Háskóli Íslands

Um fuglablóðögður og sundmannakláða

Sundlirfur fuglablóðagða (Schistosomatidae) valda útbrotum á fólki sem nefnd eru sundmannakláði en fólk kemst í snertingu við lirfurnar þegar synt er eða vaðið í vatni þar sem lirfurnar eru til staðar. Þótt fullorðinsstig þessara flatorma (Digenea) séu hýsilsérhæfð fuglasníkjudýr, gera lirfurnar ekki greinarmun á húð fugla og spendýra og hika hvergi eigi þær kost á því að bora sig inn í líkama spendýra. Kláðabóla myndast eftir hverja lirfu sem ónæmiskerfi mannslíkamans nær að stöðva. Raunar eru ónæmisviðbrögðin sönnun þess að tekist hafi að hefta för lirfunnar og verið sé að eyða henni. Sýni menn aftur á móti ekki ónæmisviðbrögð hafa lirfurnar náð að smjúga óáreittar inn í líkamann. Þar ná þær þó aldrei að þroskast eðlilega heldur drepast fljótlega. Lítið er vitað um sjúkdómana, til dæmis astma eða taugaskemmdir, sem sníkjudýrin eru talin orsaka í mönnum.

Sundmannakláði var fyrst staðfestur á Íslandi 1997 þegar hundruð barna fengu kláðabólur á fætur eftir að hafa buslað í vaðtjörn í Fjölskyldugarðinum í Reykjavík. Fyrstu vísbendingar um sambærileg útbrot á Íslandi eru raunar frá árinu 1925. Á seinni árum hefur sundmannakláði hrjáð fólk víðar á landinu, bæði þar sem jarðhita gætir, eins og í Landmannalaugum, og í grunnum vötnum eins og Botnsvatni, þar sem vatnið nær að hitna það mikið á sólríkum sumardögum að fólk sækir þangað til að vaða eða synda.

Fram til þessa hafa sundlirfur einungis fundist á Íslandi í vatnabobbanum (Radix peregra) en þar fjölgar þeim með kynlausri fjölgun. Fullorðnar blóðögður hafa aftur á móti verið staðfestar í sex tegundum andfugla: álft (Cygnus cygnus), grágæs (Anser anser), stokkönd (Anas platyrhynchos), urtönd (Anas crecca), duggönd (Aythyia marila) og toppönd (Mergus serrator). Um er að ræða margar tegundir og voru flestar þeirra ókunnar í vísindaheiminum þegar þær fundust þannig að töluverð vinna hefur farið í að lýsa tegundunum og hefur sú vinna verið gerð í samvinnu við erlent samverkafólk.

 

Fuglasníkjudýr með flókna lífsferla

Fuglablóðögður eru sníkjudýr af ættinni Schistosomatidae sem tilheyra flatormum (Digenea). Lífsferillinn er flókinn. Á fullorðinsstigi lifa blóðögður inni í bláæðum eða í nærliggjandi vefjum fugla, annaðhvort við aftasta hluta meltingarvegar (iðraögður) eða í nefholi (nasaögður).

Lífsferill fuglablóðagðaÍ lífsferlinum eru tvö skammlíf en vel hreyfanleg lirfustig. Annað er bifhærð lirfa (miracidium) sem leitar uppi vatnasnigilinn sem er millihýsill í lífsferlinum. Eftir að hafa borað sig inn í hann umbreytist hún í lirfusekk (sporocyst) sem framleiðir fjöldann allan af dótturgróhirslum. Í þeim verða sundlirfurnar (cercaria) til, hitt hreyfanlega stigið. Þær geta synt um í vatni í einn til tvo daga og hafa það hlutverk að leita uppi fuglinn, sem er lokahýsill viðkomandi tegundar, rjúfa sér leið inn í hann og umbreytast í ormlaga flökkustig (schistosomulae) sem þroskast á nokkrum vikum í kynþroska blóðögðu. 

 

Flokkun nasa- og iðrablóðagða

Fuglablóðögður finnast um allan heim. Þær eru flokkaðar í níu ættkvíslir og lifa sjö þeirra í Evrópu. Lirfustig þriggja ættkvíslanna fjölga sér í ferskvatnssniglum. Tegundaflesta ferskvatnstengda ættkvíslin er Trichobilharzia Skrjabin et Zakharow, 1920, með að minnsta kosti átta þekktar tegundir í Evrópu. Þrjár aðrar tegundir eru þekktar í Evrópu, ein innan ættkvíslarinnar Bilharziella Loss, 1989 önnur innan Dendritobilharzia Skrjabin et Zakharow, 1920 og sú þriðja er iðraagðan Allobilharzia visceralis sem nýlega fannst í álftum hér á landi. Ekki er vitað hvaða snigill hýsir lirfustigið og hvort hann lifir í ferskvatni eða sjó. Raunar bendir margt til þess að þessi snigill lifi ekki hérlendis því ungar álftir sem aldrei hafa yfirgefið landið hafa ekki greinst smitaðar, en á hinn bóginn hefur mikið smit fundist í álftum sem voru að koma af vetrarstöðvunum. Tegundin er þó ekki bundin við Evrópu því hún fannst nýverið vestanhafs í túndrusvaninum (C. columbianus).

 

Rannsóknir á Íslandi

Rannsóknir á sundmannakláða á Íslandi hófust í septemberbyrjun 1997 en þá kom í ljós að kláðabólur á fótum barna, sem höfðu verið að leika sér í vaðtjörn Fjölskyldugarðsins í Reykjavík, mátti rekja til sundlirfa fuglablóðagða í vatninu. Við LandmannalaugarSíðar hefur víðar orðið vart við sundmannakláða, meðal annars í Botnsvatni við Húsavík og í Landmannalaugum þar sem þessi mynd er tekin ofan við fyrirhleðslu á baðstaðnum.

Ýmsar athuganir verið gerðar á blóðögðum hér á landi. Fylgst hefur verið með tilfellum sundmannakláða og upplýsingum safnað um tildrög og aðstæður. Sniglum hefur verið safnað í lífmiklum vötnum víða um land og leitað í þeim að sundlirfum og leitað hefur verið að fullorðnum blóðögðum og eggjum þeirra í ýmsum tegundum vatnafugla.

 

Íslenska blóðögðufánan

Ein nasaögðutegund er þekkt í Evrópu, Trichobilharzia regenti  og er hún einnig algeng hér á landi, meðal annars í stokköndum, urtöndum og duggöndum í Landmannalaugum. Flestar tegundir innan ættkvíslarinnar Trichobilharzia eru iðraögður. Í heiminum eru þekktar um 40 tegundir en í Evrópu hefur einungis þremur verið lýst á fullnægjandi hátt. Nokkrir fulltrúar ættkvíslarinnar hafa fundist til viðbótar hér á landi.Stokkönd Lýsing á tegund sem hér lifir í grágæsum er langt komin og vísindagrein í undirbúningi. Einnig er verið að vinna að endurlýsingu systurtegundar T. franki sem og annarar óþekktrar tegundar iðraögðu sem hér fannst nýverið í stokköndum. Nýlega var lokið við að lýsa tegund (T. mergi) sem algeng er á Íslandi í toppöndum og áður var nefnd álftaagðan Allobilharzia visceralis. Fánan hér á landi er því sérlega fjölbreytt.

 

Kláðabólur og ónæmissvaranir

Sundlirfurnar gera ekki greinarmun á húð fugla og spendýra og rjúfa sér óhikað leið þar í gegn, bjóðist slíkt. Í mönnum nær ónæmiskerfi líkamans oft að stöðva innrás lirfanna. Þegar engin útbrot myndast hefur ónæmiskerfinu ekki tekist að stöðva lirfurnar sem náðu að breyta sér í flökkustigið, sem þó þroskast óeðlilega í spendýrum og drepast oftast innan fárra klukkustunda eða daga. Útbrotin sem lirfur fuglablóðagða valda á fólki eru gjarnan nefnd sundmannakláði, sem er þýðing á heitinu swimmer’s itch.

Talið er að allar tegundir fuglablóðagða orsaki sundmannakláða. Endurtekið smit leiðir til aukins ónæmissvars. Sumir geta jafnvel orðið ofurnæmir og þá ógna sundlirfurnar lífi manna. Þótt útbrot af völdum sundlirfa hverfi á 1–2 vikum, þá veldur kláðinn einn og sér mikilli vanlíðan. Stundum klóra menn sig til blóðs þannig að síðkomnar sýkingar ná sér á strik. Það að fá kláðabólu er staðfesting þess að ónæmiskerfi líkamans hafi stöðvað för og frekari þroska lirfunnar.Kláðabólur Öðru máli gegnir um þá sem ekki fá nein ónæmisviðbrögð. Þar hafa sundlirfurnar komist inn í líkamann og náð að fela sig fyrir ónæmiskerfinu. Ekki er vitað hversu lengi lirfurnar lifa í fólki og hvert þær ná að flakka áður en þær drepast því slíkt hefur aldrei verið rannsakað í mönnum. Dýratilraunir hafa aftur á móti staðfest að lirfur sem komast inn í líkama spendýra drepast fljótlega og ná þar aldrei fullum þroska. Jafnframt hefur verið staðfest að nasaögður eru taugasæknar í spendýrum rétt eins og í fuglum og á sama hátt sækja iðraögður fuglablóðagða strax í blóðrás spendýra. 

Yfirleitt eru sýkingar af nasaögðum taldar alvarlegri en þegar iðraögður eiga í hlut. Er það vegna sækni nasaagðanna í taugar og hættunnar á taugaskemmdum. Þá er vitað að vaxandi iðraögður, sem oft dvelja dögum saman í lungum spendýra, valda þar blæðingum og astma. Almennt er álitið að skaðinn standi í réttu hlutfalli við fjölda lirfanna sem komust inn í líkamann og þann tíma sem það tók ónæmiskerfið að ráða niðurlögum þeirra. 

 

Þjáningar blóðögðu-smitaðra andarunga

Rannsóknir á blóðögðusmituðum öndum hafa sýnt að fuglarnir geta verið fárveikir. Smitaðir ungar þrífast greinilega illa og vaxa hægt. Blóðögðusmitaðar stokkandalappirMiklar bólgur sjást í meltingarfærum og nefholi og önnur sníkjudýr, bæði bandormar og þráðormar, ná iðulega að magnast upp í þessum fuglum. Síðsumars á árunum 2004 og 2005, þegar þúsundir baðgesta fengu sundmannakláða í Landmannalaugum og gífurlegur fjöldi sundlirfa var á sveimi í vatninu, voru stokkandarungarnir sem mögnuðu upp þessar sýkingar á Laugalæknum svo illa farnir að þeir voru að dauða komnir. Á myndinni sjást sundfit fimm  hálffullorðinna stokkanda þar sem húðin milli tánna hefur eyðst að mismiklu leyti. Fitin milli tánna er algjörlega horfin á löppunum lengst til vinstri. 

Sundfit eru aðal inngöngustaður blóðögðulirfanna inn í líkama fuglanna. Því er talið líklegt að tengsl séu milli þessa vefjaskaða og mikils fjölda blóðögðulirfa í vatninu.

 

Lokaorð

Fuglablóðögðurnar sem fundist hafa á Íslandi eru greinilega, að minnsta kosti sumar hverjar, hýsilsérhæfðar. Iðraögður grágæsa hafa til dæmis aldrei fundist í álftum á Reykjavíkurtjörn þótt fuglarnir lifi þar hlið við hlið og iðraögður toppandanna á Botnsvatni fundust hvorki í himbrima né stokköndum sem lifðu við hlið toppandanna. Svipuð hýsilsérhæfni virðist einnig eiga sér stað hvað varðar millihýslana, þannig að í ferskvatni hér á landi er tæplega að búast við öðrum tegundum en þeim sem geta notað vatnabobba sem millihýsil. Hinar sniglategundirnar sem hér finnast í ferskvatni eru það sjaldgæfar og hafa það takmarkaða útbreiðslu að þær virðast ekki ná að halda uppi lífsferlum blóðagða. 

Mestar líkur eru á að fá sundmannakláða á Íslandi þar sem jarðhita gætir og geta menn átt von á slíku allan ársins hring. Um og eftir mitt sumar má sömuleiðis eiga von á því að fá sundmannakláða þar sem andfuglar og vatnabobbar eru algengir. Líklegast er að verða þess var í grunnum vötnum sem hitna það mikið að sumarlagi að fólk tekur til við að vaða þar eða baða. Allajafna eru vötn á Íslandi samt of köld til þess að fólk haldist þar við. Það gæti samt breyst í framtíðinni, og sundmannakláði aukist, rætist spár um hlýnun loftslags. 

Fólk er hvatt til að útsetja sig ekki fyrir sundlirfum fuglablóðagða. Þeir sem sýna ónæmisviðbrögð sitja uppi með slæman kláða og það eitt og sér er oftast mjög óþægilegt. Hitt er þó talið alvarlegra – þegar engin útbrot myndast – því þá hafa lirfurnar komist inn í líkamann þar sem þær drepast samt fljótlega án þess að ná fullum þroska. Einkum á þetta við um nasaögður því þær sækja í taugavefinn sem þær éta sér til vaxtar og viðurværis. Tilraunir með mýs hafa sýnt að sumar lirfurnar geta lifað í taugakerfinu í marga daga og jafnvel vikum saman áður en þær drepast. Flökkustig iðraagða sem ekki tekst að stöðva í húðinni eru aftur á móti taldar valda alvarlegustu einkennunum í lungum spendýra.

 

Karl Skírnisson

 

Heimildir

Aldhoun, J., Kolářová, L., Horak, P. & Karl Skírnisson. 2009. Bird schistosome diversity in Iceland: molecular evidence. Journal of Helminthology 83. 173–180. 

Jouet D, Skírnisson K, Kolářová L and Ferté H. 2010. Final hosts and variability of Trichobilharzia regenti under natural conditions. Parasitology Research 107:923–930

Jouet D, Skírnisson K, Kolářová L and Ferté H. 2010. Molecular diversity of Tichobilharzia franki in two intermediate hosts (Radix auricularia and Radix peregra): a complex of species. Infection, Genetics and Evolution 10: 1218-1227. 

Karl Skírnisson. 2010. Um fuglablóðögður og sundmannakláða. Þemahefti til heiðurs Arnþóri Garðarssyni. Náttúrufræðingurinn 79 (1-4): 71-81.

Karl Skírnisson, Aldhoun, J. & Kolářová, L. 2009. Swimmer’s itch and the occurrence of bird schistosomes in Iceland. Journal of Helminthology 83. 165–171.

Karl Skírnisson, Jens Magnússon, Þorbjörg Kristjánsdóttir & Kolářová, L. 1999. Sundmannakláði staðfestur á Íslandi. Læknablaðið 84. Fylgirit 37. 59.

Karl Skírnisson & Kolářová, L. 2002. Stafar mönnum hætta af lirfum fuglablóðagða? Læknablaðið 88. 739–744.

Karl Skírnisson & Kolářová, L. 2005. Sundmannakláði í Landmannalaugum. Læknablaðið 91. 729–736.

Karl Skírnisson & Kolářová, L. 2008. Diversity of bird schistosomes in anseriform birds in Iceland based on egg measurements and egg morphology. Parasitology Research 103. 43–50.

Karl Skírnisson, D. Jouet, H. Ferté, Petr Horak, and Libuse Kolářová. 2012. Morphological features of the nasal bloodfluke Trichobilharzia regenti (Schistosomatidae, Digenea) from naturally infected ducks. Parasitology Research 110: 1881–1892.

Kolářová Libuše, Karl Skírnisson, Hubert Ferté & Damien Jouet. 2013. Trichobilharzia mergi sp. nov. (Trematoda: Digenea: Schistosomatidae), a visceral schistosome of Mergus serrator (L.) (Aves: Anatidae). Parasitology International 62: 300-308. 

Kolářová, Libuše, Karl Skírnisson & Petr Horak. 1999. Schistosome cercaria as the causative agent of swimmer’s itch in Iceland. Journal of Helminthology 73. 215–220.

Kolářová Libuše, Petr Horak  & Karl Skírnisson. 2010. Methodical approaches in the identification of areas with a potential risk of infection by bird schistosomes causing cercarial dermatitis. J. Helminthology 84(3):327-35.

Kolářová, Libuše, Petr Horák, Karl Skírnisson, Helena Marečková and Michael Doenhoff. 2013. Cercarial dermatitis, a neglected allergic disease. Clinical Reviews in Allergy and Immunology 45: 63-74.

Kolářová, Libuše, Rudolfová, J., Hampl, V. & Karl Skírnisson 2006. Allobilharzia visceralis gen. nov., sp. nov. (Schistosomatidae – Trematoda) from Cygnus cygnus (L.) (Anatidae). Parasitology International 55. 179–186.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is