Háskóli Íslands

Bókasafn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Aðdragandann að stofnun bókasafnins að Keldum má rekja allt til ársins 1946 er Björn Sigurðsson var skipaður forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar. Þá þegar hófst hann handa við að kaupa bækur og tímarit.

Í upphafi var safnið í nokkrum hillum hjá Háskóla Íslands. Þegar starfsemi Tilraunastöðvarinnar hófst 1948 var bókakosturinn fluttur að Keldum. Björn Sigurðsson var duglegur við að efla bókakost stofnunarinnar og fylgdist vel með því markverðasta sem var gefið út á þessum árum.

Rockefeller-stofnunin í Bandaríkjunum veitti stofnuninni styrk og gerði Keldum kleift að eignast mikilvægar bækur og tímarit þannig að safnkostur Keldna þótti einstakur hér á landi á þessum árum.

Bókavörður safnsins fyrstu árin var Páll Sigurðsson. Hann hafði áður starfað sem aðstoðarmaður Björns og kom með honum að Keldum. Páll vann við ýmis störf önnur t.d. ljósmyndun og bóluefnaframleiðslu þar til hann lét af störfum er hann varð sjötugur 1995, Páll lést skömmu síðar.

Þorsteinn Þorsteinsson, lífefnafræðingur, frá Húsafelli, sá m.a. um skráningu á ýmsum sérprentum, bréfum og skjölum og kom upp skjalasafni stofnunarinnar, Þorsteinn lét af störfum í árslok 1996.

Núverandi húsnæði safnsins var tekið í notkun um 1965 og er það enn í óbreyttri mynd og hefur verið friðað.

Húsameistari ríkisins Hannes Davíðsson arkitekt
teiknaði vinnubyggingar að Keldum, dýrahús og íbúðarhús forstöðumanns. Fyrsta byggingin tekin í notkun 1948 og hófst þá starfsemi stofnunarinnar.

Við hesthús og hlöðu var hafist handa 1954 og við nýbyggingu til aukningar á húsakynnum fyrir rannsóknarstörf var lokið árið 1965.

Bókasafnið flutti í þá byggingu árið 1964, en 1965 var frágangi lokið.

Bókasafnið þótti höfuðprýði stofnunarinnar og var jafnframt hugsað sem lestrar-, fyrirlestra- og fundarsalur.

Járnhandrið á bókasafninu er líklega hannað af Þorvaldi Skúlasyni. Jón Gunnar Árnason var blikksmiður á þessum tíma og setti það upp, en hannaði það ekki. Hann mun hafa gert verkið sem hangir á innveggnum á neðri hæð bókasafnsins meðan hann var að vinna við handriðið og sennilega hefur það verið upphafið að listamannsferli hans. Það hékk þarna í mörg ár áður en Guðmundur Pétursson lét Keldur kaupa verkið. Veggmyndin ber heitið: Svo er margt sinnið sem skinnið (haft er eftir Páli Agnari Pálssyni að fyrirmyndin væri innyfli úr hval). Á skúlptúrnum eru litar málmplötur sem hreyfa má og breyta að vild.

Á handriði á efri hæð bókasafnins er koparlistaverk, hannað af Sigujóni Ólafssyni, hermt er að samskonar veggmynd sé á Búrfellsvirkjun, eftir Sigurjón, þá hönnuð í múrverk ( PAP). Sigurjón gerði einnig brjóstmynd af Birni Sigurðssyni, forstöðumanni á Keldum á árunum 1948-1959, sem er á efri hæð bókasafnsins.

Á norðurvegg bókasafnsins er málverk eftir Jóhann Briem. Myndin heitir Rauðhetta og er 90x115 cm. Una Jóhannesdóttir ekkja Björns Sigurðssonar keypti málverkið og gaf Keldum til minningar um Björn þegar hann hefði orðið fimmtugur 3. mars 1963.

Í upphafi var safnið vel búið húsgögnum sem nú eru komin til ára sinna en hafa verði gerð upp að hluta, m.a. eru þar leðurstólar hannaðir af Gunnari Guðmundsyni arkitekt.

Ýmis listaverk á bókasafninu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is