Háskóli Íslands

Sumarexemsrannsóknir

Þróun ónæmismeðferðar gegn sumarexemi.

Staða rannsókna í ágúst 2016.

Unnið er að þróun bóluefnis gegn sumarexemi í hestum. Sumarexem er ofnæmi gegn próteinum (ofnæmisvökum) úr bitkirtlum smámýs (Culicoides spp.) en ofnæmið er yfirdrifin svörun ónæmiskerfisins gegn próteinum sem kvenflugurnar seyta er þær sjúga blóð.

Með hliðsjón af afnæmingum hjá fólki höfum við kosið að nálgast markmiðið eftir þremur leiðum: 1) Bólusetja í eitla með endurröðuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði. 2) Bólusetja með ofnæmisvakagenum á veiruferjum. 3) Bólusetja um slímhúð með byggi sem tjáir ofnæmisvaka. Möguleiki er síðan að blanda aðferðunum saman á mismunandi vegu. Til dæmis frumbólusetja með einni og endurbólusetja með annarri til að efla svarið.

 

Bólusetning í eitla með endurröðuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði:

Eitlar eru verkstöðvar ónæmiskerfisins og í mönnum hefur verið sýnt fram á að með því að sprauta í eitla í stað þess að sprauta undir húð, má fá mun öflugra svar og það á styttri tíma með minna magni af ofnæmisvökum. Ónæmisglæðar eru efni sem blandað er í ofnæmisvakana til þess að efla og stýra ónæmissvarinu. Þeir eru notaðir bæði í bólusetningum og afnæmingum.
Við höfum gert bólusetningatilraunir á hestum með endurröðuðum ofnæmisvökum og prófað mismunandi sprautunaraðferðir og ónæmisglæða. Sprautun í eitla reynist líkt og í fólki öflugasta aðferðin í hestum. Prófaðir hafa verið þrír mismunandi glæðar eða glæðablöndur. Niðurstöður eru birtar í eftirfarandi tveimur greinum í Vet. Immunol. Immunopathol. 2015 og 2016:
 
 
Í stuttu máli þá benda niðurstöðurnar til að bólusetning í eitla með blöndu af ónæmisglæðum sé vænleg leið fyrir stóra áskorunartilraun (sjá neðar). 

 

Bólusetning með ofnæmisvakagenum á veiruferjum:

Búið er að fullhanna eina gerð af veiruferju með ofnæmisvakageni og hún og viðeigandi samanburðarferjur hafa verið forprófaðar í trippum með tvenns konar bólusetningaraðferðum. Verið er að vinna úr sýnum og munu niðurstöður úr þeim leiða í ljós hvort ferjan er nothæf í bólusetningar. Samhliða er unnið að gerð annars konar veiruferju.

 

 

Bólusetning um slímhúð munns með byggi sem tjáir ofnæmisvaka:

Þrír ofnæmisvakar hafa verið tjáðir í byggi í samstarfi við ORF Líftækni. Sýnt hefur verið fram á að að hægt er að vekja sérvirkt mótefnasvar í blóði og munnvatni hesta með því að meðhöndla þá um munn með byggi sem tjáir ofnæmisvaka. Í samstarfi við við Cornell háskóla, Íþöku eru hafnar tilraunir þar sem reynt er að afnæma sumarexemshesta sem eru með ofnæmi gegn vökunum sem eru tjáðir í byggi. Í tengslum við þetta er unnið að því að rannsaka ónæmisvef í munnholi hrossa.

 

Áskorunartilraun 

Áskorunartilraun er eina leiðin til að prófa endanlega hvort að bólusetning virkar, sama hver bólusetningaraðferðin er. Hún felst í því að bólusetja 20 hesta t.d. með endurröðuðum ofnæmisvökum og ónæmisglæði og flytja síðan þessa hesta út á flugusvæði í Evrópu ásamt 10-20 óbólusettum samaburðarhestum. Þessi hross yrðu að vera öll á sama svæði í a.m.k 3 ár þar sem fylgst yrði með ónæmissvari þeirra og hvort þeir fái sumarexem. Áskorunartilraunin tekur langan tíma jafnframt því að vera mjög kostnaðarsöm og vinnufrek. Við þurfum því að vera nokkuð örugg um að efnið og aðferðin sem nota á, örvi rétta gerð af ónæmissvari, sé þaulprófað og valdi litlum eða engum aukaverkunum.

 

Styrktaraðilar verkefnsins 2014-2015:

Rannís. Eimskipafélagssjóður Háskóla Íslands, Framleiðnisjóður Landbúnaðarins, Rannsóknasjóður Háskóla Íslands, Þróunarfjárnefnd hrossaræktarinnar.

-------

Hvað er sumarexem?

Tíðni sumarexems

Hrossaútflutningur og sumarexem

Einkenni sumarexems

Sumarexem ofnæmi á Th2 braut ónæmissvars

Rannsóknarátak gegn sumarexemi

Rannsóknir á sumarexemi, samstarfsverkefni Keldna og Háskólans í Bern

Námsverkefni í sumarexemi

Greinar úr sumarexemisverkefninu

Styrktaraðilar sumarexemsverkefnis

Heimildir

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is