að láta fóstri, í því skyni að greina almennt heilsufar gripanna og fóstranna.
Á árinu var sermi safnað úr 52 blóðsýnum úr gemlingum frá Tilraunabúinu að Hesti, einnig voru greind 128 veirustroksýni úr gemlingum og lambhrútum á þremur bæjum.  Fyrri áfangar verkefnisins fóru fram á Keldum árin 2016 og 2017, og má sjá samantekt á þeim rannsóknum í skýrslu sem kom út í desember 2018 og birtist á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands (Rit LbhÍ nr. 109 – Lambleysi hjá gemlingum, meinafræðileg greining).
Verkefnið er styrkt af þróunarfé sauðfjárræktarinnar úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins.
 

Hníslar í smákálfum

Starfslið: Charlotta Oddsdóttir, Guðný Rut Pálsdóttir, Matthías Eydal og Karl Skírnisson
Samstarf: Hvanneyrarbúið, Baldur Helgi Benjamínsson og Karen Björg Gestsdóttir.
Upphaf:    2018. Lok: 2020.

Verkefnið snýst um að kanna algengi hníslasmits hjá smákálfum með tilliti til þess hvenær hníslar greinast fyrst hjá þeim og áhrif umhverfisþátta á meðgöngutíma smitsins. Einnig eru hníslar greindir til tegunda og greint hvenær viðkomandi tegundir koma fram í saur kálfanna.
Í Evrópu eru þekktar allt að 12 tegundir hnísla í nautgripum og hafa margar þeirra verið staðfestar í nautgripum hér á landi. Erlendis er hníslasmit algengt hjá kálfum. Kálfarnir taka smitið upp í umhverfi sínu þar sem þolhjúpar hníslanna leynast og lífsferillinn er beinn. Hníslarnir valda ekki alltaf klínískum einkennum strax, heldur liggja í láginni þar til kálfarnir verða fyrir álagi, til dæmis skyndilegum breytingum eins og fóðurbreytingum, flutningi o.þ.h. Klínísk einkenni felast í niðurgangi (vatnskenndum til blóðugum) og vanþrifum. Sumir kálfar geta orðið svo illa úti í þessum veikindum að þeir ná sér ekki á strik og verða aldrei fyrirmyndargripir. Mikilvægt er að átta sig á því hvenær kálfarnir taka upp smitið til þess að beita hníslasóttarlyfjum á réttum tíma, enda er um seinan að meðhöndla kálf sem er kominn með niðurgang af völdum hnísla.
Til að kanna áhrif mismunandi aðbúnaðar var sýnum safnað á þremur kúabúum með mismunandi uppeldisskilyrðum kálfa. Saursýnum var safnað vikulega úr þremur eða fjórum kálfum á hverju býli í allt að þrjá mánuði og heildarfjöldi hnísla í saur metinn. Þeim rannsóknum er lokið og greining á tegundasamsetningunni í völdum sýnum hafin.
Verkefnið er styrkt af þróunarfé nautgriparæktar úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins.
 

Hringormasmit í mönnum

Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Jakob Skov, Faculty of Health and Medical Sciences við Kaupmannahafnarháskóla og Rune Stensvold, Statens Serum Institut í Kaupmannahöfn.
Upphaf:    2004. Lok: Óviss.

Hringormar af ættkvíslunum Pseudoterranova og Anisakis geta lifað um hríð í fólki sem fengið hefur í sig lifandi lirfur þessara tegunda við neyslu á hráum eða vanelduðum fiski og fiskafurðum. Þegar Pseudoterranova ormar sleppa takinu í magaslímhúðinni skríða þeir oftast annað hvort upp í kok eða ganga niður af fólki. Anisakis ormar bora sig aftur á móti oftar út úr meltingarveginum og geta þá valdið alvarlegum einkennum þegar þeir stinga sér í gegn um líffæri í kviðarholi. Hringormar sem náðst hafa úr fólki hér á landi (3. eða 4. stigs lirfur) eru iðulega sendir til greiningar að Keldum. Í undirbúningi er grein þar sem meðal annars er fjallað um hringormasmit í Íslendingum á árabilinu 2004-2018 og er greinin unnin í samvinnu sérfræðinga í Kaupmannahöfn.
 

Hænsnasníkjudýr

Starfslið: Karl Skírnisson og Guðný Rut Pálsdóttir.
Upphaf:    2018. Lok: 2019.

Löng hefð er fyrir hænsnahaldi á íslenskum sveitabæjum og á seinni árum hefur hænsnahald í þéttbýli færst í vöxt, þar sem fólk heldur varphænur við heimili sín. Um og eftir miðja 20. öld voru ýmsar brautryðjandi rannsóknir gerðar á Keldum á sníkjudýrum og sjúkdómum hænsna hér á landi en síðustu áratugina hafa litlar sem engar skipulegar athuganir farið fram. Ákveðið var að taka þráðinn upp að nýju og nýverið var fuglum safnað frá níu stöðum á landinu. Fyrir valinu urðu aðallega gamlir fuglar sem oft voru hættir að verpa eða fuglar sem voru veikir og voru að dragast upp. Fuglarnir voru geymdir í frysti fram að krufningu sem gerð var á haustmánuðum á Keldum. Á árinu var lokið við að greina óværu- og ormasmit í fuglunum en eftir er að skoða einfrumunga í meltingarvegi. Fyrirhugað er að gera grein fyrir niðurstöðunum í sérstakri grein á næsta ári.
 

Lífsferlar og vistfræði fuglaagða

Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Kirill Galaktionov og Anya Gonchar, Dýrafræðistofnun Rússnesku Vísindaakademíunnar, St. Pétursborg, Rússlandi; Damien Jouet, Háskólanum í Reims í Frakklandi; Simona Georgieva, Anna Faltýnková, Jana Roháčová, Hynek Mazanec og Aneta Kostadinova  við Sníkjudýradeild Háskólans í Ceské Budejovice í Tékklandi.
Upphaf:    1998. Lok: Óviss.

Um árabil hafa rannsóknir verið stundaðar á Keldum á sníkjudýrafánu villtra íslenskra fugla. Meðal annars hefur verið unnið að raðgreiningum og útlitsathugunum ögðutegunda (Digenea) sem lifa sem lirfur í fjöru- og sjávarsniglum en á fullorðinsstigi í fjöru- og sjófuglum. Samvinna um þessar rannsóknir hefur verið við sérfræðinga í Rússlandi og Frakklandi og sem stendur vinnur doktorsnemi (AG) í verkefninu. Á árinu var lokið við handrit um tegundina Notocotylus atlanticus og greinin send til birtingar í ritrýnt tímarit.
Á svipaðan hátt hafa ýmsar athuganir verið gerðar á ögðum, sem lifa fullorðnar í andfuglum, máfum, brúsum og goðum, en hafa flókinn lífsferil sem bundinn er við ferskvatn, - tegundir sem lifa á lirfustigi í vatnasniglum, samlokuskeljum, sniglablóðsugum og ýmsum öðrum vatnalífverum. Þar hafa einkum verið til rannsókna ögður af ættkvíslunum Apatemon, Australapatemon, Cotylurus, Diplostomum, Echinostomum, Eechinopharybium, Notocotylus, Plagiorchis og Strigea. Sýnum til þessara rannsókna hefur nú verið safnað árlega um nokkurra ára skeið í þremur vatnakerfum á Reykjavíkursvæðinu en einnig í Mývatni og Áshildarholtsvatni. Hluti þessara rannsókna er unninn fyrir styrk frá Tékkneska Rannsóknarsjóðinum (Trematodes in sub-Arctic lake food webs: development of quantitative diversity baselines and a framework for community ecology research in the Arctic) og lýkur söfnun í verkefninu á næsta ári (2019).
Á árinu héldu Anna Faltýnková og Hynek Mazanec sitt hvort erindið sem bæði byggja á þessum rannsóknum (sjá „Erindi og veggspjöld á alþjóðlegum ráðstefnum“), jafnframt er unnið að ritun vísindagreina um niðurstöðurnar sem þegar hafa fengist en nú styttist í lokauppgjör rannsóknanna. Stutt grein birtist á árinu sem lýsir því hvernig sundfit stokkanda og grágæsa, sem haldið hafa til á vatnasvæðum þar sem jarðhita gætir, rýrna en orsökin er óþekkt (Sjá „Ritrýndar greinar birtar í bókum eða tímaritum“).
Verkefnin hafa notið styrks úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands til margra ára.
 

Meinafræði íslensku rjúpunnar

Starfslið: Ólöf G. Sigurðardóttir, Eygló Gísladóttir og Guðbjörg Jónsdóttir.
Samstarf: Ólafur K. Nielsen og Guðmundur A. Guðmundsson, Náttúrufræðistofnun Íslands; Karl Skírnisson, Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum; Gunnar Stefánsson, Raunvísindastofnun Íslands; Sighvatur Sævar Árnason og Björg Þorleifsdóttir, Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands.
Upphaf:    2006. Lok: 2018.

Söfnun sýna í meinafræðilega rannsókn lauk á árinu 2018.  Úrvinnsla gagna er enn í gangi (sjá fyrri ársskýrslur).  
 

Rannsóknir á blóðögðum og sundmannakláða

Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Damien Jouet, Háskólanum í Reims í Frakklandi; Libuse Kolařová, Háskólanum í Prag í Tékklandi; Simona Georgieva, Anna Faltýnková, og Aneta Kostadinova við Sníkjudýradeild Háskólans í Ceské Budejovice í Tékklandi
Upphaf:    1997. Lok: Óviss.

Áfram var unnið að rannsóknum sem tengjast sundmannakláða en honum valda sundlirfur fuglablóðagða af ættinni Schistosomatidae. Rannsóknirnar hófust árið 1997. Síðan hafa tugþúsundir vatnabobba (einkum Radix balthica) og hundruð fugla (aðallega andfuglar) verið rannsakaðir og ýmsum áður óþekktum tegundum (bæði lirfustigum og fullorðnum Trichobilharzia eða Allobilharzia ormum) verið lýst eða endurlýst fyrir vísindin. Enn er árlega safnað sniglum úr íslenskum vatnakerfum (Mývatni, Áshildarholtsvatni, Hafravatni, Reykjavíkurtjörn og tjörninni í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum). Útlitseinkenni Trichobilharzia tegundanna sem finnast í þessum sniglum eru rannsökuð og ákveðnar basaraðir (D2 og ITS ribosomal DNA, COX1  mitochondrial DNA) raðgreindar. Ritun tveggja greina sem byggja á þessum rannsóknum er hafin, önnur fjallar um tegundina T. physellae.
Þá er hafinn undirbúningur leitar að lirfustigi álftarögðunnar Allobilharzia í sniglum á Írlandi næsta sumar en þessi blóðögðutegund hefur þá sérstöðu að álftir hér á landi fá í sig smitið (sundlirfa sem smýgur í gegn um húðina) á vetrarstöðvunum erlendis þar sem einhver enn óþekktur vatnasnigill (sem ekki þrífst á Íslandi) virðist vera uppspretta smitsins. Fuglar sem aldrei hafa yfirgefið Ísland virðast vera ósmitaðir.
Verkefnið hefur um árabil hlotið styrki úr Rannsóknarsjóði H.Í. og tvisvar hefur það verið stutt af Jules Verne sjóðnum.
 

Rjúpusníkjudýr

Starfslið: Karl Skírnisson og Guðný Rut Pálsdóttir.
Samstarf: Ólafur Karl Nielsen, Náttúrufræðistofnun Íslands; Ólöf G. Sigurðardóttir, Tilraunastöðinni á Keldum og fleiri.
Upphaf: 2006. Lok: Óviss.

Haustin 2006-2017 voru hvert ár 100 rjúpur - 60 ungir og 40 gamlir fuglar - veiddir í rannsóknaskyni fyrstu vikuna í október í Þingeyjarsýslu. Lokið hefur verið við að greina og telja sníkjudýr í þessum efniviði, alls 1209 fuglum. Um 60 manns komu að söfnun, krufningu og úrvinnslu þessa efniviðar á undanförnum 12 árum en verkefnið beindist að víðtækum rannsóknum á heilbrigðisástandi íslenska rjupnastofnsins.
Í nóvember voru hníslar greindir og taldir í 84 rjúpum sem safnað var á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Jafnframt var á árinu lokið við að rannsaka sníkjudýr í og á rjúpum sem safnað var á austurströnd Grænlands (Kulusukk og Skoresbysundi) sem og á Svalbarða. Þá var lokið við að útbúa gagnagrunn þar sem allar niðurstöður heilbrigðisrannsóknana eru aðgengilegar og verður grunnurinn notaður við frekari úrvinnslu, samantektir og greinaskrif. Þegar hafa verið ritaðar 10 ritrýndar greinar á sviði sníkjudýrafræði sem byggja á þessum efniviði, auk þess ein mastersritgerð og ein doktorsritgerð (sjá „Ritrýndar greinar birtar í bókum eða tímaritum“ í ársskýrslum síðustu ára). Fleiri ritrýndar greinar eru í undirbúningi sem ætlað er að birtast á næstu árum.
 

Sníkjudýrarannsóknir á hvítabjörnum

Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Walter Vetter og stúdentar hans við Eiturefnadeild Háskólans í Hohenheim í Þýskalandi.
Upphaf: 2008. Lok: Óviss.

Frá árinu 2008 hafa fimm hvítabirnir synt til Íslands, sá síðasti gekk á land 16. júlí 2016. Í framhaldinu hafa ýmsar rannsóknir verið gerðar á þessum dýrum og fjöldi vísindagreina verið ritaður sem byggir á athugunum á þessum dýrum, samanber ritaskrár í síðustu ársskýrslum. Enn er eftir að taka saman og birta niðurstöður á sníkjudýrarannsóknum sem gerðar hafa verið á þessum hvítabjörnum en þar eru nokkrar tegundir á ferðinni, þeirra á meðal norðurhjaratríkínan Trichinella nativa. Ætlunin er að ljúka því verki á næsta ári.
 

Sníkjudýrarannsóknir á þvottabirni staðfesta villtan uppruna vestanhafs

Starfslið: Karl Skírnisson.
Upphaf: 2018. Lok: 2019.

Náttúruleg heimkynni þvottabjarna, Procyon lotor, eru í Bandaríkjum Norður-Ameríku en hann er líka að finna í Evrópu eftir að tegundin var flutt þangað til eldis á loðdýrabúum. Þar sluppu þeir og urðu villtir. Í mars 2018 var þvottabjörn, ung, ókynþroska birna, felld í fjörukambi rétt hjá Höfnum á Reykjanesi. Rannsókn leiddi í ljós 10 tegundir sníkjudýra og tegundasamsetningin sýndi að dýrið var upprunnið vestanhafs, í því fundust tegundir sem ekki lifa í þvottabjörnum í Evrópu. Ennfremur að þar var ekki gæludýr á ferðinni þar sem sníkjudýr með flókna lífsferla vestanhafs fundust. Birnan hafði lifað villt í fjöru hér á landi um hríð áður en hún var felld, það sýndu fullþroskaðar sníkjudýrategundir sem hún hafði fengið í sig nokkru áður við að bryðja fjörusnigla og éta fisk og krabbadýr sem innihalda lirfustig sníkjudýra sem ekki lifa vestanhafs. Talið er að birnan hafi borist flugleiðis til landsins, væntanlega eftir að hafa falið sig innan um vörur á vörubretti. Bent er á að flutningavélar eru reglulega affermdar í einungis 8 km fjarlægð frá staðnum þar sem dýrið náðist. Þokkalegt ásigkomulag dýrsins benti ekki til þess að dýrið hafi borist til landsins innilokað í gámi. Ætlunin er að rekja þessa sögu nánar í stuttri grein.
 

Sýklalyfjaónæmi hjá minkum (Antibiotic resistance in Danish and Icelandic minks)

Starfslið: Kristín Björg Guðmundsdóttir og Ólöf G. Sigurðardóttir.
Samstarf: Nanett Kvist Nikolaisen, doktorsnemi við Danska tækniháskólann.
Upphaf: 2017. Lok: 2019.

Markmið doktorsverkefnis Nanett er að kanna sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi í sjúkdómsvaldandi bakteríum hjá minkum með það fyrir augum að skrifa almennar meðhöndlunarleiðbeiningar. Íslensk minkabú eru með í rannsókninni þar sem sýklalyfjanotkun hér á landi er mjög lítil.
Árið 2018 voru 80 minkar krufðir á Keldum og sýni tekin úr þeim í sýklaræktun (sjá Kafla IV, 4). Nánari greining á bakteríunum og á sýklalyfjanæmi er framkvæmd í Danmörku.
 

Vöðvasullur í sauðfé og vöðvasullsbandormur í lokahýslum

Starfslið: Matthías Eydal, Ólöf Sigurðardóttir og starfsfólk á bakteríu-, sníkjudýra- og meinafræðisviði á Keldum.
Samstarf: Matvælastofnun, dýralæknar og bændur.
Upphaf: 2014. Lok: Óviss.

Vöðvasullur, Taenia (Cysticercus) ovis, greindist fyrst hér á landi í sauðfé haustið 1983 og fannst í fé frá a.m.k. 40 bæjum á árabilinu 1983-1985 eins og greint var frá í greinum sem birtust í tímaritinu Frey: Sigurður H. Richter o.fl., 1984 og 1987. Árin 1986 – 2001 greindust vöðvasullstilfelli af og til í sauðfé en engin á árunum 2002 – 2013. Vöðvasullur hefur verið að greinast í sauðfé á ný á árablinu 2014 – 2018, flest tilfelli greindust á árinu 2018, eða í sláturfé frá alls 16 bæjum.
Sýni úr sláturlömbum/sláturfé eru send sérfræðingum á Tilraunastöðinni að Keldum til staðfestingar á greiningu. Markmið verkefnisins er að halda skrá yfir öll staðfest vöðvasullstilfelli, og að safna m.a. upplýsingum um einkenni, form og byggingu vöðvasulla í vefjasýnum. Ennfremur að leita sérstaklega að vöðvasullsbandorminum sjálfum, eða eggjum hans í saur, í lokahýslum vöðvasullsins, hundum og villtum refum.
Leit hefur farið fram að bandorminum í hundum frá nokkrum bæjum þar sem sullurinn hefur greinst í fé, og ennfremur hefur verið safnað sýnum úr villtum refum til rannsóknar. Bandormurinn hefur greinst í saur þriggja hunda (2015, 2016 og 2017), og er það í fyrsta sinn sem hann er staðfestur í lokahýsli hér á landi. Verið er að skoða fleiri saursýni sem safnað hefur verið úr hundum víðsvegar að af landinu. Bandormurinn hefur ekki enn fundist í refum. Þá eru tiltæk gögn frá fyrri áratugum þar sem skráðar hafa verið ýmsar athuganir og lýsingar á vöðvasullum ásamt upplýsingum sem varða leit að vöðvasullsbandormum í hundum og refum, sem skoða á nánar.
 

Öndunarfærasjúkdómar í íslensku sauðfé - algengi og orsakir

Starfslið: Charlotta Oddsdóttir, Ólöf G. Sigurðardóttir, Sigríður Hjartardóttir og Vala Friðriksdóttir.
Samstarf: Sigrún Bjarnadóttir, Matvælastofnun; Anna Karen Sigurðardóttir og Guðríður Þórarinsdóttir, sjálfstætt starfandi dýralæknar.
Upphaf: 2017. Lok: 2019.

Hósti í fé, og þá einkum haustlömbum og ásetningslömbum, er þekkt vandamál á Íslandi.  Umfang og orsakir hósta hafa þó ekki verið skráð skipulega og ekki eru til yfirgripsmikil gögn sem nota má til þess að leggja mat á vandann.  Telja má víst að vandamálið sé alvarlegra á sumum búum en öðrum og þar þurfi að grípa til aðgerða gegn öndunarfærasjúkdómum.  Til þess að geta unnið markvisst að slíkum aðgerðum þarf að kortleggja vandann og greina hvaða sýkingarvaldar og áhættuþættir koma fyrir á hverju búi fyrir sig.
Markmið verkefnisins var að kortleggja og greina frekar orsakir öndunarfærasjúkdóma hjá haustlömbum, afla upplýsinga og öðlast yfirsýn yfir fjölda búa þar sem öndunarfærasjúkdómar valda búsifjum og greina ástæður öndunarfæraeinkenna hjá sauðfé.
Fyrri hluti verkefnisins fólst í upplýsingaöflun hjá sauðfjárbændum í gegnum útsenda spurningalista vorið 2017. Seinni hluti verkefnisins var skoðun á lungum lamba í sláturhúsum haustið 2017, þar sem breytingar voru skráðar og kvarðaðar. Einnig voru nokkur lungnasýni tekin í Mycoplasma ræktun til staðfestingar á kregðusýkingu.
Búið er að taka saman niðurstöðurnar og unnið er að skýrslu sem verður tilbúin fyrri hluta ársins 2019.
Verkefnið er styrkt af þróunarfé sauðfjárræktar úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is