Háskóli Íslands

Tíðni sumarexems

Með vaxandi vinsældum íslenska hestsins í Evrópu á 20. öld tóku menn fjótlega eftir því að hestar af þessu kyni fengu exemið í hærri tíðni en önnur hross og einnig að tíðnin var mest í hestum sem komu frá Íslandi fremur en íslenskum hestum fæddum erlendis. Það er ekki fyrr en á síðustu árum að tíðni sumarexems í íslenskum hestum var rannsökuð með markvissum hætti. Í norrænum rannsóknum komu fram vísbendingar um að fjórðungur útfluttra hesta fengi sumarexem en áhættan væri mun minni fyrir hesta af íslensku kyni fæddum erlendis, eða minni en 10% (Brostrom et al., 1987; Halldorsdottir and Larsen, 1991). Ýtarlegasta rannsóknin sem gerð hefur verið á tíðni sumarexems var gerð með klínískri skoðun á 350 útfluttum hestum í Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi. Ekki var hægt að sýna fram á tengsl sumarexems við erfðir í þessari rannsókn en hrossin voru afkvæmi 17 valinna stóðhesta. Í rannsókninni reyndust u.þ.b. fjórðungur hestanna vera með sumarexem en athyglisverðast var að ef hrossin höfðu verið tvö ár eða meira á flugusvæðum og ekkert gert til að verja þau fyrir smámýinu þá voru 54% þeirra með einkenni sumarexems (Bjornsdottir et al., 2006). Svipuð rannsókn var gerð á tíðni sumarexems í Þýskalandi á tæplega 1000 íslenskum hrossum fæddum á meginlandi Evrópu og var tíðnin á bilinu 3-7% (Reiher, 2006).

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is