Háskóli Íslands

Sýklalyfjaónæmi E. coli í kjúklingaeldi á Norðurlöndunum

Rannsóknir á sýklalyfjaónæmum E. coli í kjúklingaeldi á Norðurlöndunum

Starfslið: Eggert Gunnarsson og Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir  

Samstarf: Marianne Sunde (Veterinærinstituttet, Noregi) og Björn Bengtsson (Statens veterinärmedicinska anstalt, SVA, Svíþjóð)

Upphaf: 2013. Lok: 2014

 

ESBL/AmpC jákvæður stofnÁrið 2013 var veittur styrkur frá Norrænum vinnuhópi um örverufræði, dýraheilsu og dýravernd (NMDD) á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, til að rannsaka sýklalyfjaónæma stofna Escherichia coli sem einangrast úr sláturkjúklingum á Norðurlöndunum. Meginmarkmið verkefnisins er að afla þekkingar um stofna E. coli, sem eru ónæmir fyrir ákveðnum mikilvægum sýklalyfjum, í kjúklingaeldi á Norðurlöndunum í þeim tilgangi að geta veitt ráðgjöf til yfirvalda og iðnaðarins um leiðir til að koma í veg fyrir uppkomu og dreifingu slíkra stofna í fæðukeðjunni. Einnig á að kanna faraldsfræði sýklalyfjaónæmra klóna og skilgreina árangursríka klóna sem mögulega hafa dreifst um Norðulöndin. Lögð er áhersla á að greina stofna sem eru ónæmir fyrir þriðju kynslóðar cephalosporínum og mynda breiðvirka beta-laktamasa (Extended Spectrum Beta Lactamases, ESBL) og stofna sem eru ónæmir fyrir lyfjum af flokki flúorókínólóna. Skimað verður fyrir flúorókínólónaónæmum og ESBL myndandi E. coli í eldissýnum úr kjúklingum á Íslandi frá september 2013 og út árið 2014. Einnig verður skimað fyrir ESBL myndandi E. coli  í kjúklingakjöti á árinu 2014.

Mikil áhersla hefur verið lögð á það í alþjóðasamfélaginu undanfarin ár að sporna við auknu sýklalyfjaónæmi baktería. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint sýklalyfjaónæmi sem eina af stærstu heilbrigðisógnum heimsins. Aukið ónæmi fyrir sýklalyfjum veldur vandamálum við meðferð sýkinga og hefur þar af leiðandi slæmar afleiðingar fyrir heilsu manna og dýra og veldur auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustu.

 

Ekki hafa áður verið gerða rannsóknir hér á Íslandi á tilvist ESBL myndandi E. coli í kjúklingaeldi. Í ákveðnum löndum Evrópu er tíðni þessara stofna í kjúklingaeldi mjög há og hefur verið að aukast víðast hvar(1-3), en hún hefur hingað til verið lág á Norðurlöndunum(4, 5). Tíðni flúorókínólóna ónæmra stofna hefur einnig verið há víða í Evrópu og árið 2008 reyndust um 42% E. coli stofna úr kjúklingum á Íslandi vera ónæmir fyrir flúorókínólónum(6, 7). Rannsóknir hafa sýnt fram á að sýklalyfjaónæmir stofnar E. coli finnast í matvælum og geta stofnarnir og/eða ónæmisgen þeirra borist úr dýrum í menn í gegnum matvæli(8-10). 

Aukin þekking á stofnum sýklalyfjaónæmra baktería og faraldsfræði þeirra er mikilvæg til að móta stefnu fyrir aðgerðir til að draga úr tíðni ónæmra baktería og hindra flutning þeirra og ónæmisgena þeirra í gegnum matvæli. Markmiðið ætti að vera að halda tíðni ónæmra baktería í fæðukeðjunni sem lægstri.  

 

  1. Smet A, Martel A, Persoons D, Dewulf J, Heyndrickx M, Herman L, et al. Broad-spectrum β-lactamases among Enterobacteriaceae of animal origin: molecular aspects, mobility and impact on public health. FEMS Microbiology Reviews. 2010;34(3):295-316.
  2. Glasner C, Albiger B, Buist G, Tambic Andrasevic A, Canton R, Carmeli Y, et al. Carbapenemase-producing Enterobacteriaceae in Europe: a survey among national experts from 39 countries, February 2013. Euro Surveill. 2013;18(28):20525.
  3. Dierikx C, van der Goot J, Fabri T, van Essen-Zandbergen A, Smith H, Mevius D. Extended-spectrum-β-lactamase- and AmpC-β-lactamase-producing Escherichia coli in Dutch broilers and broiler farmers. Journal of Antimicrobial Chemotherapy. 2013;68(1):60-7.
  4. NORM/NORM-VET 2012. Tromsø / Oslo: 2013.
  5. SWEDRES-SVARM 2012. Solna/Uppsala: Swedish Institute for Communicable Disease Control and National Veterinary Institute, 2013.
  6. Giufrè M, Graziani C, Accogli M, Luzzi I, Busani L, Cerquetti M. Escherichia coli of human and avian origin: detection of clonal groups associated with fluoroquinolone and multidrug resistance in Italy. Journal of Antimicrobial Chemotherapy. 2012;67(4):860-7.
  7. Thorsteinsdottir TR, Haraldsson G, Fridriksdottir V, Kristinsson KG, Gunnarsson E. Prevalence and Genetic Relatedness of Antimicrobial-Resistant Escherichia coli Isolated From Animals, Foods and Humans in Iceland. Zoonoses and Public Health. 2010;57(3):189-96.
  8. Overdevest I, Willemsen I, Rijnsburger M, Eustace A, Xu L, Hawkey P, et al. Extended-spectrum beta-lactamase genes of Escherichia coli in chicken meat and humans, The Netherlands. Emerg Infect Dis. 2011;17(7):1216-22.
  9. Leverstein-van Hall MA, Dierikx CM, Cohen Stuart J, Voets GM, van den Munckhof MP, van Essen-Zandbergen A, et al. Dutch patients, retail chicken meat and poultry share the same ESBL genes, plasmids and strains. Clin Microbiol Infect. 2011;17(6):873-80.
  10. Thorsteinsdottir TR HG, Fridriksdottir V, Kristinsson KG, Gunnarsson E. Broiler chickens as source of fluoroquinolone-resistant Escherichia coli, Iceland. Emerg Infect Dis. 2010;16(1):133-5.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is