Háskóli Íslands

Fræðslufundir 2006

30. nóvember 2006

Fyrirlesari:  Sigurbjörg Þorsteinsdóttir ónæmisfræðingur
Heiti erindis: Sumarexem í hrossum – ónæmismeðferð.
Sumarexem er ofnæmi gegn prótínum úr biti mýflugna af ættkvíslinni Culicoides, en tegundir af þeirri ættkvísl lifa ekki hér á landi. Ofnæmið er afar algengt hjá íslenskum hestum sem fluttir hafa verið úr landi (fyrsta kynslóð), en aftur á móti mun sjaldgæfara hjá íslenskum hestum fæddum erlendis (önnur kynslóð). Rannsóknir okkar hafa leitt í ljós að ónæmisreynsla hesta af fyrstu kynslóð er þó nokkuð frábrugðin ónæmisreynslu hesta af annarri kynslóð. Þetta gæti verið ein orsök þess hversu erfiðlega gengur að stýra ónæmissvörun fyrstu kynslóðar hesta frá ofnæmi með sértækum bólusetningum. Einangrun á ofnæmisvökum sumarexems miðar vel og verður í fyrirlestrinum fjallað um möguleika á að magnframleiða aðalofnæmisvakana í byggi til notkunar í sértækri ónæmismeðferð (afnæmingu) gegn sumarexemi.

--------

16. nóvember 2006
Fyrirlesari:  Hildur Gestsdóttir fornmeinafræðingur, Fornleifastofnun Íslands.
Heiti erindis: Heilsufarssaga Íslendinga frá landnámi til 18. aldar.
Frá 2004 hefur verið unnið að rannsókninni Heilsufarssaga Íslendinga frá landnámi til 18. aldar á Fornleifastofnun Íslands. Meginmarkmiðið er að gera meinafræðilega úttekt á fornum íslenskum mannabeinum frá landnámsöld til 18. aldar, til að leggja grunn að heilsufarssögu þjóðarinnar og frekari rannsóknum á því sviði. Kyn, lífaldur og líkamshæð allra einstaklinga hafa verið greind og allar meinafræðilegar breytingar sem sjást á beinum skráðar og notaðar til að greina þá sjúkdóma sem mögulegt er. Þó skráð séu öll sjúkdómseinkenni, er áherslan lögð á hörgul- og smitsjúkdóma, áverka á beinum af völdum meiðsla og álags, tannskemmdir, ígerðir og tannslíðursrýrnun, því þetta eru þau sjúkdómseinkenni sem gefa bestar upplýsingar um almennt heilsufar. Áætlað er að rannsókninni ljúki 2007.

--------

2. nóvember 2006
Fyrirlesari:  Sigurður Ingvarsson forstöðumaður að Keldum
Heiti erindis: Nóbelsverðlaun í lífeðlis- eða læknisfræði 2006. RNA íhlutun.
Prófessor Andrew Z. Fire við Stanford Háskóla og prófessor Craig C. Mello við Háskólann í Massachusetts deila Nóbelsverðlaunum í lífeðlis- eða læknisfræði árið 2006. Þeir hljóta verðlaunin fyrir uppgötvun sína á því að tvíþátta RNA sameindir geta stjórnað genatjáningu og byggir sú stjórnun á samsvörun í kirnisröð, ferli sem hefur verið kallað RNA íhlutun (interference). Þessi genastjórnun er mikilvæg fyrir þroskun lífvera og starf fruma og vefja. Einnig hefur komið í ljós að RNA íhlutun getur virkað sem veiruvörn og stuðlar að stöðugleika erfðaefnis. Í dag er tvíþátta RNA mikið notað á rannsóknastofum til að rannsaka genastarf. Uppgötvun á RNA íhlutun hefur þegar haft mikil áhrif í líf- og læknisfræði og gæti orðið mikilvæg viðbót sem meðferðararúrræði vegna sjúkdóma.

--------

19. október 2006
Viðar Helgason verkefnisstjóri Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands. Kynningarfundur um hugverkaréttindi.
Ný lög um uppfinningar starfsmanna tóku gildi 1. janúar 2005. Lögin boða talsverða breytingu frá fyrri lögum og kynningunni er ætlað að skýra þá breytingu. Nýtt verklag er í gildi innan H. Í. um uppfinningar starfsmanna, Hugverkanefnd gegnir þar lykilhlutverki. Skyldur H. Í. við starfsmenn, sem og skyldur starfsmanna við H. Í., verða kynntar og ræddar. Lögin frá 1. janúar 2005 eru almenn lög, sem þýðir að þau ná út fyrir veggi Háskólans.

--------

5. október 2006
Fyrirlesari:  Ingjaldur Hannibalsson prófessor
Heiti erindis: Þarfagreining og frumathugun á sérhæfðri nýbyggingu fyrir Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Ingjaldur Hannibalsson prófessor mun fjalla um nýútkomna skýrslu: "Þarfagreining og frumathugun á sérhæfðri nýbyggingu fyrir Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum". Í nefndinni sem hann veitti formennsku störfuðu einnig Stefán B. Sigurðsson prófessor og deildarforseti læknadeildar og Örlygur Geirsson verkefnisstjóri í menntamálaráðuneyti. Menntamálaráðherra skipaði nefndina.
Eftirfarandi kemur fram í lokaniðurstöðu: "Lagt er til að byggt verði yfir Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði vestast á lóð LSH ef unnt er að hefja framkvæmdir í náinni framtíð en annars á lóð Vísindagarða. Væntanleg bygging þarf að vera um 5000 fermetrar og þarf að gera ráð fyrir dýrahaldi, aðstöðu fyrir starfsmenn Yfirdýralæknisembættisins en ekki fyrir bóluefnisframleiðslu. Áætlaður kostnaður við bygginguna er um 1,5 milljarður króna."

--------

14. september 2006
Fyrirlesari: Dr. Eman Hamza, dýralæknir við Dýrasjúkdómadeild Háskólans í Bern í Sviss.
Heiti erindis: The role of T cells in the developement of insect bite hypersensitivity in Icelandic horses. Erindið verður haldið á ensku.
Sumarexem er ofnæmi gegn prótínum úr biti mýflugna af ættkvíslinni Culicoides, en tegundir af þeirri ættkvísl lifa ekki hér á landi. Ofnæmið er afar algengt hjá íslenskum hestum sem fluttir hafa verið úr landi (fyrsta kynslóð). Meira en 50% útfluttra hrossa sem hafa verið 2 ár eða lengur á flugusvæðum fá sumarexem ef ekkert er að gert til að verja þau. Aftur á móti fær aðeins um 10% af íslenskum hestum fæddum erlendis (önnur kynslóð) ofnæmið. T-frumusvörun hesta af fyrstu og annarri kynslóð var borin saman með örvun hvítfruma og mælingum á boðefnum. Í ljós kom að hestar af fyrstu kynslóð höfðu allt annað boðefnasnið en hestar af annarri kynslóð og af þeim sökum virðast þeir síðar nefndu hafa mun betri tök á að bæla ofnæmissvörun þó þeir séu jafn útsettir fyrir flugunum.

--------

2. júní 2006
Fyrirlesari:  Michael A Jarvis, PhD, Assistant Professor, Vaccine and Gene Therapy Institute, Oregon Health Sciences University, Portland, Oregon.
Heiti erindis: Cytomegalovirus: Pathogenesis and Potential. A new generation of large capacity vaccine vectors.
Cytomegaloviruses (CMVs) are a family of large DNA herpesviruses that are exquisitely adapted for survival within the host due to >80 million years of co-evolution. CMV persists for the lifespan of the host, but is unique among herpesviruses in its strategy of persistent replication even in the presence of high CMV-specific immunity. The focus of my research is understanding mechanisms of CMV persistence, and exploiting this characteristic of CMV to utilize this virus as a vaccine vector. An innate immune evasion function of CMV that results in inhibition of IL-1 and TNFa ?signalling pathways will be described, as well as results from our ongoing studies using CMV as a vaccine vector in the simian immunodeficiency virus (SIV) model.

--------

6. apríl 2006
Fyrirlesari: Vilhjálmur Rafnsson, prófessor í heilbrigðis og faraldsfræði.
Heiti erindis: Nýgengi krabbameina og sauðfjárbaðanir með skordýraeitri.
Fjárkláðinn var landlægur á Íslandi áður fyrr og ýmsum ráðum beitt í baráttunni við hann. Skordýraeitrið hexachlorocyclohexan var eingöngu notað eftir 1947. Baðskýrslur úr fórum yfirdýralæknis frá tímabilinu 1962 til 1980, þar sem tilgreindir voru eigendur og fjöldi baðaðs fjár, hafa orði tilefni til rannsókna á krabbameinshættu þessara fjáreiganda og athugað hvort þeir koma fram í Krabbameinsskránni. Í ljós kom að miðað við aðra Íslendinga er þeim síður hætt við krabbameinum í heild ef undan er skilið krabbamein í vör. Böðun var óþrifalegt starf þar sem menn urðu gjarnan votir af baðlegi. En er krabbameinunum jafnt dreift í hópi fjáreiganda eða er það eftir fjáreign? Fjallað verður um þetta og aðrar þær upplýsingar sem hægt er að fá um krabbamein sem tengjast notkun skordýraeitursins.

--------

23. mars 2006
Fyrirlesari:  Sigurbjörg Þorsteinsdóttir ónæmisfræðingur
Heiti erindis: Skiptir ónæmisstaða hesta við útflutning máli í sumarexemi?
Sumarexem er ofnæmi í hestum gegn biti af völdum mýflugna af ættkvíslinni Culicoides. Ofnæmið er algengt vandamál í íslenskum hestum sem fluttir eru út, en Culicoides tegundir lifa ekki á Íslandi. Íslenskir hestar, sem fæddir eru erlendis, fá ofnæmið í mun minna mæli. Aukin þekking á ferlum ónæmissvars hefur gert kleift að stýra ónæmissvari og hanna bóluefni gegn ofnæmi í tilraunadýrum. Þetta hefur reynst mun erfiðara í stærri dýrum og mönnum og er það einnig okkar reynsla í hestum, en markmiðið er að þróa bóluefni eða aðra ónæmismeðferð gegn sumarexemi. Nýlegar niðurstöður okkar sýna að ónæmissvar og sjúkdómsmynd sumarexems í útfluttum íslenskum hestum er í veigamiklum atriðum frábrugðin því sem sést hjá öðrum kynjum. Einnig virðist munur á ónæmismyndinni milli hesta sem fæddir eru á Íslandi, samanborið við íslenska hesta sem fæddir eru í Sviss og gæti það átt þátt í hversu erfiðlega gengur að stýra ónæmissvari þeirra fyrr nefndu.

--------

9. mars 2006
Fyrirlesari:  Sigurður Ingvarsson forstöðumaður að Keldum
Heiti erindis: Erfðagreyping og sjúkdómsmynd
Erfðagreyping er epigenetískt afbrigði sem veldur því að tjáning gena fer eftir foreldrauppruna litnings. Slík afbrigði geta verið af völdum methýleringar. Ýmsir sjúkdómar og heilkenni geta einkennt svipgerðina. Í Beckwith-Wiedemann heilkenni kemur fram meðfæddur ofvöxtur á líffærum, misræmi í stærð líkamshelminga og æxlisvöxtur. Erfðir heilkennisins geta verið flóknar en einkennast af stökkbreytingum, erfðagreypingu og afbrigðilegu litningasvæði 11p15.5. Sérstök erfðagreypt gen sem hafa verið bendluð við Beckwith-Wiedemann heilkennið eru m.a. IGF2 og LIT1 sem tjáð eru af föðurlitningi og H19, CDKN1C og KCNQ1 sem tjáð eru af móðurlitningi. Lýst er fyrsta tilfelli sem greinst hefur hér á landi með tvöföldun á litningi 11 frá föður og brotthvarfi sama litnings frá móður. Greining á erfðaefnisbreytingum í Beckwith-Wiedemann heilkenni er mikilvæg í ljósi þess að svipgerð getur verið breytileg og skörun er við önnur heilkenni.

--------

9. febrúar 2006
Fyrirlesari:  Bjarnheiður Guðmundsdóttir örverufræðingur
Heiti erindis: Bakteríusýkingar í þorski og tilraunir til bólusetninga.
Á Íslandi á sér nú stað samþætt átak við að efla þorskeldi. Eldið byggir ýmist á áframeldi á smáþorski sem er veiddur og síðan fluttur í kvíar eða strandker, eða eldi seiða frá kviðpokastigi. Afföll eru enn allt of mikil á fyrstu stigum eldisins og margt bendir til þess að bakteríusýkingar eigi þar hlut að máli. Ennfremur hafa faraldrar af völdum sýkjandi baktería valdið tjóni í áframeldi. Átta tegundir baktería eru helstu sjúkdómsvaldar í eldisfiskum við strendur Norður-Atlantshafs. Smit getur borist úr einni fisktegund í aðra, en nokkuð er mismunandi fyrir hvaða sýklum mismunandi tegundir eru næmastar. Ennfremur er næmi fiska háð aldri og eldisaðstæðum. Í erindinu verður fjallað um helstu bakteríutegundir sem hafa verið vandamál í þorskeldi og einkenni sýkingar. Einnig verður greint frá íslenskum og erlendum tilraunum til að bólusetja þorsk gegn bakteríusjúkdómum.

26. janúar 2006
Fyrirlesari:  Vala Friðriksdóttir ónæmisfræðingur
Titill: Garnaveikibakterían - tengist hún Crohn's sjúkdómi?
Bakterían Mycobacterium avium subsp. paratuberculosis veldur garnaveiki í jórturdýrum. Hún finnst víða í umhverfinu, lifir lengi í jarðvegi og getur valdið þungum búsifjum. Þrátt fyrir síauknar áherslur á aðgerðir til að útrýma og/eða halda garnaveiki í skefjum er hún vaxandi vandamál víða um heim.
Hingað til hefur eingöngu verið litið á bakteríuna sem vandamál í dýrum en á síðari árum hafa verið áberandi vangaveltur um það hvort garnaveikibakterían geti orsakað Crohn's sjúkdóm í mönnum.
Í erindinu verður sagt frá bakteríunni og rakin lauslega saga garnaveiki á Ísland. Rætt verður um leiðir sem farnar eru í ýmsum löndum til að reyna að halda garnaveiki í skefjum. Í lokin verður sagt frá hugmyndum manna um hugsanleg tengsl garnaveikibakteríunnar við Crohn´s sjúkdóm, en þar eru skoðanir mjög skiptar.

--------

3. janúar 2006
Fyrirlesari :  Stefán Ragnar Jónsson líffræðingur
Heiti erindis: Virkni og þróun APOBEC3 retróveiruhindra.
Lífverur hafa frá örófi alda þróað með sér varnir gegn retróveirusýkingum. Dæmi um slíkt eru APOBEC3 próteinin en þau eru fjölskylda cytósín deaminasa sem geta hindrað retróveirur (þar á meðal er mæði-visnuveira í sauðfé og alnæmisveiran, HIV-1) með því að afaminera cýtósín í urasíl í einþátta DNAi meðan á víxlritun stendur. Lentiveirur hafa þó mótleik við þessu, veirupróteinið Vif sem stuðlar að niðurbroti APOBEC3 próteina. APOBEC3 prótein er eingungis að finna í spendýrum. Í þessu verkefni hafa klaufdýr verið skoðuð með það fyrir augum að ákvarða hvort APOBEC3 prótein þeirra virki á sama hátt og manna APOBEC3 prótein gegn retróveirum. Klónuð hafa verið APOBEC3 prótein úr kindum, kúm og svínum og sýnt fram á virkni þeirra við af-amineringu á einþátta DNAi og hindrun retróveirusýkingar

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is