Háskóli Íslands

Retróveiruhindrinn APOBEC3 í klaufdýrum

Föstudaginn 9. október  fór fram doktorsvörn frá Læknadeild Háskóla
Íslands. Þá varði Stefán Ragnar Jónsson líffræðingur doktorsritgerð sína “
The Antiretroviral APOBEC3 Proteins of Artiodactyls” (Íslenskur titill:
Retróveiruhindrinn APOBEC3 í klaufdýrum).

Andmælendur eru Dr. Klaus Strebel, National Institute of Allergy and Infectious Diseases, NIH, í Bethseda í Bandaríkjunum og Dr. Jón Jóhannes Jónsson, dósent við Læknadeild HÍ.

Leiðbeinendur Stefáns voru Dr. Valgerður Andrésdóttir, vísindamaður á Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum og Dr. Reuben S. Harris, dósent, Department of Biochemistry, Biophysics and Molecular Biology, University of Minnesota.

Aðrir í doktorsnefnd voru Dr. Ólafur S. Andrésson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, Dr. Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild HÍ, og Guðmundur Pétursson, prófessor emeritus, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.

Dr. Guðmundur Þorgeirsson, prófessor og forseti Læknadeildar Háskóla
Íslands, stjórnaði  athöfninni sem fór fram í stofu 132 í Öskju.

Ágrip úr rannsókn

Lífverur hafa frá örófi alda þróað með sér varnir gegn retróveirusýkingum.
Dæmi um slíkt eru APOBEC3 próteinin en þau eru fjölskylda af-aminasa sem
einungis er að finna í spendýrum. Mörg þessara próteina geta hindrað
retróveirur með því að af-aminera cýtósín í úrasil í erfðaefni veirunnar
meðan á víxlritun stendur. Lentiveirur, m.a. HIV hafa þróað mótsvar við
þessu, próteinið Vif (virion infectivity factor) sem stuðlar að niðurbroti
APOBEC3 próteina. Í þessu verkefni voru APOBEC3 gen og prótein klaufdýra
(nautgripa, kinda og svína) klónuð og virkni og sértækni þeirra athuguð.
APOBEC3 prótein klaufdýra gátu hindrað eftirmyndun HIV-1 og reyndust ónæm
fyrir áhrifum Vif próteins HIV-1.

Raðgreining erfðamengja manna og músa hefur leitt í ljós mikinn mun í
fjölda APOBEC3 gena milli dýrategunda, frá einu í músum til sjö í mönnum.
Leitað var í DNA söfnum sem innihéldu litninga DNA klaufdýra og APOBEC3
gen þessara tegunda fullraðgreind. Reyndust kindur og nautgripir hafa þrjú
APOBEC3 gen en svín tvö. Þessar niðurstöður benda til þess að
sameiginlegur forfaðir klaufdýra hafi haft þrjú APOBEC3 gen og þriðja
genið hafi tapast snemma í þróun suidae ættkvíslarinnar.

Tegundarsérhæfni leikur stórt hlutverk í samskiptum sýkils og hýsils.
APOBEC3 prótein virðast veita breiðvirka vernd gegn retróveirum, en hver
veira hefur þróað mótleik sem er sérsniðin að APOBEC3 próteinum viðkomandi
hýsils. Tjáning á APOBEC3 próteinum úr ólíkum tegundum gæti því hugsanlega
dregið úr veirusýkingum milli tegunda. Skortur á líffærum til líffæragjafa
hefur leitt af sér notkun efniviðar úr öðrum dýrategundum og er helst
litið til svína. Veirusýkingar hafa verið til umræðu eftir að sýnt var
fram á að innrænar retróveirur úr svínum (PERV) geta sýkt mannafrumur í
frumurækt. Við athuguðum hvort tjáning á APOBEC3 próteini úr annarri
dýrategund gæti hindrað færslu veira frá svínum til manna.
Samræktunartilraunir voru notaðar til að sýna fram á að stöðug tjáning
manna APOBEC3G í veiru-framleiðandi svínafrumum kom í veg fyrir sýkingu
yfir í mannafrumur. Þetta bendir til að nota mætti tjáningu próteina milli
tegunda til framleiðslu á hættuminni efnivið fyrir líffæragjafir.

Rannsóknirnar voru unnar á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að
Keldum og við Lífefna- og sameindalíffræðideild University of Minnesota

Um doktorsefnið

Stefán Ragnar Jónsson er fæddur árið 1977. Hann lauk stúdentsprófi frá
náttúrufræðibraut Menntaskólans í Kópavogi árið 1997 og B.Sc. gráðu í
líffræði frá Háskóla Íslands í júní 2000. Hann hóf meistaranám við
Læknadeild Háskóla Íslands árið 2001 og doktorsnám við sömu deild 2004.
Foreldrar Stefáns eru Jón Kr. Stefánsson lyfjafræðingur og Hanna G.
Ragnarsdóttir vefnaðarkennari.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is