Háskóli Íslands

Fræðslufundir 2008

27. nóvember 2008
Fyrirlesari:  Sigurbjörg Þorsteinsdóttir ónæmisfræðingur.
Heiti erindis: Ofnæmisvakar í sumarexemi.

Sumarexem (SE) er ofnæmi í hrossum gegn prótínum úr smámýi (Culicoides spp). Ofnæmið er vandamál í íslenskum hestum á erlendri grund en smámý lifir ekki á Íslandi. Við höfum sýnt fram á að a.m.k. 10 ofnæmisprótín eru í bitkirtlum smámýs og meira en helmingur SE hesta svarar á 5 þeirra. Áætlað er að finna aðalofnæmisvakana, framleiða þá og hreinsa í miklum mæli með því markmiði að þróa ónæmismeðferð gegn exeminu. Einangruð hafa verið 18 gen sem skrá fyrir mögulegum ofnæmisvökum og þau tjáð í bakteríum. Prótín, sem sýna ofnæmisvirkni eftir framleiðslu í bakteríum, eru tjáð í skordýrafrumum. Fjögur líkleg ofnæmisprótín eru í vinnslu, komin misjafnlega langt á veg. Það fyrsta er verið að tjá í byggi hjá ORF Líftækni en það er álitlegur kostur fyrir magnframleiðslu á ofnæmisvökunum.

--------

25. nóvember 2008
Fyrirlesari: Sigurður Ingvarsson forstöðumaður.
Heiti erindis: Framtíð Keldna , m.a. lagabreytingar.

Nefnd menntamálaráðuneytisins, sem fjallað hefur um framtíð og skipan Tilraunastöðvarinnar, hefur lokið störfum. Í "Skilagrein" nefndarinnar er inngangur, forsendur og niðurstöður, sem eru í sjö liðum. Í skilagreininni er fjallað um breytingar á stofnanaumhverfi og fyrirhugaða flutninga í Vatnsmýri. Niðurstaða nefndarinnar er að fella sérlög úr gildi og skal stofnunin heyra undir háskólaráð. Einnig kemur fram í niðurstöðum mikilvægi samninga við menntamálaráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

--------

13. nóvember
Fyrirlesari: Birkir Þór Bragason líffræðingur
Heiti erindis: Nóbelsverðlaunin í efnafræði 2008

Nóbelsverðlaunin í efnafræði 2008 skiptust jafnt á milli Osamu Shimomura (Marine Biological Laboratory Woods Hole, MA; Boston University Medical School Massachusetts), Martin Chalfie (Columbia University New York) og Roger Y. Tsien (University of California San Diego; Howard Hughes Medical Institute). Verðlaunin voru veitt fyrir uppgötvun á grænu flúrpróteini (green fluorescent protein, GFP) marglyttunnar Aequorea victoria auk rannsóknar og þróunarvinnu í kjölfarið sem hafa gert GFP að mikilvægu “merkitæki” við margvíslegar rannsóknir í lífvísindum. Í erindinu verður farið yfir sögu uppgötvunarinnar og fjallað almennt um GFP og notagildi þess í rannsóknum.

---------

30. október
Fyrirlesari: Karl Skírnisson dýrafræðingur
Heiti erindis:  Um rannsóknir á hvítabjörnum Ursus maritimus

Um 500 hvítabjarnakomur hafa komist á spjöld sögunnar á Íslandi. Dýrin eru sennilega flest úr svonefndum Austur-Grænlandsstofni, sum gætu þó verið komin frá Svalbarða. Í fyrirlestrinum er gerð grein fyrir margvíslegum athugunum á þremur hvítabjörnum sem hafa verið rannsakaðir á Keldum. Um er að ræða tvö gömul dýr (björn og birnu) sem syntu í land á Skaga í júní 2008 og miðaldra karldýr sem fiskimenn aflífuðu við ísjaðarinn 70 mílur norður af Horni í lok júní 1993. Í meltingarfærum Skagabjarnarins var smátt brytjaður gróður, hin drápust svöng. Mikið var af tríkínum Trichinella nativa í Skagabirninum en engin sníkjudýr fundust í hinum. Sérstakur gaumur var gefinn að heilbrigði dýranna. Niðurstöðurnar eru mikilvægt innlegg í umræðuna um réttlætanleg viðbrögð yfirvalda við hvítabjarnarkomum hér á landi

16. október
Fyrirlesari: Valgerður Andrésdóttir sameindalíffræðingur.
Heiti erindis: Nóbelsverðlaunin í læknisfræði 2008.

Nóbelsverðlaunin í læknisfræði 2008 voru veitt fyrir uppgötvanir og rannsóknir á tveimur veirum sem valda alvarlegum sjúkdómum í mönnum.
Helmingur verðlaunanna féll í skaut Harald zur Hausen við Háskólann í Dusseldorf í Þýskalandi, sem uppgötvaði þátt vörtuveiru (human papilloma virus; HPV) í leghálskrabbameini.
Francoise Barré-Sinoussi og Luc Montagnier við Pasteur stofnunina og Parísarháskóla skipta með sér hinum helmingi verðlaunanna. Þau voru fyrst til að einangra og skilgreina HIV veiruna sem veldur alnæmi.

25. september
Fyrirlesari: Ástríður Pálsdóttir lífefnafræðingur.
Heiti erindis: Umhverfisáhrif í arfgengri heilablæðingu á Íslandi.

Arfgeng heilablæðing er séríslenskur sjúkdómur sem eingöngu finnst í nokkrum ættum á Íslandi.
Í fyrirlestrinum verður lýst sögulegri breytingu á lifun arfbera með L68Q cystatin C stökkbreytingu sem veldur sjúkdóminum og aldursgreiningu stökkbreytingarinnar.
Forfeður nútímasjúklinga, sem voru arfberar skv. stöðu sinni í ættartrjám, lifðu eðlilega ævilengd miðað við maka sína (viðmið). Upp úr 1825-1830 fór að bera á áhrifum í þá átt að ævilengd arfbera styttist.
Vísindamenn hjá ÍE reiknuðu út að stökkbreytingin hafi orðið til fyrir nær 18 kynslóðum sem svarar til að hún hafi komið fram um 1550. Þetta þýðir að í nær 3 aldir breiddist stökkbreytingin út, en uppúr 1830 fór stökkbreytingin að gera sig gildandi, og olli heilablæðingu. Þetta er sterkustu umhverfisáhrif á eingena sjúkdóm sem þekkist og nú er unnið við að reyna að finna hver þessi umhverfisáhrif eru.

12. júní
Fyrirlesari: Sigurður Ingvarsson forstöðumaður.
Heiti erindis: Framtíð Keldna , m.a. lagabreytingar.

Unnið er að tillögur um breytingar á lögum Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og að skilgreina á ný hlutverk og tengsl stofnunarinnar við Háskóla Íslands og landbúnaðarháskólana. Tekið verður mið af þeirri þróun og breytingum sem verða á umhverfi Tilraunastöðvarinnar með flutningi stofnunarinnar í Vatnsmýri og yfirtöku menntamálaráðuneytisins á málefnum landbúnaðarháskólanna. Tillögur skulu vera til þess fallnar að treysta grundvöll starfseminnar og efla dýrasjúkdómarannsóknir á Íslandi. Það liggja fyrir ný lög um opinbera háskóla. Arkitektafyrirtækið C. F. Møller hefur lagt fram teikningar með tillögum að framtíðarskipulagi og framkvæmt frumathugun. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur lagt fram umsögn um þessa frumathugun.

29. maí
Eggert Gunnarsson dýralæknir
Heiti erindis: Súnur á Íslandi af völdum baktería, sveppa og veira.

Súnur (zoonosis) eru sjúkdómar og/eða sýkingar sem smitast náttúrulega á milli dýra og manna. Smitefni sem geta valdið súnum eru sníkjudýr, sveppir bakteríur, veirur og prion.
Vegna aldalangrar einangrunar og mjög strangra reglna varðandi innflutning á dýrum og dýraafurðum, er íslenskur búfénaður laus við marga alvarlega smitsjúkdóma sem hrjá dýr erlendis. Það á einnig við um margar súnur. Með ýmsum þjóðfélagsbreytingum, svo sem breyttum innflutningsreglum hvað varðar dýr og búfjárafurðir, loftslagsbreytingum vegna hlýnunar andrúmslofts og fleiri þáttum getur þessi mynd breyst.
Í fyrirlestrinum verður farið yfir helstu súnur af völdum baktería, veira og sveppa sem fundist hafa hér á landi til þessa.

8. maí
Fyrirlesari: Auður Aðalbjarnardóttir, líffræðingur.
Heiti erindis: ExeD sekretín Aeromonas – mögulegur þáttur í breiðvirkum fiskabóluefnum.

Aeromonas salmonicida er misleitur hópur baktería sem veldur kýlaveiki eða skyldum sjúkdómum í fiski. Bólusetningar hafa verið árangursríkar gegn sumum hópum A. salmonicida en ekki gegn öðrum. Seytiferill af gerð II (TIISS) tengist sýkingarmætti mismunandi baktería og sýkiþáttum er seytt um þennan feril. Eina ytri himnu prótein TIISS er sekretín sem hjá Aeromonas tegundum er kallað ExeD.

Niðurstöður þessarrar rannsóknar sýndu að sekretínið ExeD er mjög vel varðveitt meðal ættkvíslarinnar Aeromonas. Það kom einnig í ljós að mótefni gegn litlum hluta sekretínsins hefur sérhæfð hjúpunar og bakteríudrápsáhrif á Aeromonas salmonicida undirtegund achromogenes og Yersenia ruckeri. Þessar niðurstöður benda til þess að ExeD kunni að vera æskilegur þáttur í breiðvirkum fiskabóluefnum.

3. apríl
Fyrirlesari: Ólöf G. Sigurðardóttir, dýralæknir
Heiti erindis: Garnaveiki í geitum – forklínísk sýking

Garnaveiki er langvinnur smitsjúkdómur í jórturdýrum sem orsakasta af Mycobacterium avium subsp. paratuberculosis. Bakterían veldur hnúðabólgu í görnum sem leiðir til skitu og megurðar. Þekking á meingerð fyrsta fasa garnaveikinnar er takmörkuð og sjúkdómsgreiningaraðferðir ófullnægjandi.

Megin áhersla rannsóknarverkefnisins var að kanna forklíníska garnaveikisýkingu í geitum. Helstu niðurstöður voru að mikinn fjölda sýna, frá mismundandi stöðum í mjógörn og garnaeitlum, þarf að taka til vefjaskoðunar og sýklaræktunar til að auka möguleika á að greina sýkingu. Átfrumur og CD4+ T frumur voru yfirgnæfandi á bólgusvæðum. Flestar átfrumur sýndu merki um aukna agnaátsvirkni en minni getu til vakasýningar. Bakteríurnar komast inn í þarmavegg í gegnum sérhæfðar M frumur.

13. mars
Fyrirlesari: Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, örverufræðingur.
Heiti erindis: Þéttniskynjun baktería og sýkingarmáttur.

Bakteríur sem vaxa í hreinrækt og bakteríur í blönduðum bakteríusamfélögum, hafa áhrif á vöxt og efnaskipti hverra annarra. Þetta fyrirbæri hefur verið nefnt þéttniskynjun (quorum sensing). Margar Gram-neikvæðar bakteríur, bæði sýkjandi- og samlífisbakteríur, nota acylated homoserine lactones (AHLs) í samskiptum á milli bakteríufrumna og einnig í samskiptum á milli bakteríufrumna og hýsilfrumna. Þessi merkjasamskipti gera þeim kleift að stjórna genatjáningu, s.s. seytingu sýkiþátta og geta líka haft áhrif á genatjáningu hýsilsins. Til eru efni sem hindra þéttniskynjun á sértækan hátt. Mikill áhugi er á þróun slíkra efna til að hindra sýkingarmátt baktería og nota í stað sýklalyfja. Í fyrirlestrinum verður greint frá rannsóknum sem unnið er að á Keldum varðandi þéttniskynjun fisksýkjandi baktería og tilraunum sem gerðar hafa verið til að greina og hindra það ferli.

28. febrúar
Fyrirlesari: Hélène L. Lauzon PhD nemi.
Heiti erindis: Áhrif bætibaktería á lifun, þroskun og normalflóru þorsklirfa

Þar sem búast má við samdrætti þorskaflans á komandi árum er nauðsynlegt að efla þorskeldi svo það geti orðið arðbært og samkeppnishæft. Eitt margra viðfangsefna er að bæta afkomu á fyrstu eldisstigum en mikil afföll geta verið í lirfuhópum fyrst eftir klak. Umhverfisþættir skipta hér sköpum, því við slæmar aðstæður geta bæði sýklar og svokallaðir tækifærissýklar náð að margfaldast og valda miklum dauða. Markmið okkar rannsóknar var að auka lifun hrogna/lirfa og stuðla að auknum vexti lirfa í startfóðrun með notkun bætibaktería. Niðurstöður sýna að samsetning örveruflórunnar skýra betur afföll en heildarörveru- eða Vibrio talningar. Einangrun og val bætibaktería var ákveðið út frá ákveðnu skimunarferli og væntanlegri notkun við þorskeldi. Notkun bætibaktería við böðun hrogna og/eða lirfa var skoðuð. Regluleg böðun leiddi yfirleitt til betri afkomu, meiri vaxtar og lífsþróttar, auk þess að hafa áhrif á örveruflóruna og þroskun lirfa.

4. febrúar
Fyrirlesari: Helgi Sigurðsson dýralæknir.
Heiti erindis: Innflutningur sauðfjár og baráttan við mæðiveikina. Ákvarðanaferill og framkvæmd.

Mæðiveiki í sauðfé, og aðrir sjúkdómar sem bárust hingað með innflutningi Karakúlfjár, ullu gífurlegu tjóni og leit á tímabili út fyrir að sjúkdómarnir eyðilegðu rekstrargrundvöll sauðfjárbúskapar í landinu.

Í erindinu er gerð grein fyrir helstu rannsóknaráherslum í sagnfræðilegri skoðun á þessum atburði í íslenskri landbúnaðarsögu. Megináhersla erindisins er á aðdraganda og innflutningi sauðfjár á fyrri hluta 20. aldar og þeim sjúkdómsvandamálum sem fylgdu í kjölfarið. Athyglinni er beint að ákvarðanaferlinum í sjálfum aðdragandanum og að viðbrögðum stjórnkerfisins við þeim vanda sem við blasti, þegar mæðiveikin fór að dreifa sér um landið.

24. janúar
Fyrirlesari: Bryndís Björnsdóttir PhD nemi.
Heiti erindis: Áhrif seytis Moritella viscosa á tjáningu ónæmistengdra gena í laxafrumulínu.

Bakterían Moritella viscosa veldur sjúkdómi sem kallast vetrarsár (e. Winter Ulcer Disease) og hefur valdið umtalsverðu verðmætatapi í laxeldi við norðavert Atlantshaf. Sýnt hefur verið fram á að seyti bakteríunnar framkallar helstu einkenni sjúkdómsins í laxi og getur verið banvænt.

Málmháður peptíðasi, kallaður MvP1, hefur verið einangraður úr seytinu og er unnið að frekari rannsóknum á honum.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif seytis M. viscosa og einangraðs MvP1 peptíðasa á genatjáningu interleukin-1beta (IL-1beta) og interleukin-8 (IL-8) í átfrumulíkri laxafrumulínu (SHK-1). Með rannsókninni var vonast til að varpa ljósi á samspil seytis bakteríunnar og ónæmissvars hýsilsins og verður sagt frá helstu niðurstöðum verkefnisins í fyrirlestrinum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is