Háskóli Íslands

Sumarexem ofnæmi á Th2 braut ónæmissvars

Ofnæmissvar er ótímabært ónæmissvar gegn saklausum próteinum með framleiðslu á IgE mótefnum og bólgumiðum sem valda einkennunum. Ónæmiskerfið er varnarkerfi líkamans sem ver einstaklinga gegn innrásum sýkla s.s. baktería, veira, sveppa eða sníkjudýra. Kerfið bregst við sýklum með viðeigandi ónæmisvari sem sér, um að drepa, éta, leysa upp sýkla og sýktar frumur og taka til, hreinsa og græða í kjölfarið. Heilbrigðir einstaklingar bregðast ekki við saklausum próteinum sem þeir borða, anda að sér snerta eða fá við skordýrabit eða stungur. Ónæmiskerfi ofnæmissjúklinga bregst hins vegar við slíku áreiti og úr verður ofnæmissvar. Svarið getur verið af ýmsum toga t.d. ofnæmiskvef, heymæði, astmi, kláði, erting, bjúgur, útbrot, meltingaróþægindi og jafnvel ofnæmislost.

Sumarexem er ofnæmi eða ónæmissvar á svokallaðri Th2 braut, með framleiðslu á IgE mótefnum og bólgumiðlum sem valda exeminu.  Sýnt hefur verið fram á þetta bæði í blóði og í húð. Áberandi öflug Th2 svörun og IgE framleiðsla er hjá hestum sem fluttir er frá Íslandi til Evrópu (Hamza et al., 2007; Hamza et al., 2010; Hamza et al., 2008; Heimann et al., 2011).

Ónæmismeðferð felst í því að stýra ónæmissvari gegn ofnæmisvökunum inn á Th1 braut og efla svokallaðar Th-stýrifrumur (Th-bælifrumur) sem bæla ofnæmið. Bólusetning er þá forvörn þannig að hestarnir svara ofnæmisvökunum á Th1 braut þegar þeir hitta fluguna en afnæming er lækning á hestum með exem sem felst í því að beina svarinu af Th2 braut yfir á Th1 braut og efla sértækar Th-stýrifrumur til að bæla Th2 ofnæmissvarið.

Tilraunir á hrossum eru mjög dýrar, einstaklingsmunur er mikill svo endanlegir tilraunahópar verða helst að vera 10-20 hross til þess að marktækni náist. Flestar afnæminga- og bólusetningaðferðir sem eru viðurkenndar taka einnig langan tíma. Afnæmingu verður að framkvæma erlendis þar sem hross á Íslandi eru ekki með sumarexem og dýrara er að halda tilraunahross erlendis en hér. Vegna kostnaðar er áríðandi að reyna að stytta meðhöndlunartíma sem mest.

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is