Háskóli Íslands

Rannsóknir á sjúkdómum, sníkjudýrum og ónæmisfræði fiska - texti úr ársskýrslu Keldna

Fjölbreytileiki smásærra sníkjudýra í fiskum og hryggleysingjum í ferskvatni og sjó í Norður Evrópu, SA Asíu og í Karíbahafi

Starfslið: Árni Kristmundsson og Fjóla Rut Svavarsdóttir.
Samstarf: Mark A. Freeman, Ross University, School of Veterinary Medicine, Basseterre, St. Kitts, West Indies; Egill Karlsbakk, Institute of Marine Research, Bergen Noregi; Patrick Keeling, University of British Columbia, Vancouver Kanada; David Bass, CEFAS, Weymouth Bretlandi.
Upphaf:     2012.     Lok: Óviss.

Rannsóknirnar miða að því að rannsaka ýmsar tegundir fiska og skelfiska m.t.t. smásærra sníkjudýra. Verkefnið lýtur að því að finna áður óþekktar tegundir, lýsa þeim og greina erfðafræðilega flokkunar/þróunarfræði þeirra.
Fjölmargar tegundir fiska og hryggleysingja úr ferskvatni og sjó hafa verið rannsakaðar frá mismunandi svæðum í Norður Evrópu, SA-Asíu og í Karíbahafinu.
Nokkrir tugir smásærra sníkjudýrtegunda hafa greinst sem ekki hefur áður verið lýst. Verkefnið hefur þegar skilað átta ritrýndum greinum, þar af einni á síðastliðnu ári. Unnið er að skrifum nokkurra til viðbótar.
Verkefnið hefur m.a. notið fjárhagslegs stuðnings frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Ross University School of Veterinary Medicine og University of Malaya, Malasíu (UMRG og RU styrkja).
 

Mat á áhrifum D-Fish Aqua til hindrunar á bíófilmu

Starfslið: Sigríður Hjartardóttir verkefnisstjóri og Árni Kristmundsson.
Samstarf: Ívar Örn Árnason, D-TECH ehf.
Upphaf:    2017.    Lok: 2018.

Bíófilma í eldisútbúnaði, m.a. eldiskerjum, er samlífsform örvera sem sjúkdómsvaldandi örverur geta verið hluti af. Það tekur bíófilmu ekki langan tíma að myndast í fiskeldi ef aðstæður eru hentugar. Eftir að smit hefur borist í eldið þarf að hreinsa burt bíófilmuna til að mögulegt sé að sótthreinsa allan útbúnað. Bíófilma í fiskeldi, svo framalega sem hún innihaldi ekki sjúkdómsvalda, er í eðli sínu ekki neikvæð þar sem hún er lífkerfi sem er verndandi gegn umhverfisáhrifum eins og skorti á næringarefnum auk þess sem hún skapar náttúrulegra búsvæði en til dæmis hrein og slétt eldiskerin geta boðið upp á. Sjúkdómsvaldar sem hluti af bíófilmu eru aftur á móti ósækilegir og þá þarf að hreinsa hana af eða tefja fyrir myndun hennar til að minnka smitmagn í umferð.
D-Tech ehf. er íslenskt fyrirtæki sem framleiðir efnið D-FISH Aqua sem notað er til að húða eldisker í upphafi eldis. Efnið er umhverfisvænt og sótthreinsandi og er talið veita langtímavörn gegn örveruvexti og uppsöfnun lífrænna leifa á þeim flötum sem efnið er borið á. Efnið má nota á hrognabakka, eldisker og áhöld. Reikna má með að með notkun efnisins megi draga verulega úr notkun, og þar af leiðandi mengunaráhrifum, baðefna eins og formalíns. Minni notkun baðefna stuðlar að minni meðhöndlun fiska og með notkun D-FISH Aqua má reikna með talsverðum vinnusparnaði við þrif.
Verkefnið byggir á því að rannsaka hversu vel sjúkdómsvaldandi örverur í laxfiskaeldi, mynda bíófilmu á yfirborði með og án D-FISH Aqua. Bakteríur og sveppir eru ræktaðir upp í ræktunaræti í sólarhring. Rækt er komið fyrir í 96 holu bökkum úr Polystyrene plastefni með og án D-FISH Aqua. Ræktað er í 3, 6 og 16 daga við 16°C og vöxtur mældur með ljósgleypni við 600 nm. Rætirnar eru síðan skolaðar burt og bíófilman í holunum lituð með Crystal violet lit og losuð af með ethanóli. Magn bíófilmu í hverri holu er metið með ljósgleypni við 600nm. Síðan er skoðað hvort og hversu mikið þær örverur sem mynda bíófilmu á polysterine plastefni með D-Fish Aqua myndi bíófilmu á annars konar yfirborði einnig með D-Fish Aqua. Þá er reynt að líkja eftir þeim efnum sem eldisker eru almennt framleidd úr þ.e.a.s. trefjaplasti, gúmmídúk, málaðri steypu eða járni. Í þeim tilfellum er bíófilman metin með talningu bakteríuþyrpinga á skálum eftir ræktun.
Niðurstöðurnar eru þær að mikill munur er á áhrifum D-Fish Aqua á bakteríurnar sem unnið var með í rannsókninni. Í sumum tilfellum virðast þær jafnvel nærast á efninu en í í öðrum tilfellum er það vaxtarhindrandi. Bíófilmumyndun var ekki alltaf í samræmi við vöxt. Þó örverurnar vaxi vel þá mynduðu þær ekki alltaf bíófilmu.
Þegar skoðuð er bíófilmumyndun á mismunandi efnisbútum með D-Fish Aqua kemur í ljós að minnst bíófilma myndast á stáli en mest á gleri en þennan lið rannsóknarinnar hefði þurft að endurtaka til að fá marktækari niðurstöður.
Niðurstöðurnar ollu nokkrum vonbrigðum þar sem ekki er hægt að sjá að efnið D-Fish Aqua geti haft afgerandi áhrif til minnkunar á bíófilmu í eldiskerjum þar sem áhrif á mismunandi gerðir baktería eru mjög ólík. Þessi uppsetning tilraunarinnar endurspeglar að vísu ekki raunveruleikann þar sem bíófilmur eru sambland mismunandi efna og örvera. Ekki er þó hægt að mæla með notkun efnisins í fiskeldi.
 

Meinafræði, faraldsfræði og þróunarfræði sníkjudýra af fylkingu “Apicomplexa” í stofnum hörpuskelja í Norður Atlantshafi og Kyrrahafi

Starfslið: Árni Kristmundsson.
Samstarf: Mark Freeman, Ross University, School of Veterinary Medicine, Basseterre, St. Kitts, West Indies, Jónas P. Jónasson, Hafrannsóknastofnun; Susan Inglis, University of Massachusetts-Dartmouth, USA; Jayde Ferguson, Alaska Department of Fish & Game, Anchorage, Alaska, USA.
Upphaf:     2002.    Lok: Óviss.

Mikil afföll voru í íslenska hörpuskeljastofninum við Ísland árin 1999-2006 og náði stofnvísitalan sögulegu lágmarki árið 2008, og var þá aðeins um 13% af meðaltali áranna 1996-2000. Afföllin voru bundin við eldri skeljar (veiðistofn) og sýna rannsóknir að sníkjudýrasýkingar eigi þar hvað stærstan þátt. Nýverið kom í ljós að sýkilinn sem valdið hefur skaða í hörpuskelinni er tegundin Merocystis kathae, sem lýst var í nýra beitukóngs um 1930 en upphaflega var talið að smit bærist beint á milli skelja. Beitukóngur þjónar hlutverki lokahýsils en hörpuskelin er millihýsill. Þótt sýkillinn sé afar skaðlegur hörpuskelinni, virðist hann ekki hafa neikvæð áhrif á beitukónginn.  
Auk ofangreindra affalla í stofni íslenskrar hörpuskeljar hafa óeðlileg afföll átt sér stað í skyldum hörpudiskstegundum við Færeyjar, austurströnd Norður-Ameríku og við Alaska. Samhliða þessum afföllum eru sjúkdómseinkenni, sambærileg þeim sem sáust í sjúkum íslenskum hörpuskeljum. Búið er að staðfesta að Merocystis kathae smitar einnig hörpudiskstegundir við Færeyjar, Bretland og austurströnd Bandaríkjanna og benda líkur til þess að það sama eigi við um skeljar frá Alaska.
Síðustu ár hefur verkefnið verið samstarfsverkefni aðila frá Íslandi, St. Kitts, Massachusetts og Alaska. Þær rannsóknir eru fjölþættar og miða að því að kanna áhrif M. kathae á skeljategundir við austurströnd Bandaríkjanna og Kanada, auk tegundarinnar við Alaska. Vegna nýrra uppgötvanna um tveggja hýsla lífsferil sníkjudýrsins, hafa rannsóknir verið útvíkkaðar og áhersla lögð á að kanna smitferil sníkjudýrsins með hliðsjón af samútbreiðslu hörpuskeljategunda og beitukóngs.
Niðurstöður rannsókna úr verkefninu hafa nú þegar verið birtar í fimm greinum í ritrýndum vísindatímaritum. Sjá má frekari upplýsingar um verkefnið í fyrri ársskýrslum Keldna.
Verkefnið er styrkt af Atvinnu- og Nýsköpunarráðuneytinu og University of Massachusetts.
 

Moritella – Geta hrognkelsabakteríur smitað lax?

Starfslið: Þorbjörg Einarsdóttir, Heiða Sigurðardóttir og Þórunn Sóley Björnsdóttir.
Samstarf: Sölvi Sturluson hjá Stofnfiski, Sigurður Örn Jakobsson hjá Eldisstöðinni Ísþóri og Heiðdís Smáradóttir hjá Íslandsbleikju.
Upphaf:     2017.     Lok: 2018.

Hrognkelsi eru í síauknum mæli notuð sem hreinsifiskar, til að verja Atlantshafslax gegn laxalús. Með auknu hrognkelsaeldi hafa komið upp tilfelli vetrarsára af völdum bakteríunnar Moritella viscosa í hrognkelsum. Þetta er sjúkdómur sem veldur töluverðum usla í laxeldi á köldum slóðum, jafnvel þótt laxar séu bólusettir gegn bakteríunni.
Þar sem hrognkelsi eru víða alin í sjókvíum með löxum, vildum við kanna hvort M. viscosa sem einangruð var úr löxum gæti sýkt og valdið sjúkdómi í hrognkelsum. Einnig könnuðum við hvort baktería sem einangruð var úr hrognkelsum gæti sýkt og valdið sjúkdómi í löxum, og hvort bóluefni gegn laxastofni (rútínubólusetning með Alpha ject 5-3 (Pharmac)) veitti vernd gegn hrognkelsastofni M. viscosa.
Í ljós kom að M. viscosa sem einangruð var úr löxum náði ekki að sýkja hrognkelsin. Hins vegar gat M. viscosa úr hrognkelsum hæglega smitað laxa, hvort sem var með baðsmiti, samvist með sýktum hrognkelsum eða með sprautun í kviðarhol.
Bólusetning laxa veitti góða vernd gegn laxastofni M. viscosa, jafnvel þótt bakteríunni væri sprautað í kviðarhol. Hins vegar virtist bólusetningin ekki veita marktæka vernd gegn smiti eða sjúkdómi þegar sýkt var með hrognkelsastofni M. viscosa.
Niðurstöður tilraunarinnar benda til að hætta sé á að hrognkelsi geti smitað lax af M. viscosa í samvist. Til að minnka smithættuna er nauðsynlegt að bólusetja hrognkelsin með viðeigandi stofni M. viscosa áður en þau eru flutt í sjókvíar með löxum.
Verkefnið var styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi.
 

PKD-nýrnasýki í íslensku ferskvatni - útbreiðsla og áhrif á villta stofna laxfiska

Starfslið: Árni Kristmundsson og Fjóla Rut Svavarsdóttir.
Samstarf: Þórólfur Antonsson og Friðþjófur Árnason, Veiðimálastofnun. Mark A. Freeman, Ross University, School of Veterinary Medicine, Basseterre, St. Kitts, West Indies
Upphaf:     2008.     Áætluð lok: Óviss.

PKD-nýrnasýki, eða “Proliferative Kidney Disease”, er alvarlegur sjúkdómur sem herjar á laxfiska í ferskvatni.  Sjúkdómurinn orsakast af smásæju sníkjudýri, Tetracapsuloides bryosalmonae, sem þarfnast tveggja hýsla til að ljúka lífsferli sínum; laxfiska og mosadýra. Sjúkdómurinn hefur lengi verið þekktur erlendis og valdið þar miklu tjóni, bæði í eldisfiski og villtum stofnum. PKD-nýrnasýki er beintengd vatnshita, sem þarf að ná a.m.k. 12°C í nokkurn tíma svo fiskar sýni einkenni sjúkdóms. Sníkjudýrið er þó fært um að ljúka lífsferli sínum við lægri vatnshita og viðhalda smiti í köldu árferði.
Samfara hlýnandi veðurfari hefur sýkin verið vaxandi vandamál í villtum laxfiskastofnum í Evrópu og greinist nú á norðlægari slóðum en áður. Á Íslandi greindist hún fyrst haustið 2008. Á sama tíma hefur bleikjustofnum hnignað víða á Íslandi, einkum í grunnum láglendisvötnum þar sem vatnshiti yfir sumarið getur orðið hár, eða yfir 20°C á hlýjum sólríkum dögum.
Umfangsmiklar rannsóknir á PKD-nýrnasýki hafa verið í gangi undanfarin 10 ár sem miðað hafa að því að kanna útbreiðslu sýkinnar í ferskvatnskerfi Íslands og hvort sýkillinn sé áhrifavaldur í viðgangi laxfiskastofna á Íslandi.
Niðurstöður rannsóknanna sýna að sýkillinn sem veldur PKD-nýrnasýki er útbreiddur í íslensku ferskvatni og líklegt er að sýkin hafi verulega neikvæð áhrif á laxfiskastofna, einkum bleikju, í ákveðnum stöðuvötnum á Íslandi. Unnið er að greinaskrifum en mikið magn upplýsinga liggur nú fyrir.
Framhaldsrannsóknir sem nú eru í gangi miða að því að: (1) Auka skilning á lífsferlum sníkjudýrsins í mismunandi tegundum laxfiska á Íslandi, en ekki hefur reynst unnt að staðfesta að bleikja sé virkur hýsill fyrir sníkjudýrið í Evrópu. (2) Að þróa næmt magnbundið PCR próf til að greina smitefnið í vatnssýnum og fá með því hugmynd um áhrif sýkinnar í viðkomandi stöðuvatni/á, án þess að veiða þurfi fiska. (3) Útbúa spálíkan (fram- og afturvirkt), með notkun umhverfisbreyta (einkum vatnshita) sem gæfi hugmynd um áhrif sýkinnar á fiska í viðkomandi vatnakerfi.
Sjá má frekari upplýsingar í fyrri ársskýrslum.
Verkefnið hefur notið styrkja frá Rannís, Orkuveitu Reykjavíkur, Umhverfisráði Reykjavíkurborgar, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og Fiskræktarsjóði.
 

Ranaveira í hrognkelsum

Starfslið: Sigríður Guðmundsdóttir, Árni Kristmundsson og Heiða Sigurðardóttir. Fjóla Rut Svavarsdóttir var starfsmaður verkefnisins.
Samstarf: EURL (European Union Reference Laboratory for Fish Diseases) í Kaupmannahöfn. Stofnfiskur lagði til hrognkelsaseiði. Verkefnið er styrkt af Umhverfissjóði sjókvíaeldis: U 16 009-16.
Upphaf:    2016.    Lok: 2018.

Hrognkelsarækt hófst hérlendis með stuttum aðdraganda í ársbyrjun 2014. Hvatinn var mikil eftirspurn eftir hrognkelsaseiðum, einkum í Færeyjum, til að nota sem „hreinsifisk“ í laxeldi í sjó. Laxalús er mikill skaðvaldur á sjókvíalaxi í nálægum löndum og vaxandi eftirspurn er eftir hreinsifiski til að éta lúsina af laxinum. Vorið 2015 ræktaðist veira af ættkvíslinni Ranavirus (ætt: Iridoviridae) úr villtum klakfiski sem veiddur var skammt undan Grindavík og aftur 2016 í fiski veiddum undan Reykjanestá og á Breiðafirði (sjá nánar í ársskýrslu 2016). Veiran ræktaðist einnig úr nokkrum sýnum frá sömu slóðum 2017 og virðist því vera all algeng í íslenska hrognkelsastofninum. Sams konar veira hefur ræktast úr hrognkelsum í Færeyjum, Skotlandi og Írlandi. Stofnaður hefur verið samstarfshópur vísindamanna frá þessum löndum, auk Danmerkur, um þekkingaröflun og miðlun upplýsinga og samstarf um rannsóknir á þessari veirusýkingu.  
Samanburður á raðgreiningarniðurstöðum á s.k. MCP geni sýndi afar lítinn mun milli stofna. Hópurinn komst í samband við einn helsta sérfræðing um Ranaveirur, Dr. Tom Waltzek, við Dýralæknadeild Flórídaháskóla, sem bauðst til að heilraðgreina veiruna. Sú vinna mun vera langt komin og niðurstöður verða birtar í grein ásamt þeim niðurstöðum sem þegar liggja fyrir í handriti.
Smittilraunir á Keldum 2018 voru gerðar með styrk frá Umhverfissjóði sjókvíaeldis. Hrognkelsi voru sýkt í kviðarhol (i.p.) með mismunandi styrk veirunnar. Mikill dauði var í mesta styrk en minni í hópum sem fengu færri veirueiningar. Veiran ræktaðist úr öllum affallafiski og úr öllum einstaklingum við lok tilraunar eftir 25 daga, nema þeim sem fengu saltvatn í stað veiru. Umtalsverðar vefjaskemmdir komu fram. Þegar lax var sýktur á sama hátt voru engin afföll, en veira ræktaðist í lok tilraunar úr flestum i.p. sýktum einstaklingum. Vefjaskemmdir sáust ekki. Samvistarfiskur smitaðist ekki.
Smittilraunir fóru fram í Kaupmannahöfn 2018 með styrk frá AquaExel 2020. Unnið var með veirueinangur frá Íslandi, Færeyjum og Írlandi. Baðsmit dugði ekki til að smita hrognkelsi og lax af stærðinni 15 g, en 0,18g hrognkelsi tóku smit skv. ræktunarniðurstöðum, en það varð enginn dauði. Hrognkelsi í samvistarsmitstilraun urðu jákvæð eftir 2 vikur og íslenska og færeyska veirueinangrið sýndu svipaðar niðurstöður en þar varð heldur enginn dauði. Laxaseiði sem fengu írska stofninn i.p. sýndu engan dauða, veira ræktaðist ekki úr vefjasýnum en PCR próf nam erfðaefni veirunnar í þeim.
Af framaskráðu er ljóst að hrognkelsi sem smitast á náttúrulegan hátt (baðsmit eða samvist) virðast þola veiruna vel, en sé henni sprautað i.p. verður mikill dauði og vefjaskemmdir. Laxinn smitaðist ekki í samvist og i.p. sýking reyndist hafa lítil áhrif, svo ólíklegt er að þessi veira geti valdið tjóni í laxi.
 

Rannsóknir á „myxozoa“ sýkingum í álum, Anguilla spp.

Starfslið: Árni Kristmundsson.
Samstarf: Mark A. Freeman, Ross University School of Veterinary Medicine, St. Kitts, Vestur Indíum.
Upphaf:     2017.     Lok: Óviss.

Sníkjudýrið Myxidium giardi (Fylking Myxozoa) hefur lengi verið þekkt en því var fyrst lýst úr nýra Evrópuáls árið 1906. Síðan þá hafa birst fjölmargar greinar um sambærilegar sýkingar í ýmsum líffærum fjölmargra tegunda ferskvatnsála um allan heim. Í flestum tilfellum hafa þessar tegundir verið taldar tilheyra M. giardi; þ.e. að sama tegund sníkjudýrs valdi kerfisbundnum sýkingum í fjölmörgum mismunandi líffærum og tegundum ála.
Markmið þessara rannsókna var að kanna hvort Myxidium sýkingar sem áður hafa greinst í ýmsum líffærum íslenskra ála og taldar vera M. giardi, séu það í raun. eða hvort staðan sé flóknari og fjölbreytileikinn meiri en áður var talið.
Álar voru veiddir í Vífilsstaðavatni, þeir krufðir og sýni úr öllum líffærum þeirra rannsakaðar m.t.t. Myxidium giardi sýkinga. Sýnin voru rannsökuðuð með hefðbundinni smásjárskoðun auk sameindalíffræðilegra aðferða.
Myxidium giardi-líkar tegundir fundust í nýra, tálknum og magaslímu. Undir smásjá, virtust allar tegundirnar formfræðilega eins. Hins vegar reyndist umtalsverður erfðafræðilegur munur í SSU rDNA tegundanna, og samsvörun einungis um 89-93%. Í ljós kom að um þrjár ólíkar tegundir var að ræða, þar sem sérhver þeirra var bundin við ákveðið líffæri. Auk þessa, reyndist þróunarfræðileg staða þessara tegunda ekki falla að núverandi flokkunarfræði og þörf á að mynda nýja ættkvísl, sem fékk nafnið Paramyxidium. Upprunalega tegundin sem greindist í nýra, þ.e. Myxidium giardi, tilheyrir því nú nýrri ættkvísl og kallast Paramyxidium giardi. Hinar tegundirnar fengu nöfnin P. magi (í magaslímu) og P. branchialis (í tálknum).
Búið er að birta niðurstöður þessara rannsókna í ritrýndu vísindatímariti. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum má ætla að tegundir sem finnast í mismundandi tegundum ála víðs vegar um heim, og hafa verið taldar M. giardi, séu í raun mun fjölbreytilegri hópur.
 

Rannsókn á ónæmissvari bleikju gegn tveimur bakteríum

Starfslið: Birkir Þór Bragason, Samúel Casás Casal og Sigríður Guðmundsdóttir.
Samstarf: Jón Kjartan Jónsson, Íslandsbleikja.
Upphaf:    2017.     Lok: 2019.

Eldi í bleikju hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum, frá 977 tonnum árið 2005 til 4.454 tonna árið 2017. Ein af undirstöðum farsæls fiskeldis er þekking á eðli sjúkdóma sem komið geta upp, og aðferðum til að greina og meta sjúkdómsvalda og sporna við sýkingum.
Sýkingar af völdum kýlaveikibróðurbakteríunnar Aeromonas salmonicida undirtegund achromogenes og nýrnaveikibakteríunnar Renibacterium salmoninarum hafa valdið búsifjum í bleikju- og laxeldi í gegnum árin. Bólusetning hefur verið notuð gegn kýlaveikibróðurbakteríunni í bleikju, en sýkingar koma upp endrum og sinnum þrátt fyrir bólusetningu. Gegn nýrnaveiki er ekki til bóluefni og þar er helsta vörnin almennar smitvarnir.
Markmið þessarar rannsóknar er að framkvæma kerfisbundna athugun á ónæmissvari bleikju gegn ofangreindum bakteríum yfir langt tímabil. Svörun ónæmiskerfisins er metin út frá genatjáningu ónæmisgena.
Á árinu var framkvæmd sýkingartilraun með nýrnaveikibakteríunni. Bleikjuseiði (meðalþyngd 11 grömm) voru sprautuð kviðlægt með þremur mismunandi styrkleikum af bakteríu, þ.e. 3.5x105 cfu, 3.5x104 cfu og 3.5x103 cfu (e. colony forming units). Viðmið voru sprautuð með saltdúa. Sýni (lifur, milta og nýra) voru tekin reglulega úr sýktum fiski og viðmiðum yfir 70 daga tímabil.  Bakterían hafði lítil áhrif á fiskinn sem var sprautaður, og var enginn dauði. Væg meingerð greindist við sýnatöku í nokkrum fiskum sem sprautaðir voru með hæsta styrk bakteríunnar.
Einangrað var RNA úr lifur, milta og nýra þeirra fiska sem sprautaðir voru með hæsta styrk bakteríunnar. Einnig var einangrað DNA úr nýrum. Settar voru upp rauntíma-PCR mæliaðferðir fyrir viðmiðsgen (ACTB, IF5A1, RRL36 og UB2L3) og markgen (IL1, IL8, hepcidin, transferrin, CRP1, TGF, NADPH og IL4/13).
Mælingar á genatjáningu með rauntíma PCR sýndi litlar breytingar á tjáningu markgenanna yfir tilraunatímann, og var það í samræmi við afar væga meingerð. Þó var marktæk aukning á tjáningu IL1, IL8 og hepcidíns á degi 28 í milta og nýra sýktra fiska og og marktæk aukning í tjáningu TGF og NADPH á degi 35 í lifur sýktra fiska, sem gefur til kynna væga og hæga sýkingu. PCR greining á DNA R. salmoninarum sýndi að bakteríu DNA var til staðar í öllum sýktum fiskum út tilraunatímann. Greining á mRNA bakteríunnar gaf á sama hátt til kynna að lifandi baktería var til staðar í sýkta fiskinum út tilraunatímann.
Niðurstöðurnar sem komnar eru benda renna stoðum undir það að bleikja sé þolinn gegn nýrnaveikibakteríunni og að bakteríunni takist að fela sig fyrir ónæmiskerfi hennar sbr. litla ræsingu kerfisins í kjölfar sýkingarinnar.
Verkefnið er styrkt af AVS.
 

Rannsóknir á ónæmiskerfi þorsks í bráðasvari

Starfslið: Birkir Þór Bragason og Sigríður Guðmundsdóttir.
Samstarf: Caterina Faggio, prófessor við líffræðideild háskólans í Messina á Sikiley. Starfsfólk á Þekkingarsetrinu í Sandgerði.
Upphaf:    2005.    Lok: Óviss.

Í verkefninu, sem Bergljót Magnadóttir setti á fót og stjórnaði til 2012, hefur verið unnið að rannsóknum á bráðasvari í þorski. Undanfarin ár hefur verið unnið að rannsóknum á bráðasvari gagnvart bakteríusýkingu. Heilbrigð þorskseiði voru sýkt í vöðva með kýlaveikibróðurbakteríu (Aeromonas salmonicida spp. achromogenes) og samanburðarhópur var sprautaður með saltdúa. Blóð- og vefjasýni voru tekin með reglulegu millibili yfir vikutíma og þannig útbúið stórt sýnasafn. Verkefnið var hluti af Laurea magistrale ritgerð (samsvarar M.Sc.) Antonella Fazio við háskólann í Messína á Sikiley. Antonella útskrifaðist haustið 2014. Verið er að leggja lokahönd á handrit um niðurstöður verkefnisins. Áætlað er að sýnasafnið sem orðið hefur til við þessa vinnu nýtist við frekari verkefni í framtíðinni.
Verkefnið hefur verið styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og ERASMUS áætlun Evrópusambandsins.
 

Rannsóknir á uppsprettu og áhrifum nýrnaveikismits í eldisstöðvum á Vestfjörðum

Starfslið:     Árni Kristmundsson, Birkir Þór Bragason, Snorri Már Stefánsson, og Sigríður Guðmundsdóttir.
Samstarf:     Guðni Guðbergsson, Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatns; Bernharð Laxdal, Fish Vet group, Ísland.
Upphaf:     2018.    Lok: 2020.

Nýrnaveiki (BKD - Bacterial Kidney Disease) sem orsakast af bakteríunni Renibacterium salmoninarum, er án efa sá sjúkdómur sem valdið hefur hvað mestu tjóni síðustu áratugina hér á landi; einkum í eldisfiski en einnig í fiskirækt. Sjúkdómurinn hefur verið þekktur á Íslandi frá árinu 1968; þróun hans er jafnan hæg en smit án sjúkdómseinkenna getur breyst í alvarlega sýkingu fyrir áhrif óhagstæðra umhverfisþátta, breytinga á hormónajafnvægi (göngubúningsmyndun, kynþroski) og mismunandi erfðaeiginleika. Nýrnaveikibakterían hefur ákveðna sérstöðu meðal sjúkdómsvalda á fiski hérlendis sem helgast af að hún getur bæði smitast milli fiska en einnig milli kynslóða með hrognum. Auk þessa, eru engin virk bóluefni tiltæk og sýklalyf ná ekki að vinna á sýkingum. Nýrnaveikibakterían er landlæg í villtum laxa- og silungastofnum á Íslandi. Smit er þó jafnan vægt og ekki hafa komið upp sjúkdómsfaraldrar í náttúrulegu umhverfi hér á landi svo vitað sé.
Meginmarkmið verkefnisins er að rekja uppruna nýrnaveikismits +i seiðastöðvum á Vestfjörðum og kanna möguleg áhrif þess á villta laxfiska í nærliggjandi vatnakerfum. Auk þess að kanna hvort svæðisbundinn, erfðabundinn stofnamunur sé milli bakteríunnar innan Íslands og/eða milli íslenskra og erlendra stofna. Til að ná markmiði verkefnisins er eftirfarandi rannsakað: (1) Staða nýrnaveikismits í fiskum í lækjum sem tengjast vatnstöku eldisstöðva, (2) smitmagn í vatni: (i) sem fer inn í eldisstöð, (ii) inni í stöð – virkni UV geislunar (þar sem hún er til staðar), (iii) í affallsvatni frá eldistöðvum, (3) staða nýrnaveikismits í seiðum í eldisstöð.
Verkefnið, sem er viðfangsefni Snorra Más Stefánssonar til meistaraprófs, er skammt á veg komið. Sýnum var safnað síðastliðið sumar og þau unnin í framhaldinu. Fyrstu niðurstöður benda til þess að nýrnaveikibakterían sé algeng í fiskum lækja sem eldisstöðvar taka vatn úr og því líkleg uppspretta þess smits sem herjað hefur á stöðvarnar. Rétt er þó að geta þess að sumar seiðastöðvarnar hafa nú komið sér upp UV-geislun á inntaksvatni í þeim tilgagni að koma í veg fyrir að smit berist inn í stöð með þessum hætti.
Framundan eru frekari rannsóknir næstkomandi sumar. Verkefnið er styrkt af Umhverfissjóði Sjókvíaeldis.
 

Sníkjudýra- og sveppasýkingar í hrognkelsum sem nýtt eru sem hreinsifiskar í sjókvíaeldi á laxi

Starfslið: Árni Kristmundsson.
Samstarf: Mark A. Freeman, Kelsey Johnson, Ross University School of Veterinary Medicine, St. Kitts, Vestur Indíum; Bernharð Laxdal, Fish Vet group, Ísland; Haakon Hansen, Marta Alarcón, Norwegian Veterinary Institute, Osló Noregi.  
Upphaf:     2014.    Lok: Óviss.

Hrognkelsi eru nýtt í vaxandi mæli, bæði erlendis og hérlendis, sem hreinsifiskar í baráttunni gegn lúsasmiti á laxi í sjókvíaeldi. Þekking á sjúkdómum sem herja á þessa hreinsifiska er mikilvæg, bæði með tilliti til dýravelferðar og fjárhagslegra hagsmuna. Samlífi hrognkelsa og laxa býður og upp á þá hættu að smit berist frá hrognkelsunum yfir í laxinn, sem skapar verðmætin í eldinu.
Verkefnið miðar að því að greina sníkjudýr og sveppi sem finnast í hrognkelsunum, rannsaka áhrif þeirra á hrognkelsin sjálf og hvort þau geti mögulega smitað lax og valdið þeim tjóni.
Allmargar tegundir hafa nú þegar greinst; flestar þeirra virðast bundnar við hrognkelsin og engin merki um að þau berist í lax. Eftirtaldar tegundir hafa fundist: (1) Nucleospora cyclopteri (nýrri tegund lýst), sveppa-líkt sníkjudýr (Microsporidia) sýkir kjarna hvítra blóðfrumna og veldur svæsnum stórsæjum sjúkdómseinkennum, einkum í nýra. Sýkingar eru algengar í villtum klakhrognkelsum og líklegar til að valda hýsli sínum tjóni, en hafa ekki verið vandamál í seiðaeldi. Sýkir að líkindum einungis hrognkelsi. (2) Kudoa islandica (nýrri tegund lýst), smásætt sníkjudýr af fylkingu Myxozoa. Sýkir vöðva; virðist ekki valdi fiskinum tjóni en leysir upp fiskholdið eftir að hrognkelsin drepast. Hefur ekki greinst í laxi. (3) Cryptobia dahli, svipudýr sem er algengt í maga, bæði í klakhrognkelsum og seiðum. Er ekki eiginlegt sníkjudýr; frekar er um samlífi að ræða. (4) Eimerid-sníkjudýr (ónefnd tegund Apicomplexa); Algengt í villtum klakhrognkelsum og hefur valdið afföllum í hrognkelsaseiðum í sjókvíum. Sýkir þekjufrumur meltingarvegar og getur valdið þar svæsnum skemmdum. Hefur ekki greinst í laxi. (5) Exophiala psycrophila og Cyphellophora sp. Sveppategundir sem eru algengar í umhverfinu, en einnig tækifærissýklar sem eiga það til að smita fiska, s.s. hrognkelsi. Sýkingar verða stundum mjög svæsnar, blóðsýking verður og öll líffæri verða undirlögð af smiti.
Búið er að birta sex ritrýndar vísindagreinar úr verkefninu sem eru aðgengilegar á veraldarvefnum.
 

Uppruni og ástæður Ichthyophonus hoferi faraldurs í íslenskri sumargotssíld

Starfslið: Árni Kristmundsson, Hrólfur Smári Pétursson, Birkir Þór Bragason, Fjóla Rut Svavarsdóttir, Heiða Sigurðardóttir og Sigríður Guðmundsdóttir.
Samstarf: Guðmundur Óskarsson, Hafrannsóknastofnun.
Upphaf:     2016.     Lok: 2019.

Ichthyophonus hoferi er sveppa-líkt einfruma sníkjudýr sem lengi vel flokkaðist til sveppa. Sníkjudýrið er afar ósérhæft hvað varðar hýsil en síld er talin sérlega næm fyrir þessum sýkingum. Ichthyophonus hoferi sýkingar eru landlægar við Ísland. Á árunum 1991-2000 greindist u.þ.b. 0,1% síldar við Ísland með stórsæ sjúkdómseinkenni Ichthyophonus sýkinga. Árið 2008 blossaði upp Ichthyophonus faraldur í íslensku sumargotsíldinni sem varir enn. Samkvæmt rannsóknum Hafrannsóknastofnunar gætti sýkinga einkum í eldri árgöngum og reyndist tíðni sýnilegra sýkinga allt að 70% árin 2008-2011. Þar sem afföll samhliða svæsnum sýkingum eru talin há, er ljóst að faraldurinn hefur valdið verulegum skaða á síldarstofninum. Þrátt fyrir umtalsverðar rannsóknir hefur gengið erfiðlega að greina orsakir þess að faraldrar sem þessir komi upp. Það á einnig við í tilfelli faraldursins við Ísland sem virðist hafa verið skyndilegur. Hvað veldur því að tíðni sýkinga fer úr því að vera um 0,1% á 10. áratugnum yfir í 30-70% tæplega 10 árum síðar, er því ennþá ráðgáta. Þessi faraldur hefur staðið yfir óvenju lengi miðað við það sem áður er þekkt, eða í u.þ.b. 10 ár.
Meginmarkmið verkefnisins er tvíþætt: (1) að rannsaka uppruna, smitleiðir og þroskaferil Ichthyophonus sýkinga sem valdið hafa faraldri í íslensku sumargotssíldinni og (2) að rannsaka hvort í síldinni reynist veirusýkingar sem gætu haft áhrif á mögnun Icthyophonus sýkinganna.
Síld úr bæði yngri og eldri árgöngum hefur verið safnað og sýni tekin úr þeim til mismunandi rannsókna, bæði m.t.t. Ichthyophonus- og veirusýkinga. Auk þessa, hefur átu-sýnum verið safnað, þ.e. mörgum mismunandi tegundum sviflægra krabbadýra. Sýnin hafa verið rannsökuð með vefjameinafræðilegum og sameindafræðilegum aðferðum og að auki með „in situ hybridization“ (þáttapörun) þar sem erfðaefni sýkils er litað í vefjasneiðum.
Niðurstöður sýna að undirliggjandi, einkennalausar, sýkingar eru algengar í yngri árgöngum síldar. Áður var talið að þessir einkennalausu yngri fiskar væru smitfríir. Ichthyophonus sýkingar eru einnig algengar í átu/fæðu síldarinnar. Þar sem margar og óskyldar tegundir sviflægra krabbadýra greinast smitaðar virðist sem sýkingarnar séu ekki tegundasértækar. Líklegast er því að átan sé einungis smitberi, fremur en að í henni fari fram einhver þroskun sníkjudýrsins. Fæðuborið smit er  því nokkuð augljóslega algengt en líklegt er að beint smit milli sílda eigi sér einnig stað að einhverju marki.
Vefjameinafræðilegar rannsóknir sýndu umfangsmiklar vefjaskemmdir. Margar þeirra mátti heimfæra á Ichthyophonus hoferi sýkingar. Hins vegar greindust einnig vefjabreytingar sem ekki var hægt að heimfæra á slíkar sýkingar. Þessar breytingar gáfu fremur til kynna að um veirusmit væri að ræða, þar sem samfara vefjaskemmdum sáust „inklúsjónir“ innan í hýsilfrumum, einkum rauðum blóðkornum. Þrátt fyrir að búið sé að skima fyrir veirum, bæði með frumurækt og sértækum PCR prófum (t.d. veirur af tegundum VHSV, VEN og PRV), hafa engar veirur greinst enn sem komið er. Það kann að stafa af því að um áður óþekkt veiruafbrigði sé að ræða sem ekki ræktast í þeim frumulínum sem notaðar voru, auk þess sem engin sértæk PCR greiningapróf eru til staðar fyrir slíkar veirur. Það er því ekki að fullu útséð hvort veirur spili einhvern þátt í faraldrinum. Sjá má frekari upplýsingar um verkefnið í ársskýrslu Keldna 2017.
Hluti þessa verkefnis er viðfangsefni M.Sc. náms Hrólfs Smára Péturssonar. Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi og Síldarsjóði.
 

Veiruskimun í kvíalaxi og villtum laxi til fiskræktar

Starfslið: Sigríður Guðmundsdóttir verkefnisstjóri, Heiða Sigurðardóttir meðumsækjandi og Harpa Mjöll Gunnarsdóttir starfsmaður verkefnisins. Auk þeirra komu Þórunn S. Björnsdóttir, Sabrina Natale, Þorbjörg Einarsdóttir og Birkir Þór Bragason að hluta verkefnisins á síðari stigum þess.
Samstarf: Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma, MAST, sérfræðingar á ferskvatnslífríkissviði Hafrannsóknastofnunar – rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna og starfsmenn nokkurra seiðaeldistöðva og sjókvíaeldisstöðva. Verkefnið var styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi, styrknr: R 15 017-15.
Nemi: Harpa Mjöll Gunnarsdóttir nemi í lífeindafræði lauk diplomaverkefni innan verkefnisins vorið 2016. Hún hóf vinnu að MS verkefni síðari hluta ársins og útskrifaðist vorið 2017. Auk Sigríðar og Heiðu var Birkir Þór Bragason í MS-nefndinni.
Upphaf:    2015. Lok: 2018.

Markmið verkefnisins var að afla þekkingar á þremur veirum, PRV, PMCV og ISAV, sem allar geta valdið hjartasjúkdómum í laxi. Verkefnið skiptist í tvo meginþætti:
1) Prófun aðferða til að undirbúa sýni úr safni Keldna og úr AVS-smáverkefni 2013-2014 fyrir raðgreiningu á ómeinvirku afbrigði ISAV veirunnar (ISAV-HPR0).
2) Skimun eftir PRV, PMCV og ISAV í völdum hópum laxa úr fiskrækt, eldi, hafbeit og villtri náttúru. Raðgreiningar á hluta efniviðar voru notaðar til að afla frekari þekkingar. Niðurstöður hafa verið kynntar í skýrslum og á fundum og ráðstefnum innan lands og utan.

Raðgreining HPR0 stofna
Blóðþorri (infectious salmon anaemia eða ISA) er tilkynningaskyldur veirusjúkómur sem herjar á Atlantshafslax (Salmo salar L.). Faraldrar af meinvirkum stofnum veirunnar (ISAV-HPRvir) hafa komið upp í löndum allt í kringum Ísland, en aldrei greinst hérlendis. Ómeinvirkt afbrigði ISAV veirunnar (ISAV-HPR0) greindist hérlendis í 0,63% af 17.778 sýnum úr eldislaxi sem skimuð voru á árunum 2011-2015. Þessi efniviður var nýttur í verkefninu til að kanna gæði raðgreininga á sýnum sem voru undirbúin með mismunandi hætti. cDNA hreinsun RT-PCR afurða og gelbúta úr rafdrætti nægði oftast til að skila nothæfum raðgreiningar niðurstöðum, sem getur stytt ferlið um a.m.k. 3 daga sé miðað við aðferðir þar sem TOPO-klónun er hluti ferilsins. Raðgreiningar á breytilegu svæði genabútar nr.6 sýndu ekki breytileika milli íslensku stofnanna, en lítils háttar breytileiki kom fram þegar hluti úr genabút nr.5 var raðgreindur. Samanburður við raðir úr HPR0 og HPRvir stofnum frá Noregi, Færeyjum, Skotlandi og Kanada sýndi mestan skyldleika við HPR0 stofna frá Færeyjum og Noregi. Þessi þekking er undirstaða frekari rannsókna og áhættumats gagnvart ISAV veirunni hérlendis.

Veiruskimun: skimað eftir PRV, PMCV og ISAV í ýmsum hópum
Á árunum 2015-2018 var sýna aflað úr 984 einstaklingum, sem tilheyrðu fjölbreytilegum hópum laxa. Fiskræktarhópar: vorið 2015 var sýnum safnað úr seiðahópum undan villtum klakfiski úr nokkrum ám á Suður-, Vestur- og Norðurlandi og haustið 2016 var þessum hópum fylgt eftir með sýnatökum úr klaklaxi sem gekk í árnar aftur eftir eitt til tvö ár í sjó. Eldishópar: Vorið 2015 og 2016 var sýnum safnað í seiðaeldisstöð. Hópurinn frá 2015 fór í eldiskvíar á Vestfjörðum en hópurinn 2016 í kvíar á Austfjörðum. Samkvæmt áætlun voru tekin sýni úr kvíafiski eftir 8 og 18 mánuði í sjó, 2017 á Vestfjörðum og 2018 á Austfjörðum. Hafbeitarhópar: tekin voru sýni úr eldisseiðum sem sleppt var í tvær hafbeitarár 2015 og úr klakfiski sem gekk upp í viðkomandi ár 2016. Villtir hópar: haustið 2017 var sýnum safnað úr villtum laxaseiðum í fjórum ám á SV- og V-landi auk þess sem færi gafst á að safna sýnum úr urriða veiddum í Elliðavatni.
Veiruskimanir hafa farið fram í öllum hópunum með RT-qPCR aðferðum. ISAV og PMCV hafa aldrei greinst en PRV fannst í öllum hópum nema einum. Mikill munur var milli hópa, bæði hvað varðar tíðni jákvæðra sýna og útkomu einstakra mælinga. Þannig var meðaltíðni í villtum seiðum 1,7%, 34,6% í fiskrækt og svo til öll sýni í hafbeitar- og eldishópum voru jákvæð. Tíðni í urriða úr Elliðavatni var 10%.  PRV jákvæð sýni sem höfðu Ct gildi undir 30 voru unnin áfram fyrir raðgreiningu með vísum fyrir sértækt markgen er nefnist S1. Í ljós kom að í öllum tilfellum var um genagerð 1a að ræða og mest samsvörun var við birtar raðir frá Noregi og Kanada. Athyglisvert er að íslensku raðirnar flokkuðust í undirhópa sem samsvara uppruna sýnanna hérlendis.
Niðurstöður þessa verkhluta gefa mikilvægar grunnupplýsingar fyrir eldis- jafnt sem veiðigeirann. Lokaskýrslu var skilað til AVS í júní 2018. Niðurstöður hafa verið kynntar á ráðstefnum hérlendis og erlendis og unnið er að greinarskrifum.
 

VHS-veira í hrognkelsum

Starfslið: Sigríður Guðmundsdóttir, Árni Kristmundsson og Heiða Sigurðardóttir.
Samstarf: EURL (European Union Reference Laboratory for Fish Diseases) í Kaupmannahöfn. Stofnfiskur lagði til hrognkelsaseiði. Verkefnið er styrkt af Umhverfissjóði sjókvíaeldis: U 16 009-16.
Upphaf:    2016. Lok: 2018.

Hrognkelsarækt hófst hérlendis með stuttum aðdraganda í ársbyrjun 2014. Hvatinn var mikil eftirspurn eftir hrognkelsaseiðum, einkum í Færeyjum, til að nota sem „hreinsifisk“ í laxeldi í sjó. Laxalús er mikill skaðvaldur á sjókvíalaxi í nálægum löndum og vaxandi eftirspurn er eftir hreinsifiski til að éta lúsina af laxinum. Sumarið 2015 einangraðist veira úr fiski veiddum á Breiðafirði sem reyndist vera VHSV (viral haemorrhagic septicaemia virus) sem veldur veirublæði. Raðgreining á s.k. G-geni sýndi að veiran tilheyrir flokki IV, en virðist vera af nýjum undirflokki. Þetta var í fyrsta sinn sem tilkynningaskyld veira greindist í fiski hérlendis og samkvæmt alþjóðlegum samningum var þetta tilkynnt til OIE 23. október 2015. Greining VHSV veiru í hrognkelsum vakti nokkurn ugg í eldisgeiranum og margar spurningar vöknuðu, einkum þó hvort lax væri móttækilegur fyrir þessum sýkli. Evrópska tilvísunarrannsóknastofan í fisksjúkdómum (European Union Reference Laboratory eða EURL) bauðst til að setja upp tilraun í húsakynnum sínum í Kaupmannahöfn og fór starfsmaður Tilraunastöðvarinnar að Keldum (Sigríður Guðmundsdóttir) utan til að taka þátt í tilrauninni.
Gerðar voru smittilraunir í laxa- og regnbogaseiðum, annars vegar með því að sprauta veirulausn í kviðarhol (i.p. smit) og hins vegar með því að baða seiðin í veirulausn í 5 klst., 3 undirflokkar af veirunni,VHSV-Ia, VHSV-IVa og VHSV-IV-Ice voru prófaðir. Niðurstöður má sjá í ársskýrslu fyrir 2016.
Sett var upp tilraun í Kaupmannahöfn þar sem ósmituð laxaseiði og ósmituð hrognkelsaseiði voru sett í ker með hrognkelsum sem höfðu fengið veiruna í kviðarhol (i.p.) Í síðast nefnda hópnum var dauði um 90%, 50-57% í hrognkelsaseiðum í samvist og 8-20% í laxaseiðum í samvist. Ræktun og PCR próf staðfestu smit í hrognkelsunum en ekki í laxinum, svo veirusmit var ekki ástæða affalla í þeim.
Það er því ljóst að þessi nýja veira er mjög meinvirk í hrognkelsum og smitast auðveldlega í samvist. Hún fjölgaði sér og olli dauða í laxi sem fékk smit í kviðarhol, en laxinn smitaðist hvorki með böðun né í samvist. Þessi veira hefur ekki fundist aftur í hrognkelsum hérlendis, hvorki í rækt né í PCR prófi.
Frekari raðgreiningar á 545 bp búti úr s.k. G-geni staðfestu að íslenski stofninn fellur ekki í neinn undirflokk genagerðar IV. Skyldasti stofninn reyndist vera kanadískur. Líklegt er að íslenski stofninn muni falla í nýjan undirflokk.
Grein um hluta þessa efnis birtist í árslok 2018 (https://doi.org/10.1111/jfd.12910) og önnur grein er í undirbúningi.
 

Þróun sértæks bóluefnis gegn kýlaveikibróður í bleikju

Starfslið: Heiðdís Smáradóttir, Íslandsbleikju ehf, verkefnisstjóri; Rannveig Björnsdóttir, Háskólanum á Akureyri, meðumsækjandi; Bryndís Björnsdóttir, MATÍS, meðumsækjandi; Sigríður Hjartardóttir, Keldum, meðumsækjandi og Marta Perelló Rodríguez, Hipra, meðumsækjandi.
Samstarf: Fiskeldisstöðvar á Íslandi sem rækta bleikju til manneldis.
Upphaf:    2017.    Lok: 2019.

Markmið verkefnisins er að framleiða endurbætt sértækt einþátta bóluefni gegn kýlaveikibróður (Aeromonas salmonicida ssp. achromogenes), ASA, í bleikju.
Íslandsbleikja er stærsti bleikjuframleiðandi í heiminum í dag og hefur lagt áherslu á að vera með eins vistvænt eldi og kostur er. Engin lyf önnur en fyrirbyggjandi bóluefni hafa verið notuð meðal annars til þess að skapa jákvæða ímynd í kringum eldið.
Sá sjúkdómur sem valdið hefur hvað mestum afföllum í bleikjueldi hér á landi er kýlaveikibróðir. Til varnar sjúkdómnum er nú notast við bóluefnið Alpha-Ject-3000 sem þróað hefur verið gegn hinni eiginlegu kýlaveiki (Aeromonas salmonicida ssp. salmonicida) auk tveggja Listonella (Vibrio) anguillarum sermisgerða, en rannsóknir hafa sýnt að það bóluefni getur einnig krossvarið laxfiska gegn kýlaveikibróður, ASA. Þessi bólusetning hefur gefist vel en frá árinu 2011 hefur borið á því að bólusett bleikja sýni einkenni kýlaveikibróður þegar fiskurinn fer að nálgast sláturstærð.
Rannsókn sem gerð var árið 2011 sýndi að bleikja þróar með sér nokkuð lakari og styttri mótefnasvörun gagnvart bólusetningu með Alpha-Ject-3000 en bæði lax og regnbogasilungur og vörnin er lítil sem engin eftir að bleikjan nær 800 gr. þyngd.
Árið 2014 hófst samstarf Íslandsbleikju og spænska lyfjaframleiðandans Hipra sem byggir á því að framleiða sértækt ASA bóluefni fyrir bleikju. Framkvæmd var tilraunabólusetning árið 2015 með bóluefni sem unnið var úr íslenskum ASA stofni en árangur með þá hópa seiða sem bólusettir voru hefur ekki verið eins og góður og vonast var til.
Mikill fjölbreytileiki virðist vera í þeim kýlaveikibróður „ísólötum“ sem einangraðir hafa verið úr fiskum á Tilraunastöðinni á Keldum og til þess að kortleggja betur fjölbreytileikann verða tekin sýni úr fiskum frá öllum áframeldisstöðvum Íslandsbleikju auk fiska frá öðrum  bleikjueldisstöðvum sem áhuga hafa á að taka þátt í verkefninu.
Árið 2018 var unnið með 29 sýni úr fiskum frá fjórum mismunandi eldisstöðvum. Fiskarnir sem valdir voru í sýnatökur sýndu allir einhver sjúkdóms- eða slappleika einkenni og benti krufning til sjúkdóms. Ekki var um viðbótar sýnatökur að ræða vegna verkefnisins sem slíks heldur var fiskum sem bárust Keldum vegna affalla og greindust með ASA bætt við í verkefnið að fengnu leyfi frá eldisstöðvunum. Þeir voru krufðir og rannsakaðir m.t.t. kýlaveikibróður auk þess sem leitað var að öðrum algengum sjúkdómsvaldandi bakteríutegundum í fiskeldi á Íslandi þ.e.a.s. bakteríum sem valda sporðátu, vetrarsárum, rauðmunnaveiki auk Vibrio bakteríutegunda. Að auki bárust okkur blóðagarskálar sem sáð hafði verið á úr fiskum á eldisstöðvunum sjálfum. Í því tilfelli var sjúkdómsgreining fiska framkvæmd á staðnum af dýralækni. Ákveðið var að einbeita sér ekki eingöngu að ASA stofnum úr bleikju og var því bætt við verkefnið ASA stofnum úr löxum og hrognkelsum.
Gerðar voru lífefnafræðilegar svipgerðar prófanir á öllum þeim stofnum sem einangraðir hafa verið í verkefninu fram að þessu, 59 alls til að meta breytileika en það var ekki inni í upphaflegri áætlun fyrir verkefnið. Notað var API 20E greiningarpróf (frá Bio Merieux). Allir stofnarnir frá laxi og bleikju, frá nokkrum ólíkum eldisstöðvum reyndust vera eins. Stofnar úr hrognkelsum virtust vera ólíkir hinum þar sem þeir mynda b-galactosidasa og afoxun nítrats yfir í nítrít er ekki eins áberandi.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is