Háskóli Íslands

Björn Sigurðsson

Fyrsti forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar að Keldum var Björn Sigurðsson (1913-1959). Hann var skipaður í þá stöðu árið 1946 og tveimur árum síðar, 1948 hófst starfsemi að Keldum í nýrri rannsóknastofuaðstöðu.

Björn fæddist 3. mars 1913 á Veðramóti í Skagafirði og lauk kandídatsprófi í læknisfræði árið 1937. Áður en hann hóf störf að Keldum vann hann á Rannsóknastofu Háskólans við Barónsstíg, á sjúkrahúsi Hvítabandsins og í tvö ár var hann við nám og störf við Carlsbergsfondets Biologiske Institut í Kaupmannahöfn. Björn fórtil framhaldsnáms og starfa í Rockefeller Institute í Princeton, New Jersey árið 1941. Rockefellerstofnunin lagði fram styrk til uppbyggingar Tilraunastöðvarinnar að Keldum að því tilskyldu að Björn yrði forstöðumaður.

Björn lést um aldur fram og hafði þá aðeins verið rúman áratug í starfi forstöðumanns Tilraunastöðvarinnar að Keldum. Á stuttri æfi vann hann ótrúlega mikið starf við rannsóknir á sviði meinafræði, bakteríufræði, veirufræði, ónæmisfræði og faraldsfræði.

Björn varð víðfrægur fyrir störf sín og ber hæst rannsóknir hans á hæggengum smitsjúkdómum og skilgreiningar hans á þeim. Á ensku hefur verið vitnað til skilgreininga hans sem „The legacy of Dr. Bjorn Sigurdsson“. Björn Sigurðsson er upphafsmaður hugmynda um sérstakan flokk smitsjúkdóma sem hann nefndi annarlega hæggenga veirusjúkdóma. Þessar hugmyndir Björns voru byggðar á rannsóknum á ýmsum sýkingum í sauðfé, svo sem votamæði, þurramæði, visnu og riðu, og reyndar hafði hann einnig í huga ýmsar æxlisveirur í músum og fleiri dýrum. Þeir vísindamenn sem vinna að rannsóknum á hæggengum veirusýkingum í mönnum og dýrum víða um heim nú á dögum þekkja og meta brautryðjendastarf Björns Sigurðssonar  á þessu sviði, og nýtur starfsemin á Keldum enn þann dag í dag góðs af þeirri viðurkenningu, sem stofnuninni tókst þegar að afla sér á alþjóðlegum vettvangi á fyrstu starfsárunum. Þetta þýðir að Björn setti fyrstur manna fram kenningu um sérstakan flokk smitsjúkdóma, hæggenga smitsjúkdóma og heldur kenning hans enn velli.

Á Tilraunastöðinni að Keldum tókst Birni og samstarfsmönnun í fyrsta sinn í heiminun að rækta veirur af lentiveiruflokki, en nafnið lentiveirur er dregið af hugmyndum Björns. Þessi veira ber heitið Mæði- visnuveira (MVV) og eftir einangrun á henni tókst Birni og samstarfsmönnum að lýsa ýmsum einkennum sem hún veldur.

Einnig vann Björn ekki síður merkar rannsóknir á riðu og garnaveiki í sauðfé og byggði doktorsritgerð hans frá árinu 1955 á rannsóknum á garnaveiki.

Eftirfarandi ritlisti Björns Sigurðssonar er tekin frá „Björn Sigurðsson dr.med. Ritverk – Collected Scientific Papers 1936- 1962. Útg. Jóhannes Björnsson og Sigurður Björnsson 1990, Reykjavík.“

Ritaskrá

Minningarorð um Björn Sigurðsson rituð af Páli A. Pálssyni í Annals New York Academy of Science 1994

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is