Háskóli Íslands

Fræðslufundir 2010

2.desember 2010

Fyrirlesari:  Ólöf Guðrún Sigurðardóttir dýralæknir á Keldum.
Heiti erindis:  Smitandi hósti í hrossum, III. hluti – meinafræði.

Í þessu þriðja erindi um smitandi hósta í hrossum verður farið yfir helstu niðurstöður úr meinafræðirannsóknum. Lýst verður vefjameinafræðilegum breytingum sem sáust í tilraunahrossum. Samantekt verður einnig gerð á helstu breytingum í hrossum sem send voru í krufningu til að kanna þátt smitandi hósta í dauða þeirra.

--------

25.nóvember 2010

Fyrirlesari: Karl Skírnisson dýrafræðingur.
Heiti erindis: Frá ferð um Ástralíu.

Stuttlega verður drepið á landsháttum í Ástralíu og meðal annars sagt frá jarðfræði, landfræðilegri legu, loftslagi og landnámi manna þar.  Þá verður aðeins sagt frá heimsráðstefnu sníkjudýrafræðinga sem haldin var í ágúst 2010 í Melbourne.
Seinni hluti erindisins fjallar einkum um lífríki Ástralíu þar sem meðal annars verða sýndar myndir af gróðri og villtum dýrum, auk þess sem landslagi, búsháttum og landnytjum eru gerð skil í myndum og máli.

--------

11.nóvember 2010

Fyrirlesari:  Sigurður Ingvarsson forstöðumaður á Keldum.

Heiti erindis:  Þroski, vöxtur og starfsemi vessaæða í heilbrigðum og sjúkum vef.

Ýmsir sjúkdómar tengjast starfi og vexti vessaæða, s.s. krabbamein og vessabjúgur. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir því helsta sem Kari Alitalo, prófessor við Háskólann í Helsinki og samstarfsfólk hans hafa lagt af mörkum til nýrrar þekkingar með rannsóknum sínum á fræðasviðinu. K. Alitalo hlaut nýlega verðlaun sem veitt eru úr hinum virta sjóði sem stofnaður var af Norðmanninum Anders Jahre og eru þau hin stærstu í rannsóknum í líf- og læknisfræði innan Norðurlandanna.

--------

4.nóvember 2010

Fyrirlesari: Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir líffræðingur á Keldum

Heiti erindis: Sýklalyfjaónæmi baktería í búfénaði á Íslandi – mögulegur flutningur til manna?

Megin markmið þessarar rannsóknar var að ákvarða tíðni ónæmra baktería í sláturdýrum á Íslandi og meta hvort, og þá í hve miklum mæli, þessar bakteríur berast frá dýrum til manna, þá aðallega með matvælum.

--------

28.október 2010

Fyrirlesari: Eggert Gunnarsson dýralæknir á Keldum

Heiti erindis: Smitandi hósti í hrossum, II hluti - Þáttur baktería

Eins og fram hefur komið er ekkert sem bendir til þess að veirur eigi hlut að máli sem orsök smitandi hósta í hrossum.

Í erindinu er greint frá rannsóknum á erfðaefni bakteríunnar Streptococcus equi undirtegund zooepidemicus, og niðurstöðum sem gefa vísbendingu um að bakterían sé aðalorsök faraldursins.

Einnig verður fjallað um ýmsa eiginleika bakteríunnar sem gera henni kleift að valda sjúkdómseinkennum, án þess að önnur orsök sé undirliggjandi, og hafa um leið þýðingu fyrir þróun þessa sjúkdóms og varnaraðgerðir á næstu árum.

--------

7.október 2010

Fyrirlesari: Vilhjálmur Svansson dýralæknir á Keldum.
Heiti erindis: Smitandi hósti í hrossum, I hluti  - veirurannsóknir.

Í byrjun aprílmánaðar var tilkynnt um smitandi hósta í hrossum hérlendis. Allur hrossastofn landsins hefur reynst næmur fyrir sýkingunni og nú má ætla að megin þorri hrossa hafi smitast.

Í erindinu verður farið yfir smitsjúkdómastöðu hesta hérlendis og greint frá veirurannsóknum sem gerðar hafa verið til að komast að orsökum faraldursins. Erindið er fyrsta af þrem sem haldið verður á Tilraunastöðinni á Keldum um rannsóknir á smitandi hósta.
Í næstu erindum munu dýralæknarnir Eggert Gunnarson og Ólöf Sigurðardóttir fjalla um bakteríurannsóknir á smitandi hósta og lýsa meingerð sjúkdómsins.

--------

23. september 2010

Fyrirlesari: Baldur Tumi Baldursson læknir, umsjónarmaður klíniskra rannsókna hjá Kerecis ehf.

Heiti erindis: Sár, meingerð og meðferð með tilliti til stoðefnis úr fiskroði

Ýmsir sjúkdómar geta verið undirliggjandi orsakir langvinnra sára. Þó svo að sár eigi sér sundurleitar orsakir, þá öðlast þau, eins og svo margir sjúkdómar, „sitt eigið líf“. Því er lýst þannig að sárið frjósi í bólgufasanum, í stað þess að fara í gegn um hann og byrja á uppbyggingarfasanum. Í bólgufasa eru mest áberandi átfrumur og kleyfkjörnungar. Ein af tilgátunum um orsökina fyrir þessari stöðnun er sú að bólgufrumurnar í sárinu, ásamt þeim hrærigraut af  ýmsum mótefnavökum og innvolsinu úr dauðum frumum, leiði til krónisks árásarástands þannig að of mikið sé af próteinuppleysandi ensímum í sárinu.

Sárameðferð hefur á seinni tímum einkum beinst að því að leiðrétta undirliggjandi orsakir. Eftir að tilraunir voru gerðar með virka meðferð með vaxtarþáttum í lok 10. áratugarins, var farið að vinna með hina niðurbrjótandi þætti og er þar komið að þætti stoðefna. Hugmyndin er m.a. að gefa hinum eyðileggjandi þáttum ofgnótt af viðfangi.

--------

9. september 2010 

Fyrirlesari: Jón M. Einarsson líffræðingur, rannsókna og þróunarstjóri hjá Genís ehf.
Heiti erindis: Líffræðileg virkni kítínefna

Genís hefur þróað framleiðsluaðferðir fyrir lífvirkar kítínafleiður. Árin 2006 – 2009 voru unnin 5 verkefni fyrir Genís hjá erlendum rannsóknastofnunum, um virkni kítínafleiddra fásykra í sjúkdómsmódelum in vivo og in vitro og í beinamódelum in vivo.
Síðustu árin hefur verið áhersla á að skapa fyrirtækinu traust vísindalegt bakland, sem byggðist á náinni samvinnu við innlenda vísindamenn en rannsóknir á lífvirkni kítínafleiða voru áður óþekktar á Íslandi. Nú taka 8 vísindamenn, tveir doktorsnemar og tveir mastersnemar virkan þátt í verkefnum, sem tengjast Genís og starfar hópurinn undir heitinu ARM (Aminosugars in Regenerative Medicine).  ARM-hópurinn hefur hlotið tvo veglega verkefnisstyrki úr Tækniþróunarsjóði og nokkra styrki úr minni sjóðum á vegum Rannís og Vísindasjóði LSH.

--------

16. júní  2010

Fyrirlesari: Gustav Ranheimer Östner doktorsnemi við læknadeild Háskólans í Lundi.
Heiti erindis: Molecular Pathology of Hereditary Cerebral Hemorrhage in Iceland (arfgeng heilablæðing).

A number of Icelandic families are affected by Hereditary Cystatin C Amyloid Angiopathy (arfgeng heilablæðing). In this human disease, L68Q variant cystatin C deposits as amyloid within cerebral vessels, causing dementia and death from cerebral hemorrhage, in early adult life. The protein cystatin C, a cysteine protease inhibitor, has been shown to dimerize via three-dimensional domain swapping, and the same mechanism has been associated with formation of oligomers and amyloid fibrils.  In this presentation, our current knowledge of the molecular mechanisms in this disease, will be reviewed. Recent efforts in finding novel treatments, will be highlighted.

--------

8. apríl 2010

Fyrirlesari: Prófessor Brian Austin örverufræðingur, forstöðumaður Institute of Aquaculture, University of Stirling, Skotlandi.
Heiti erindis: The use of probiotics and medicinal plants for the control of diseases in aquaculture.

Erindið haldið fimmtudaginn 8. apríl, kl. 12:20 í bókasafni Keldna.

The control of fish diseases include the use of inhibitory compounds, vaccines, immune¬stimulants, medicinal plants, and probiotics. 

--------            

11.mars 2010

Fyrirlesari: Magnús Guðmundsson, skjalavörður Háskóla Íslands.
Heiti erindis: Skjalastjórn vísindamanna og frágangur skjala til geymslu.

Erindið haldið fimmtudaginn 11. mars, kl. 12:20 í bókasafni Keldna.

Fjallað verður um stjórn skjala meðal vísindamanna og frágang skjalasafna til langtíma geymslu.

Gerð verður grein fyrir helstu viðmiðunarreglum skjalavörslu, svonefndri upprunareglu, og fjallað um líftíma skjala og upplýsinga. Bent verður á hvað sé vert að varðveita til frambúðar og hverju sé óhætt að farga. Fjallað verður um flokkun og skráningu þeirra skjala sem eftir standa, jafnt rafrænna skjala sem á pappír.

--------

25.febrúar 2010

Fyrirlesari: Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands

Heiti erindis: Heilsa og þróun í Afríku sunnan Sahara

Erindi haldið fimmtudaginn 25. febrúar, kl. 12:20 á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Fjallað um alþjóðaheilsu (global health) og mikilvægi hugtaksins.

Nokkur atriði alþjóðlegrar þróunaraðstoðar verða rakin og fjallað um ávinning hennar og ágalla. Rætt verður hvers vegna ekki hefur gengið betur. Lýst verður mannlífi og heilsufari í Afríku sunnan Sahara, einkum Malawi og Sierra Leone, og þróun helstu sjúkdóma þar. Störf starfsmanna í þróunaraðstoð verða nefnd og loks reynt að segja til um hvaða áherslur þróunarsamsvinnu skila einhverjum árangri.

--------

28. janúar 2010

Ólafur K. Nielsen fuglafræðingur.
Heiti erindis: Rjúpnarannsóknir við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Erindið haldið fimmtudaginn 28. janúar, kl. 12:20 á bókasafni Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Saga rjúpnarannsókna við Náttúrufræðistofnun Íslands spannar um 60 ár. Frumkvöðull rjúpnarannsókna var Finnur Guðmundsson, fuglafræðingur. Rannsóknirnar hafa snúist um tvo meginþætti, annars vegar að vakta stofnin og hins vegar að reyna að skýra reglubundnar stofnsveiflur rjúpunnar.

Megináherslan hefur verið á vöktun rjúpnastofnsins, en þar er aflað gagna sem eru grunnur veiðiráðgjafar Náttúrufræðistofnunar til Umhverfisráðuneytis. Í fyrirlestrinum verður fjallað stuttlega um sögu rjúpnarannsókna og síðan verður gerð nánari grein fyrir niðurstöðum rannsókna á samspili fálka og rjúpu og hugsanlegu hlutverki fálkans í stofnsveiflu rjúpunnar.

--------

14.janúar 2010 

Viðar Helgason verkefnisstjóri hjá Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands.
Heiti erindis: Kynning á ERC styrkjum.

Erindi haldið fimmtudaginn 14. janúar 2010, kl. 12:20.

ERC (European Research Council) hefur umsjón með með styrkjakerfi innan 7ndu Rammaáætlunarinnar sem kölluð er Hugmyndir (Ideas). Styrkirnir eru veittir einstaklingum í fremstu röð til rannsókna á öllum sviðum vísinda.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is