Háskóli Íslands

Fræðslufundir 2009

3.desember 2009

Fyrirlesari: Aaron Frenette líffræðingur.
Heiti erindis: Employing molecular diagnostics to investigate Loma morhua infections in Atlantic cod.

Farming of cod is of particular significance because of consumer interest and the potential market profit. However, as with any new “farming” endeavour, parasites pose serious risks to successful fish cultivation. The current study deals with the intracellular microsporidian parasite, Loma morhua, that is limiting the production potential of Atlantic cod, a new species to aquaculture. This study focuses on the identification of specific genetic lines (“families”) of cod that show natural resistance to this parasite. The evaluation of family regarding resistance to L. morhua infection will be used as a criterion for the selection of cod broodstock. Furthermore, important taxonomic considerations regarding classification of Loma spp. in gadoids will be highlighted.

--------

26.nóvember 2009

Fyrirlesari: Hólmfríður Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Matís.
Heiti erindis: Próteinmengjagreiningar á þorsklirfum.
Hólmfríður varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands í maí 2009.

Í fyrirlestrinum verða kynntar  niðurstöður doktorsverkefnisins sem ætlað var að skapa nýja þekkingu á próteintjáningu í þorsklirfum. Fylgst var með breytingum á próteinmengi þorsklirfa með auknum þroska og sem viðbrögð við meðhöndlun þeirra með próteinmeltu og bætibakteríum.

Prótein, sem sýndu magnbreytingar eftir meðhöndlun þorsklirfa með próteinmeltu og bætibakteríum, voru aðgreind á tvívíðum SDS-PAGE rafdráttargeljum og kennigreind með massagreiningum. Áhersla var lögð á greiningu próteina sem tengja má við vöxt, þroska, meltingu og ósérhæft ónæmissvar.

Niðurstöður rannsóknanna sem ritgerðin byggir á, eru fyrsta skrefið í uppbyggingu á gagnabanka fyrir próteinmengi þorsklirfa.

--------

19. nóvember 2009
Fyrirlesari: Sigurður Ingvarsson forstöðumaður á Keldum
Heiti erindis: Nóbelsverðlaunin í líf- og læknisfræði 2009: Litningaendar og telómerasi.

Nóbelsverðlaunin í líf- og læknisfræði 2009 skiptust jafnt á milli Elizabeth H. Blackburn (University of California, San Francisco), Carol W. Greider (John Hopkins University School of Medicine, Baltimore) og Jack W. Szostak (Harvard Medical School Boston; Howard Hughes Medical Institute). Verðlaunin voru veitt fyrir uppgötvun á byggingu og starfsemi litningaenda og ensímsins telómerasa. Fyrstu niðurstöður byggðu á notkun einfrumungs í rannsóknunum og síðar kom í ljós að viðkomandi kerfi eru varðveitt í þróun fjölfrumunga. Niðurstöður verðlaunahafanna leystu m.a. tvö vandamál líffræðinnar sem tengjast því að litningar eru línulegar sameindir, þ.e. hvernig litningar eru varðir fyrir niðurbroti og hvernig eftirmyndun á litningaendum á sér stað. Endurtekning á DNA-röð litningaenda er lykilatriði í starfi þeirra. Ensímið telómerasi er sérstakt að því leyti að það inniheldur bæði RNA sameind og próteinsameindir. Virkni þess flokkast sem víxlritavirkni, því notað er RNA mót til að byggja nýtt DNA. Í erindinu verður farið yfir helsu tímamótaskref í rannsóknunum, fjallað verður almennt um byggingu og starf litningaenda og telómerasa og mikilvægi þessarar nýju þekkingar varðandi skilning og meðferð á sjúkdómum

--------

15. október 2009
Fyrirlesari: Valerie Helene Maier, lífefnafræðingur.
Heiti erindis: Örverudrepandi peptíðin cathelicidin í fiskum.

Mikilvægi överudrepandi peptíða í náttúrulega ónæmiskerfi spendýra hefur verið staðfest. Peptíðin hylja yfirborðsþekju þeirra og mynda fyrsta varnarlagið gegn sýklum. Í fiskum er hins vegar lítið vitað um þessar grunnvarnir gegn bakteríum en viðtekið er að fiskar treysti á náttúrulegar varnir, frekar en aðlögunar ónæmi gegn bakteríum. Við höfum nýlega fundið cathelicidin í nokkrum tegundum fiska og rannsakað tjáningu þeirra við sýkingu. Tjáning þorska cathelicidin hefur verið skoðuð í lirfum og virka peptíðið var einangrað úr nýrum.

Frekari rannsóknir á fiska cathelicidin snúa að hlutverki peptíðsins og stjórnun tjáningar þess

--------

8. október 2009
Fyrirlesari: Bettina Wagner, DVM, Dr. vet. med. habil. Harry M. Zweig Assistant Professor in Equine Health, College of Veterinary Medicine Cornell University Ithaca, NY, USA.
Heiti erindis: Immunological aspects of skin hypersensitivity in the horse: roles of IgE and cytokines. (Hlutverk IgE og boðefna í sumarexemi í hestum.)

Sumarexem er IgE miðlað ofnæmi í hrossum gegn prótínum úr smámýi (Culicoides spp). Fjallað verður um hlutverk IgE og mastfruma í sjúkdómnum. Þar sem næming gegn smámýi er algeng í heilbrigðum hestum er ekki talið að framleiðsla á smámýssérvirku IgE sé nægileg til að útskýra exemið. Líklegt er að stjórnfrumur eigi þátt í að bæla klínísk einkenni. Framleiðsla á stjórnboðefninu IL-10 var athuguð eftir örvun á hvítfrumum með smámýsseyði. Smámýið bældi IL-10 framleiðslu en anti-IgE meðhöndlun jók hana. Þar sem ekki fannst munur á milli sumarexemhesta og heilbrigðra að þessu leyti eru allar líkur á að aðrir ferlar hafi hlutverki að gegna í stjórnun á exeminu.

---------

10. september 2009
Fyrirlesari: Bergljót Magnadóttir dýrafræðingur.
Heiti erindis: Heimsókn til þriggja háskóla í Kína vorið 2009.

Sagt verður frá heimsókn til þriggja háskóla í Kína í maí sl.: Ocean University of China í borginni Qingdao, Dýralæknaháskólans í Peking sem er hluti af China Agricultural University í Peking og Tianjin Normal University í borginni Tianjin.

Heimsóttar voru deildir sem tengdust rannsóknum á fiskum og fiskaónæmisfræði. Einnig var fiskeldisstöð austan við Tianjin heimsótt. Haldinn var fyrirlestur um Keldur og fiskaónæmisfræði, spurningum svarað um efnið og Ísland og um leið reynt að kynnast þeirri starfsemi sem fór fram á hverjum stað. Móttakan á hverjum stað var höfðingleg og viðmælendur áhugasamir og skemmtilegir. Tungumálaerfiðleikar voru, hins vegar, nokkuð til trafala.

--------

28. maí 2009
Fyrirlesari: Mareike Heimann dýralæknir.
Heiti erindis: The local immune response in summer eczema.

Summer eczema (SE) is the most common allergic skin disease of the horse. Previous studies have shown that affected horses have increased numbers of peripheral IL-4 producing T cells and that IL-4 production in healthy horses is inhibited by the regulatory cytokines IL-10 and TGF-β1. It has been suggested that these cytokines originate mainly from regulatory T cells (Tregs). While the number of dermal Tregs does not differ between healthy and SE affected horses, expression levels of the Treg transcription factor FoxP3 are significantly lower in lesional skin of affected horses than in normal skin. Furthermore, blood levels of IL-10 mRNA are significantly reduced in SE affected horses. These results support the hypothesis that Tregs play an important role in the prevention of summer eczema.

--------

14. maí 2009
Fyrirlesari: Sigurbjörg Þorsteinsdóttir ónæmisfræðingur.
Heiti erindis: Hvers vegna fá íslenskir hestar erlendis frekar sumarexem ef þeir eru fæddir á Íslandi?

Sumarexem er IgE miðlað ofnæmi í hrossum gegn prótínum úr smámýi (Culicoides spp). Ofnæmið er vandamál í íslenskum hestum á erlendri grund en smámý lifir ekki á Íslandi. Exemið er mun algengara hjá íslenskum hestum sem fæddir eru á Íslandi og fluttir út, en hjá íslenskum hestum sem fæddir eru erlendis. Munurinn virðist liggja í stjórnun á boðefninu IL-4 sem ræsir IgE myndun. Hestar fæddir hér eru líklegri en íslenskir hestar fæddir í Evrópu til að svara smámýinu með aukningu í IL-4 myndandi T-frumum, IgE framleiðslu og exemi.
Hross eru sýkt af iðraormum frá unga aldri. Hestar á Íslandi eru verulega ormasýktir, hafa hátt heildar IgE og öfluga bælingu á ormasérvirku IL-4. Eftir útflutning sýna þeir fljótlega minnkun í ormasýkingu, lækkun í heildar IgE og í viðeigandi stjórnboðefnum.

--------

7. maí 2009
Fyrirlesari: Johanna Hentschke lífefnafræðingur.
Heiti erindis: A study on the effect of querum sensing on the virulence of Aeromonas salmonicida ssp. achromogenes. (Rannsókn á áhrifum þéttniskynjunar á sýkingarmátt bakteríunnar Aeromonas salmonicida undirteg. achromogenes.)

Bakterían A. salmonicida veldur kýlaveiki og skyldum sjúkdómum í fiski. Bakteríur nota þéttniskynjun með samaneindum sem líkjast hormónum (AHL, homoserine lactone) til að bregðast við ýmsum þáttum í umhverfinu. Algengt er að tjáningu sýkiþátta sé stjórnað af þéttniskynjun. AsaP1 er málmháður peptíðasi sem er mikilvægur sýkiþáttur bakteríunnar. Markmið rannsóknarinnar sem fyrirlesturinn fjallar um, er að kanna hvort þéttniskynjun stjórni sýkingarmætti A. salmonicida. Stökkbrigði af bakteríunni, sem ekki getur nýmyndað AHL sameindir, var smíðað. Tjáning stökkbrigðisins á AsaP1 og fleiri þáttum sem tengjast sýkingarmætti hennar var kannað og einnig var hæfi til sýkingar bleikju borið saman. Niðurstöður sýna að þéttniskynjun hefur mikil áhrif á sýkingar mátt A. salmonicida.
Erindið verður haldið á ensku ! The lecture will be in english !

--------

30. apríl 2009
Fyrirlesari: Ásgeir Erlendur Ásgeirsson líffræðingur.
Heiti erindis: Epstein-Barr og cytomegaloveira: faraldsfræði og greining.

Annað markmið rannsóknarinnar var að kanna algengi mótefna gegn cytomegaloveiru (CMV) og Epstein-Barr veiru (EBV) meðal Íslendinga og bera saman við önnur lönd. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að þessar veirur eru mjög algengar hér á landi.
Hitt markmiðið var að þróa PCR aðferðir til að greina CMV og EBV sýkingar í sermi þegar hefðbundnar mótefnamælingar duga ekki til. Helstu niðurstöður PCR rannsóknarinnar eru að erfðaefni CMV og EBV var greinanlegt með PCR í upphafi sýkingar. Möguleiki er á jákvæðri niðurstöðu hjá heilbrigðum einstaklingum með gömul mótefni gegn þessum veirum. Sjúklingar með aðrar sýkingar geta mælst jákvæðir fyrir CMV.

--------

16. apríl 2009
Fyrirlesari: Arnþór Guðlaugsson líffræðingur.
Heiti erindis: Smitöryggi í lyfjaframleiðslu: Athugun á veirudrápsvirkni við framleiðslu frjósemislyfs úr sermi.

Fjallað verður um MS verkefni fyrirlesara sem kannar nú veirudrápsvirkni framleiðsluferla í lyfjaframleiðslufyrirtæki í Reykjavík. Dæmi eru um að veirur hafi komist inn í lyfjaframleiðsluferla, oftast með hráefni, og út úr þeim aftur með tilbúnu lyfi.Rætt verður um bakgrunn veiruvarnarannsókna, af hverju þær eru framkvæmdar, hönnun þeirra og uppsetningu, m.a. hvað varðar val á veirum m.t.t. fjölbreyttra eðlisefnafræðilegra eiginleika þeirra. Einnig verður stuttlega gerð grein fyrir stöðu verkefnisins sem hófst haustið 2008 og er áætlað að verði lokið í kringum næstu áramót.

--------

19. mars 2009
Fyrirlesari: Birkir Þór Bragason líffræðingur
Heiti erindis: Rannsóknir á frumulíffræði og genatjáningu fíbróblasta úr arfberum með L68Q cystatin C stökkbreytingu.

Arfgeng heilablæðing er séríslenskur mýlildissjúkdómur sem stafar af stökkbreytingu (L68Q) í próteininu cystatin C. Stökkbreytt cystatin C myndar mýlildi í ýmsum vefjum, en aðallega í slagæðaveggjum heilans þar sem uppsöfnunin veldur heilablæðingu í arfberum. Markmið rannsóknanna er tvíþætt. Í fyrsta lagi að kanna far (processing) cystatin C í húðfíbróblöstum sem ræktaðir hafa verið úr L68Q arfberum. Í öðru lagi að bera genatjáningu í frumum úr arfberunum saman við frumur úr viðmiðum með rauntíma-PCRi og microarray.Niðurstöðurnar benda ekki til uppsöfnunar á L68Q cystatin C í fíbróblöstunum. Ennfremur að tjáning cystatin C gensins (CST3) sé ekki marktækt frábrugðin í arfberum og viðmiðum. Hins vegar hefur rauntíma-PCR á völdum genum, ásamt microrarray tilraunum, sýnt mun á genatjáningu milli arfbera og viðmiða.

--------

20. febrúar 2009
Starfsmannafundur á Keldum.
Framsaga: Einar Jörundsson, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu.
Efni fundar: Fyrirhugaðar breytingar á skipulagi Keldnastarfs.

Fram verður lagt frumvarp til laga um afnám laga um Keldur nr. 67/1990 og gerður sérstakur samningur á milli Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytis vegna flutnings Keldna til Háskóla Íslands. Einnig verður gengið frá þjónustusamningi við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið um ráðgjöf og þjónustu í þágu heilbrigðiseftirlits, sjúkdómagreininga og sjúkdómavarna fyrir búfé og önnur dýr og öryggisviðbúnað og forgangsþjónustu á sviði dýraheilbrigðismála. Verði lögin samþykkt, og gengið frá samningum í þeirri mynd sem gert er ráð fyrir, verður sett á laggirnar stofnun sem heyrir undir háskólaráð undir heitinu Keldur, rannsóknastofnun Háskóla Íslands í dýraheilbrigðisfræðum sem verður rannsókna- og þjónustustofnun, starfrækt af Háskóla Íslands. Henni er ætlað að vera vettvangur þverfræðilegs samstarfs, innan og utan Háskóla Íslands, á sviði dýraheilbrigðisfræða og skyldra greina.

--------

19. febrúar 2009
Fyrirlesari: Guðmundur Georgsson læknir.
Heiti erindis: Bólusetning rhesus apa með veiklaðri apaveiru: Líkan fyrir eyðni.

Eyðniveira veldur skæðustu farsótt sem herjar nú á mannkyn. Talið er að nú beri um það bil 33 miljónir manna smit og að á sl.25 árum hafi 25 milljónir látist úr eyðni. Verst er ástandið í Afríku, sunnan Sahara, en þar er að finna 68%, eða 22 milljónir, sýktra. Í sumum ríkjum þar er allt að fjórðungur landsmanna sýktur. Helstu ráð til að vinna bug á sýkingunni eru fræðsla, lyfjameðferð og bólusetning. Við þær aðstæður sem ríkja á þessu svæði virðist bólusetning helsta úrræðið. Við völdum, sem líkan fyrir bólusetningu í mönnum, að bólusetja rhesus apa með veiklaðri apaveiru í hálskirtla til að: 1) þurfa ekki að bólusetja nema einu sinni og 2) vekja ónæmi í slímhúðum. Vörn fékkst sem virðist byggjast á náttúrulegum (innate) varnarþáttum.

--------

5. febrúar 2009
Fyrirlesari: Sigríður Rut Franzdóttir líffræðingur.
Heiti erindis: Samtal tróðfruma og taugafruma – hlutverk FGF boðferlisins í augnþroskun ávaxtaflugunnar Drosophila melanogaster.

Tróðfrumur (e. glial cells) mynda mikilvæga uppistöðu flókinna taugakerfa. Í augnþroskun ávaxtaflugunnar Drosophila melanogaster, ferðast frumurnar töluverða vegalengd þar til þær hitta fyrir taugasíma frá ljósnemafrumum. Við það ganga þær í gegnum sérhæfingarferli sem leiðir til einangrunar taugasímanna. Verkefnið sem kynnt verður var unnið sem doktorsverkefni í líffræði við háskólann í Münster í Þýskalandi og beindist að því að finna sameindir sem taka þátt í að stýra þessu þroskaferli.
FGF boðferlið er vel varðveitt í öllum fjölfrumungum og er nauðsynlegt fyrir vöxt og viðhald. Með sameindaerfðafræðilegum aðferðum var sýnt fram á að FGF boð eru nauðsynleg á nokkrum stigum þroskunar tróðfruma augans og stýra jafn ólíkum þáttum og fjölgun, fari (migration) og sérhæfingu þeirra.

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is